Lífið

Úthugsaður tónlistarheimur

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Sycamore tree stefna á að gefa út plötu síðar á árinu og koma fram á tónleikum með hækkandi sólu.
Sycamore tree stefna á að gefa út plötu síðar á árinu og koma fram á tónleikum með hækkandi sólu. Mynd/Saga Sig
„Ég hafði sem sagt verið að vinna að músík í svolítinn tíma út frá ákveðinni hugmyndafræði – það er tónlist sem er ljúf og þægileg, með ákveðnum hljóm og fíling. Ég fór að vinna hana með Ómari Guðjónssyni, tónlistarmanni og snillingi. Við fórum að velta fyrir okkur hvaða söngkona væri fullkomin til að syngja þessa gerð af tónlist og Ágústa Eva var fyrsta nafnið sem okkur datt í hug. Hún er með frábæra rödd og frábæra túlkun, náttúrulega bæði söng- og leikkona sem þekkir þetta allt saman. Hún hefur líka ekkert rosalega mikið sungið, þannig lagað, af þessari tegund tónlistar – það er náttúrulega Sylvía Nótt, í leikhúsinu og með öðrum tónlistarmönnum en ekkert sem hefur auðkennt hana og náð útúr henni þessari hlið sem hentar henni svona vel,“ segir Gunni Hilmarsson, annar helmingur hljómsveitarinnar Sycamore Tree um hvernig verkefnið kom til.

„Í fyrra sumar þá hafði ég samband við Ágústu í gegnum Facebook og spurði hana hvort hún væri ekki til í að gera tónlist. Ég sendi henni svo nokkur lög og hún svaraði bara um hæl að hún fílaði þetta í botn. Síðan byrjuðum við síðasta sumar að hittast reglulega til að spila saman og vinna í lögum, finna „mood“ og hljóm og þessa hugmyndafræði bakvið verkefnið. Það var svo í lok sumars þegar við fórum að taka upp – við sendum frá okkur lagið My heart beats for you í október og það hefur hlotið frábærar viðtökur sem hafa svo aftur gefið okkur byr undir báða vængi. Hún var svo tilnefnd sem söngkona ársins á Hlustendaverðlaununum. Veturinn hefur svo nýst okkur vel að vinna lögin og plön um hvenær þau verða send út. Næsta lag frá okkur er lagið Don‘t let go sem kemur út núna um helgina og fer formlega í úvarpsspilun á mánudaginn.

Lagið sjálft er svona systir My heart beats for you á sinn hátt – það er sama sándið og lagið er tilfinningaríkt ástarlag sem fjallar elskendur sem eru að kveðjast og eru ekki viss um að þau sjái hvort annað aftur sem eðlilega fylgja tilfinningar. Þetta er ekki beint drama en ljúft og tilfinningaríkt lag sem ég held að sé ágætur endir á þessum dramatíska janúarmánuði. Þetta er svona „moodið“ núna finnst okkur og kannski verðum við aðeins meira happy þegar það fer að vora.“

Geturu sagt frá þessari hugmyndafræði sem er bakvið Sycamore tree?

„Ég að grunninum til fatahönnuður og hef í raun ekki starfað við neitt annað í fimmtán ár. Fyrir mér eru öll verkefni „konsept“ og eitthvað „mood.“ Tónlist er heimur og inn í honum er hljóð og mynd – ég er frekar upptekinn við að búa til útlit og konsept og áferð, því að ég vinn við það alla daga. Mér finnst öll verkefni sem takast vel hafa öll elementin – bæði þetta sjónræna og huglæga. Sérstaklega finnst mér í tónlist að allt yfirbragðið þurfi að tóna við tónlistina og allt að vera í stíl – alls ekki tilgerðalegt samt, frekar bara heiðarlegt útlit. Það var ákveðið útlit í kringum My heart beats for you og núna þegar við sendum frá okkur nýtt lag og uppfærum vefinn okkar þá breytist útlitið því að lagið er aðeins öðruvísi – þetta er kannski lúxusvandamálið við að vera fatahönnuður í hljómsveit.

Það er svo margt sem talar við hjartað í fólki í dag – miðlarnir hafa breytt allri upplifun. Þetta er ekki lengur bara plata bara með hljómsveitinni á umslaginu. Það er miklu meiri skynjun bakvið upplifunina. Við leggjum mikið upp úr þessu – músíkin er auðvitað númer eitt og upp í níu og við skiljum eftir eitt pláss til að láta allt annað tóna við tónlistina.“

Þú hefur verið að starfa sem fatahönnuður – hvernig kemur þú inn í tónlistina?

Ég hef í rauninni verið í tónlist allt mitt líf – ég var í bílsskúrshljómsveitum þegar ég var unglingur og það munaði engu að ég myndi leggja það fyrir mig að verða tónlistarmaður. Þegar ég var tvítugur þurfti ég að ákveða mig hvort ég ætti að fara til hægri eða vinstri og þá tók ég bara aðra beygjuna en ég hefði alveg eins getað tekið hina. Þannig að þetta verkefni beið bara alltaf betri tíma. En það hefur ekki liðið sá dagur síðustu tuttugu árin að ég hef ekki tekið upp gítarinn, hann er alltaf við hliðina á mér þó að ég sé að teikna föt – Þannig að það var bara kominn tími á þetta. Líka það að semja tónlist vitandi að Ágústa Eva er að fara að syngja hana er bara lúxusvandamál. Það verður líka til þess að maður fer að semja með hana í huga. Hún leggur svakalega mikið til tónlistarinnar, hún er mikill fagmaður og veit hvernig allt á að vera; sánd og núansar og annað.“

Hvað er framundan? Er plata á leiðinni?

„Það er allt í gangi. Við erum að vinna núna lag frá lagi og erum með nóg efni á fyrstu plötuna sem kemur út líklega í haust – hún kemur út á árinu, það er alveg öruggt. Síðan förum við að spila með hækkandi sól og auðvitað live núna á Hlustendaverðlaununum með stórhljómsveit – strengir og allt.“

Sycamore tree koma frá á Hlustendaverðlaununum sem eru næstu helgi. Lagið Don‘t let go fer síðan í almenna spilun í útvarpi á mánudaginn. Vefsíðu sveitarinnar má finna hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×