Veiði

Hliðarvatns dagurinn sunnudaginn 11.júní

Karl Lúðvíksson skrifar
Hlíðarvatn er eitt af vinsælustu bleikjuvötnum suðurlands og þangað sækja margir fyrstu reynsluna af vatnaveiði.

Á hverju ári bjóða veiðifélögin sem tengjast vatinu þeim sem hafa áhuga á að kynnast þessu frábæra veiðivatni frítt að veiða og við bakkann verða margir af reynsluboltunum við vatnið sem fara yfir það sem nauðsynlegt er að vita þegar haldið er til veiða í vatninu.

Í tilkynningu frá Ármönnum segir meðal annars: "Ármenn ætla að bjóða upp á grillaðar pylsur og nýbakaðar pönnukökur í Hlíðarseli og auðvitað verður heitt á könnunni og eflaust nægar veiði- og blíðviðrissögur á takteinum. Ef þannig viðrar verða einhverjar þrautir uppsettar þannig að gestir geta spreytt sig á hittni- og lengdarköstum með flugu og hver veit nema hægt verði að fá smá ráðleggingar reyndra Hlíðarvatnsmanna sem verða á staðnum.

Gestum verður heimil veiði í vatninu án endurgjalds frá morgni og fram undir kl.18  Veiðimenn eru hvattir til að skrá afla hjá einhverju veiðifélaganna áður en haldið er heim í lok dags.

Veiðifélögin sem standa að Hlíðarvatnsdeginum eru; Stangaveiðifélagið Stakkavík, Stangaveiðifélag Hafnarfjarðar, Stangaveiðifélag Selfoss, Ármenn og Stangaveiðifélagið Árblik. Veiðihús þessara félaga verða vel mönnuð frá morgni til kvölds, kaffi á könnunni og nægar tröllasögur til áheyrnar".

Athygli er vakin á að maí og júní eru uppseldir hjá Ármönnum, en eitthvað laust af leyfum í júlí, ágúst og september. Lausar stangir má finna á leyfi.is






×