Israel Martin, þjálfari Domino´s-deildarliðs Tindastóls hefur framlengt samning sinn við félagið um hálft þriðja ár en hann er nú samningsbundinn því til ársins 2020.
Þetta kemur fram á Feyki.is en þar segir að samhliða því að þjálfara meistaraflokk Tindastóls verði hann einnig yfirþjálfari félagsins til ársins 2020.
Israel Martin fór með Tindastól í lokaúrslit Domino´s-deildarinnar 2015 og tók aftur við liðinu af Joe Costa fyrr á þessari leiktíð. Liðið vann fimm leiki í röð undir stjórn Martins en tapaði svo fyrsta leik á nýju ári.
Tindastóll er þessa stundina að spila á móti ÍR á heimavelli sínum þar sem Skagfirðingar geta aftur komist á sigurbraut.
