Serbinn Novak Djokovic tapaði afar óvænt fyrir Denis Istomin í annarri umferð opna ástralska meistaramótsins í tennis í nótt. Djokovic hafði titil að verja á mótinu en hann hefur alls sex sinnum orðið meistari á opna ástralska.
Istomin er Úsbeki sem er í 117. sæti heimslistans í tennis. Þetta er í aðeins annað skipti síðan 2008 að Djokovic fellur úr leik í annarri umferð á stórmóti í tennis.
Úrslitin þýða að Andy Murray, efsti maður heimslistans, þykir nú líklegastur til að vinna mótið en hann hefur aldrei áður fagnað sigri á opna ástralska.
Murray hefur fimm sinnum spilað til úrslita í Ástralíu en alltaf tapað, þar af fjórum sinnum fyrir Djokovic.
Djokovic hefur á síðustu sjö árum aðeins tvívegis tapað fyrir tenniskappa sem er ekki meðal efstu 100 á heimslistanum. Það var í sumar er hann tapaði fyrir Juan Martin del Potro á Ólympíuleikunum.
Viðureignin í nótt tók tæpar fimm klukkustundir og komst Djokovic aldrei almennilega í gang. Istomin vann 7-6, 5-7, 2-7, 7-6 og 6-4.
„Þetta er stærsti sigur míns ferils og hefur mikla þýðingu. Nú finnst mér að ég geti veitt þeim bestu samkeppni,“ sagði Istomin.
Sport