Refsiábyrgð og umboðssvik Þorvaldur Gylfason skrifar 19. janúar 2017 07:00 Ákvæði hegningarlaga um umboðssvik (249. gr.) hljóðar svo: „Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi.“ Í öðru ákvæði sömu laga (243. grein) segir: „Fyrir brot þau, er í þessum kafla getur, skal því aðeins refsa, að þau hafi verið framin í auðgunarskyni.“ Í enn öðru ákvæði laganna (261. gr.) segir: „Hafi maður drýgt athafnir sams konar þeim, sem í 248.–250. gr. getur, án þess að auðgunartilgangur þyki sannaður, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 1 ári.“ Þessi ákvæði, séu þau lesin saman, virðast ekki setja fortakslaust það skilyrði að umboðssvikin séu vísvitandi auðgunarbrot heldur geta þau hugsanlega stafað af svo stórfelldu gáleysi að jafna megi til ásetnings og geta því talizt refsiverð. Hæstiréttur virðist líta svo á að fjártjónshætta geti dugað til sakfellingar þótt ekki sé sýnt fram á ótvíræðan auðgunarásetning hins brotlega. Þannig hefur Hæstiréttur t.d. sakfellt menn oftar en einu sinni fyrir gálaus útlán þrátt fyrir svo hljóðandi ákvæði hegningarlaga (18. gr.): „Fyrir gáleysisbrot skal því aðeins refsa, að sérstök heimild sé til þess í lögunum.“ Þessi skilningur laganna er í samræmi við skilgreiningu umboðssvika í orðabókum. Skv. viðtekinni merkingu orðsins eru umboðssvik ýmist framin af gáleysi eða að yfirlögðu ráði. Hliðstæður þekkjum við. Manndráp af gáleysi getur talizt refsivert líkt og morð að yfirlögðu ráði. Lögin heimila sérstaklega refsingu fyrir manndráp af gáleysi.Gáleysi er ekki gild afsökun Í árslok 2016 hafði Hæstiréttur dæmt 34 menn til samtals 87 ára fangavistar fyrir brot í tengslum við hrunið. Það gerir rösklega 2½ ár á mann að jafnaði. Af þessum 34 mönnum fengu 19 dóma m.a. fyrir umboðssvik. Gildir þá einu hvort fórnarlömb umboðssvikanna urðu fyrir fjártjóni þegar upp var staðið. Fjártjónshættan skiptir höfuðmáli. Gáleysisleg lánveiting banka til viðskiptavinar getur skv. lögum flokkazt undir umboðssvik jafnvel þótt bankamaðurinn sem veitir lánið hagnist ekki sjálfur á lánveitingunni og jafnvel þótt lánið skili sér til bankans á endanum með vöxtum án þess að eigendur bankans eða ábyrgðarmenn hans, þ.e. skattgreiðendur, verði fyrir tjóni. Kjarni málsins er að lánveiting sem stofnar hagsmunum banka í óeðlilega hættu án heimildar getur talizt refsiverð að lögum.Hvati til umboðssvika Launakerfi banka hvetur til umboðssvika. Það stafar af því að bankamönnum eru iðulega greiddir bónusar í hlutfalli við veitt lán án tillits til hvort lánsféð getur talizt líklegt til að skila sér aftur til bankans í lok lánstímans. Rammt kvað að þessum vanda árin fram að hruni þegar bankar veittu völdum viðskiptavinum svo kölluð kúlulán til hlutafjárkaupa. Kúlulán er lán sem lántakandinn þarf ekki að greiða af fyrr en í lok lánstímans, hvorki vexti né afborganir. Kúlulán til hlutafjárkaupa með veði í bréfunum einum voru einstefnulán í þeim skilningi að bankinn tók alla áhættuna í viðskiptunum og lántakandinn tók enga áhættu. Ef bréfin hækkuðu í verði um lánstímann gat lántakandinn staðið í skilum við bankann og haldið afganginum. Ef bréfin lækkuðu í verði eða urðu verðlaus eins og raunin varð í hruninu, sat bankinn eftir með sárt ennið meðan bankamaðurinn sem veitti lánið hagnaðist óbeint í gegnum bónusgreiðslur og lántakandinn hagnaðist beint á að þurfa ekki að standa í skilum. Hér er uppskrift að alþekktri svikamyllu. Þetta skýrir hvers vegna meira en helmingur allra dóma Hæstaréttar yfir bankamönnum varðar umboðssvik.Slagsíða á lögum eða dómum Ákvæði laganna um umboðssvik hefur haldizt óbreytt frá 1940. Ákvæðið heimilar að lánveitanda sé gerð refsing fyrir umboðssvik í bankaviðskiptum. Annars staðar í hegningarlögum (22. gr.) er veitt heimild til refsingar fyrir „liðsinni“ við brot. Ef bankamaður A lánar viðskiptavini B 100 mkr. til hlutafjárkaupa án veðs eða með veði í hlutabréfunum einum, þá getur dómstóll dæmt A sekan um umboðssvik, þ.e. fyrir að hafa ráðstafað fé bankans af vítaverðu gáleysi og stofnað hag bankans þannig í hættu, en B verður ekki gerð refsing fyrir gerninginn nema e.t.v. fyrir liðsinni við umboðssvikin. Þarna birtist slagsíða, ef ekki í lögunum sjálfum, þá í föllnum dómum. Kannski gerðu A og B með sér þegjandi samkomulag um að hlunnfara bankann og ættu því báðir að teljast sekir, annar um umboðssvik og hinn um liðsinni. Hvort sem slíku samkomulagi er til að dreifa eða ekki er viðskiptavinurinn B líklegur til að hagnast á slíkri lántöku, t.d. ef hann notar hluta lánsfjárins handa sjálfum sér frekar en að geyma hlutabréfin. Þetta er þekkt uppskrift að bankaráni innan frá eins og bandaríski hagfræðingurinn og lögfræðingurinn William K. Black lýsir í bók sinni The Best Way to Rob a Bank Is to Own One: How Corporate Executives and Politicians Looted the S&L Industry. Bandaríski stjórnmálafræðingurinn Charles Ferguson lýsir málinu eftirminnilega í Óskarsverðlaunamyndinni Inside Job. Niðurstaðan hefur orðið sú að bankamönnum er refsað fyrir brot sem lántakendur högnuðust ekki síður á eða stundum jafnvel fyrst og fremst. Þeir stjórnmálamenn og aðrir sem tóku áhættulaus lán máttu vita að þeir voru í reyndinni aðilar að bankaráni innan frá skv. þekktri formúlu. Enginn getur afsakað sig með því að þykjast ekki þekkja formúluna. Henni er m.a. lýst í merkri fræðiritgerð frá 1993 „Looting: The Economic Underworld of Bankruptcy for Profit“ eftir Nóbelsverðlaunahagfræðinginn George Akerlof, sem er kvæntur seðlabankastjóra Bandaríkjanna, og Paul Romer sem er nú aðalhagfræðingur Alþjóðabankans í Washington. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun
Ákvæði hegningarlaga um umboðssvik (249. gr.) hljóðar svo: „Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi.“ Í öðru ákvæði sömu laga (243. grein) segir: „Fyrir brot þau, er í þessum kafla getur, skal því aðeins refsa, að þau hafi verið framin í auðgunarskyni.“ Í enn öðru ákvæði laganna (261. gr.) segir: „Hafi maður drýgt athafnir sams konar þeim, sem í 248.–250. gr. getur, án þess að auðgunartilgangur þyki sannaður, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 1 ári.“ Þessi ákvæði, séu þau lesin saman, virðast ekki setja fortakslaust það skilyrði að umboðssvikin séu vísvitandi auðgunarbrot heldur geta þau hugsanlega stafað af svo stórfelldu gáleysi að jafna megi til ásetnings og geta því talizt refsiverð. Hæstiréttur virðist líta svo á að fjártjónshætta geti dugað til sakfellingar þótt ekki sé sýnt fram á ótvíræðan auðgunarásetning hins brotlega. Þannig hefur Hæstiréttur t.d. sakfellt menn oftar en einu sinni fyrir gálaus útlán þrátt fyrir svo hljóðandi ákvæði hegningarlaga (18. gr.): „Fyrir gáleysisbrot skal því aðeins refsa, að sérstök heimild sé til þess í lögunum.“ Þessi skilningur laganna er í samræmi við skilgreiningu umboðssvika í orðabókum. Skv. viðtekinni merkingu orðsins eru umboðssvik ýmist framin af gáleysi eða að yfirlögðu ráði. Hliðstæður þekkjum við. Manndráp af gáleysi getur talizt refsivert líkt og morð að yfirlögðu ráði. Lögin heimila sérstaklega refsingu fyrir manndráp af gáleysi.Gáleysi er ekki gild afsökun Í árslok 2016 hafði Hæstiréttur dæmt 34 menn til samtals 87 ára fangavistar fyrir brot í tengslum við hrunið. Það gerir rösklega 2½ ár á mann að jafnaði. Af þessum 34 mönnum fengu 19 dóma m.a. fyrir umboðssvik. Gildir þá einu hvort fórnarlömb umboðssvikanna urðu fyrir fjártjóni þegar upp var staðið. Fjártjónshættan skiptir höfuðmáli. Gáleysisleg lánveiting banka til viðskiptavinar getur skv. lögum flokkazt undir umboðssvik jafnvel þótt bankamaðurinn sem veitir lánið hagnist ekki sjálfur á lánveitingunni og jafnvel þótt lánið skili sér til bankans á endanum með vöxtum án þess að eigendur bankans eða ábyrgðarmenn hans, þ.e. skattgreiðendur, verði fyrir tjóni. Kjarni málsins er að lánveiting sem stofnar hagsmunum banka í óeðlilega hættu án heimildar getur talizt refsiverð að lögum.Hvati til umboðssvika Launakerfi banka hvetur til umboðssvika. Það stafar af því að bankamönnum eru iðulega greiddir bónusar í hlutfalli við veitt lán án tillits til hvort lánsféð getur talizt líklegt til að skila sér aftur til bankans í lok lánstímans. Rammt kvað að þessum vanda árin fram að hruni þegar bankar veittu völdum viðskiptavinum svo kölluð kúlulán til hlutafjárkaupa. Kúlulán er lán sem lántakandinn þarf ekki að greiða af fyrr en í lok lánstímans, hvorki vexti né afborganir. Kúlulán til hlutafjárkaupa með veði í bréfunum einum voru einstefnulán í þeim skilningi að bankinn tók alla áhættuna í viðskiptunum og lántakandinn tók enga áhættu. Ef bréfin hækkuðu í verði um lánstímann gat lántakandinn staðið í skilum við bankann og haldið afganginum. Ef bréfin lækkuðu í verði eða urðu verðlaus eins og raunin varð í hruninu, sat bankinn eftir með sárt ennið meðan bankamaðurinn sem veitti lánið hagnaðist óbeint í gegnum bónusgreiðslur og lántakandinn hagnaðist beint á að þurfa ekki að standa í skilum. Hér er uppskrift að alþekktri svikamyllu. Þetta skýrir hvers vegna meira en helmingur allra dóma Hæstaréttar yfir bankamönnum varðar umboðssvik.Slagsíða á lögum eða dómum Ákvæði laganna um umboðssvik hefur haldizt óbreytt frá 1940. Ákvæðið heimilar að lánveitanda sé gerð refsing fyrir umboðssvik í bankaviðskiptum. Annars staðar í hegningarlögum (22. gr.) er veitt heimild til refsingar fyrir „liðsinni“ við brot. Ef bankamaður A lánar viðskiptavini B 100 mkr. til hlutafjárkaupa án veðs eða með veði í hlutabréfunum einum, þá getur dómstóll dæmt A sekan um umboðssvik, þ.e. fyrir að hafa ráðstafað fé bankans af vítaverðu gáleysi og stofnað hag bankans þannig í hættu, en B verður ekki gerð refsing fyrir gerninginn nema e.t.v. fyrir liðsinni við umboðssvikin. Þarna birtist slagsíða, ef ekki í lögunum sjálfum, þá í föllnum dómum. Kannski gerðu A og B með sér þegjandi samkomulag um að hlunnfara bankann og ættu því báðir að teljast sekir, annar um umboðssvik og hinn um liðsinni. Hvort sem slíku samkomulagi er til að dreifa eða ekki er viðskiptavinurinn B líklegur til að hagnast á slíkri lántöku, t.d. ef hann notar hluta lánsfjárins handa sjálfum sér frekar en að geyma hlutabréfin. Þetta er þekkt uppskrift að bankaráni innan frá eins og bandaríski hagfræðingurinn og lögfræðingurinn William K. Black lýsir í bók sinni The Best Way to Rob a Bank Is to Own One: How Corporate Executives and Politicians Looted the S&L Industry. Bandaríski stjórnmálafræðingurinn Charles Ferguson lýsir málinu eftirminnilega í Óskarsverðlaunamyndinni Inside Job. Niðurstaðan hefur orðið sú að bankamönnum er refsað fyrir brot sem lántakendur högnuðust ekki síður á eða stundum jafnvel fyrst og fremst. Þeir stjórnmálamenn og aðrir sem tóku áhættulaus lán máttu vita að þeir voru í reyndinni aðilar að bankaráni innan frá skv. þekktri formúlu. Enginn getur afsakað sig með því að þykjast ekki þekkja formúluna. Henni er m.a. lýst í merkri fræðiritgerð frá 1993 „Looting: The Economic Underworld of Bankruptcy for Profit“ eftir Nóbelsverðlaunahagfræðinginn George Akerlof, sem er kvæntur seðlabankastjóra Bandaríkjanna, og Paul Romer sem er nú aðalhagfræðingur Alþjóðabankans í Washington. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.