Körfubolti

Kristófer stigahæstur í sigri Furman | Ekki á heimleið strax

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Kristófer Acox stuðaði marga á Twitter í dag með mynd af pizzusneið.
Kristófer Acox stuðaði marga á Twitter í dag með mynd af pizzusneið. vísir/ernir
 Kristófer Acox, leikmaður Furman í bandaríska háskólakörfuboltanum, átti sannkallaðan stórleik í 79-64 stiga sigri Furman gegn Campbell Fighting Camels en óvíst er hvaða liði Furman mætir í undanúrslitum College Insider Tournament.

Kristófer sem er á lokaári sínu í Furman-háskólanum er að leika síðustu leiki sína og lét hann heldur betur taka til sín í dag.

Var hann stigahæstur í liði Furman en heimamenn tóku níu stiga forskot inn í hálfleikinn og unnu að lokum fimmtán stiga sigur.

Kristófer var ekki aðeins stigahæstur en ásamt því að setja 24 stig tók hann tíu fráköst og lauk því leiknum með tvöfalda tvennu. Skotnýting Kristófers var til fyrirmyndar í leiknum en hann nýtti ellefu af tólf skotum sínum ásamt því að setja niður bæði vítaskot sín í leiknum.

Undanúrslitaleikurinn er á miðvikudaginn og kemur í ljós um helgina hvaða liði Furman mætir en úrslitaleikurinn fer svo fram á föstudaginn næstkomandi.

Það verður því einhver töf á væntanlegri heimkomu Kristófers í Dominos-deild karla en Kristófer sem er uppalinn í KR deildi á Twitter-síðu sinni mynd af pizzusneið í dag og voru margir fljótir að álykta að hann væri á heimleið.

Sé hann á heimleið verður einhver töf á því en það fer ekki framhjá neinum að hann yrði flottur liðsstyrkur fyrir KR.

Tíst Kristófers sem vakti mikla athygli:



Fleiri fréttir

Sjá meira


×