Lífið

Góði Úlfurinn veit ekki neitt um pólitík

Þórdís Valsdóttir skrifar
Góði Úlfurinn er yngsti flytjandinn á Vökunni.
Góði Úlfurinn er yngsti flytjandinn á Vökunni. Skjáskot
„Ég er ekkert að spá í pólitík, ég veit ekki neitt, ekki einu sinni hvað flokkarnir heita,“ segir Góði Úlfurinn en hann er yngsti flytjandinn á tónleikunum Vökunni sem haldnir verða annað kvöld í Valsheimilinu.

Góði Úlfurinn hefur slegið rækilega í gegn með lagi sínu Græða peninginn. Góði Úlfurinn er listamannsnafn, en hann heitir í raun Úlfur Emilio. Úlfur er ný orðinn tíu ára gamall og er nemandi í fimmta bekk í Austurbæjarskóla.

Hann kveðst vera mjög spenntur fyrir því að koma fram á Vökunni. Hann mun flytja lagið sitt vinsæla en segist vera byrjaður að vinna í nýju lagi. „Ég er sko byrjaður að semja nýtt lag, en bara byrjaður, ég er ekki búinn með það,“ segir Úlfur.  

Blaðamaður reyndi að ná upp úr honum nafninu á nýja laginu hans en án árangurs. „Nafnið er leyndó,“ segir Úlfur.

Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá myndbrot af Góða Úlfinum og Emmsjé Gauta í undirbúningi fyrir Vökuna.

Spilar á Prikinu á næstunni

Góði Úlfurinn þarf að bíða í nokkur ár enn áður en hann fær að kjósa og segist ekki vera byrjaður að spá neitt í pólitíkinni, enda nægur tími til stefnu.

Úlfur hefur haft í mörgu að snúast undanfarið, en eftir að hann gaf út Græða peninginn hefur hann verið duglegur að koma fram. „Það er mjög mikið að gera, ég var á Selfossi og fékk borgað fyrir það, svo var ég í H&M og er að fara að spila á Prikinu bráðum.“

Tónleikarnir eru hluti af átaki til að hvetja ungt fólk til að mæta á kjörstað. Góði Úlfurinn stígur á svið klukkan 20:50 og það er frítt inn á tónleikana.

Vakan er ætluð fyrir kjósendur og því er átján ára aldurstakmark inn á tónleikana. Miðað er við að einungis þeir sem hafa kosningarétt komist inn. Hægt er að kynna sér dagskránna og annað sem við kemur Vökunni á heimasíðu Vökunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.