Körfubolti

Dagný studdi „Gnúp-þjóðina“ til afar óvænts sigurs á Selfossi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir með Tómasi Steindórssyni, fyrirliða Gnúp-þjóðarinnar.
Dagný Brynjarsdóttir með Tómasi Steindórssyni, fyrirliða Gnúp-þjóðarinnar. mynd/Gnúpverjar
Gnúpverjar, nýliðar í 1. deild karla í körfubolta, eru heldur betur að koma á óvart við upphaf leiktíðar en þetta áhugaverða lið, sem var spáð neðsta sæti deildarinnar, vann sinn annan leik í röð í gærkvöldi.

Það gott betur en það heldur vann það nokkuð sannfærandi útisigur á FSu sem var spáð þriðja sæti fyrir tímabilið, 96-87. Þetta er annar sigur liðsins í röð en í síðustu umferð lögðu Gnúpverjar Skagamenn, 83-80.

Gnúpverjar er meira en bara lið, þetta er lífstíll, eða það er allavega eitt mottó liðsins. Enginn leikmaður fær greitt nema Bandaríkjamaðurinn Everage Lee Richardson sem skoraði 47 stig í gær. Aðrir eru í þessu af hugsjón.

Liðið er það besta í markaðssetningu í 1. deildinni og mögulega af öllum körfuboltaliðum á Íslandi en fyrir leiktíðina voru seldar derhúfur sem gilda sem ársmiðar á leiki liðsins og þá er liðið byrjað með sjónvarpsþátt á netinu.

Leikurinn í gær var sannkallaður suðurlandsslagur og í Iðu á Selfossi var drottning suðurlandsins mætt, Dagný Brynjarsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta.

Dagný skartaði Gnúpverja, eða Gnúp-þjóðar derhúfu, og fékk mynd af sér með Tómasi Steindórssyni, fyrirliða Gnúpverja, eftir leik. Sé allt satt og rétt sem kemur fram í leikskýrslu Gnúpverja er það uppáhaldsleikmaður hennar í liðinu.

Gnúpverjar mæta næst ósigruðu liði Skallagríms 2. nóvember í Kórnum klukkan 20.30 og verður fróðlegt að sjá hvort ævintýrið hjá Gnúp-þjóðinni haldi áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×