Lífið

Heitin strengd fyrir 2017

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Sif Sigmarsdóttir
Sif Sigmarsdóttir
Sif Sigmarsdóttir

rithöfundur



Mér var nýlega sagt að meðal mannshjartað slægi þrjúþúsund milljón sinnum áður en yfir lyki. Aðeins þrjúþúsund milljón sinnum – ef við erum heppin. Við þeirri staðreynd er hægt að bregðast með tvennum hætti. 1) Láta bugast af því hve grimmilega nauman tíma náttúran skammtar okkur. 2) Fyllast lotningu frammi fyrir hinni óendanlega flóknu fléttu tilviljana sem gæddi okkur þessu hverfula líffæri og nýta hvern einasta slátt þess til hins ýtrasta. Áramótaheit mitt er að velja síðari kostinn. Árið 2017 ætla ég að gera meira, hugsa minna og drekka meira kaffi.

 

Fréttablaðið/Antonbrink
Emmsjé Gauti 

rappari

Halda áfram að gefa út hittara sem fólk getur hlustað á meðan það stendur við áramótaheitin sín



Fréttablaðið/Vilhelm
Brynjar Níelsson

þingmaður Sjálfstæðisflokksins

Ég strengi aldrei nein heit fyrir utan það eina þegar ég kvæntist. Og ef mér dytti hug að strengja einhver heit væri það allra síst um áramót.



Fréttablaðið/Antonbrink
Þórunn Antonía

söngkona og útvarpskona á FM957

Að dansa meira og treysta. Svo langar mig mikið til þess að rekast á Bill Murray og fá mér með honum viskí-dreitil einhverstaðar í háhýsi í Japan - helst á karíókí bar. Lífið er nefnilega alveg drepfyndið og fullt af ævintýrum. 2017 verður ár sigra, hugrekkis og húmors.



Fréttablaðið/Antonbrink
Björt Ólafsdóttir

þingmaður Bjartrar framtíðar

Áramótaheitin eru sum orðin árleg. Svona meira eins og áminning en heit. Fara í ræktina og hitta vini okkar oftar. En svo er ég með annað splúnkunýtt. Ég ætla að dusta rykið af tungumálum sem ég hef lært. Hvort það verði danskan eða franska mun aðeins fara eftir því hvað ég sé fram á mikinn frítíma á komandi ári





Fréttablaðið/GVA
Sirrý Hallgrímsdóttir

aðstoðarmaður mennta- og menningarmálaráðherra

2017 verður ár heilsunnar. Ég ætla að hætta að borða nammi og fara í ræktina að lágmarki 4 sinnum í viku!





Fréttablaðið/Ernir
Eva Laufey Kjaran

Markmiðið er að eyða sem mestum tíma með fjölskyldu og vinum, borða mikið af góðum mat og ferðast. Semsagt njóta þess að vera til





Fréttablaðið/Arnþór
Kristín Ólafsdóttir

pistlahöfundur

Ég ætla að klára BA-gráðuna mína og prófa svo að vera ekki í skóla í fyrsta sinn síðan ég var 6 ára. Mig langar líka að verða betri í að samgleðjast öðrum og ég ætla að byrja að æfa mig í því strax í janúar. Samhliða því vil ég svo ná að hlaupa 10 km á brettinu í ræktinni og verða í kjölfarið spengileg eins og Steina systir mín.

 

Ólafur Arnarson. Fréttablaðið/GVA
Ólafur Arnarson

formaður Neytendasamtakanna

Ég ætla klárlega að hreyfa mig meira og komast gott form Tilgangurinn með þessu er vitanlega að stuðla að góðri heilsu og líkama sem vekur aðdáun í sundskýlu.



Unnur Ösp Stefáns

leikkona

Það er einfalt og gott áramótaheitið: horfa meira uppúr símanum og í andlit ástvina!





Kristófer Helgason

útvarpsmaður á Bylgjunni

Mitt markmið á nýju ári er að halda áfram að rækta heilsuna og hjálpa öðrum að gera slíkt hið sama í gegnum hitt starfið mitt - sem er að þjálfa og kenna fólki að sveifla ketilbjöllum í World Class á Selfossi.

Margeir Steinar Ingólfsson

plötusnúður

Ég ætla að vera góður við menn og málleysingja, brosa meira og svo skal mér takast að komast í splitt. En ég feilaði einmitt á því áramótaheiti á síðasta ári.





Kolbeinn Óttarsson Proppé

þingmaður VG

Þetta verða sérstök áramót hjá mér, því ég hyggst eyða þeim einn í sumarbústað í Þjórsárdal. Þar ætla ég að fara í smá uppgjör á lífi og löngunum og já, strengja einhvers konar heit í fyrsta skipti á ævinni. Það mun snúast um það að segja skilið við fortíðina, taka ábyrgð á gjörðum mínum og hefja nýjan kafla í lífinu með hreint blað.



Ragnheiður Elín Árnadóttir

iðnaðarráðherra

Áramótaheitin hafa verið hefðbundin í gegnum tíðina...svona "borða minna og hreyfa sig meira" áramótaheit. Nú stend ég hins vegar á svo miklum tímamótum persónulega að mér finnst ég verða að taka þetta alla leið. Ég verð fimmtug á árinu, er að breyta um starfsvettvang og hef einhvern veginn öll tækifæri möguleg til þess að gera 2017 að stórkostlegu ári. Ég ætla að vanda mig og velja vel. Sinna þeim sem ég hef vanrækt vegna stjórnmálastúss, hvort sem það eru vinir eða fjölskylda, einfalda líf mitt og hreinsa allan óþarfa í burtu. Taka til í skápum og skúmaskotum og bara gera skemmtilega hluti með skemmtilegu fólki. Og já..svo verð ég að fá mér nýja mjaðmakúlu. Íþróttameiðsl sko.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×