Handbolti

Hjálpaði Íslandi að komast á EM og hjálpaði svo til við að ganga frá

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Róbert Geir Gíslason og Arnór Atlason rífa upp dúkinn eftir leik.
Róbert Geir Gíslason og Arnór Atlason rífa upp dúkinn eftir leik. mynd/strákarnir okkar
Strákarnir okkar í handboltalandsliðinu komust á tíunda Evrópumótið í röð í gærkvöldi þegar þeir lögðu Úkraínu að velli í Laugardalshöll, 34-26.

Íslandi dugði ekkert minna en sigur og hann hafðist sannfærandi. Ísland verður því með á EM 2018 í Króatíu en þar verður liðið í fjórða styrkleikaflokki.

Samstaðan í liðinu og hjá þeim sem koma að því hefur alltaf verið einstök og hún sást enn og aftur eftir stórleikinn í gær sem var spilaður fyrir fullri Laugardalshöll.

Eins og alltaf þurfa starfsmenn HSÍ að vera fljótir að rífa dúkinn af gólfinu áður en þeir skila af sér Höllinni en í gær fengu þeir góða hjálp við það.

Arnór Atlason, einn reynslumesti leikmaður íslenska liðsins, átti nóg af orku eftir þrátt fyrir að vera á meðal elstu manna og hjálpaði framkvæmdastjóranum sjálfum, Róberti Geir Gíslasyni, að rífa upp dúkinn.

„Takk fyrir stuðninginn, þetta var frábært kvöld! Arnór Atlason var ekki hættur og kom með framkvæmdastjóranum í frágang eftir leik. Sjáumst í Króatíu í janúar!“ segir á Facebook-síðu Strákanna okkar.


Tengdar fréttir

Fóru fjallabaksleiðina á EM

Strákarnir okkar verða með á EM í Króatíu í upphafi næsta árs. Það varð ljóst eftir sannfærandi sigur á Úkraínu, 34-26. Þetta var hreinn úrslitaleikur um sæti á EM og pressan dró fram það besta í íslenska liðinu.

Guðjón Valur: Ekki hægt að fara á betri hátt í frí

Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handbolta, var að vonum mjög ánægður með flottan átta marka sigur á Úkraínu, 34-26, í Laugardalshöll í kvöld. Þungu fargi var létt af landsliðsfyrirliðanum eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×