Heimir Guðjónsson átti erfitt með að leyna ánægju sinni í leikslok eftir sigur FH á ÍBV í Pepsi-deild karla í kvöld. Steven Lennon tryggði FH sigur með marki á lokasekúndum leiksins.
„Það var frábært að skora á síðustu mínútunni og frábært að vinna þennan leik. Þetta var stór liður í að reyna að ná þessu Evrópusæti,“ segir Heimir í samtali við Vísi eftir leik.
Liðið situr í 2. sæti með leik til góða á liðin í kringum sig og með góða stöðu á KR og Stjörnuna sem koma á eftir. Í leiknum í kvöld leit ekki út yfir að FH myndi ná sigurmarkinu en það kom fyrir rest og Heimir gaf aldrei upp vonina.
„Nei, það er alltaf von. Við lentum í vandræðum með skyndisóknirnar þeirra og vorum að fá þá í stöði einn á móti einum,“ segir Heimir en ÍBV beitti skyndisóknum með Shahab Zahevi fremstan í flokki af miklum krafti, en hann skoraði mark ÍBV í leiknum.
Hann fór hins vegar út eftir 55. mínútna leik og var Heimir afar ánægður með það.
„Ég var nú manna fegnastur þegar Shahab fór af velli.“
