Körfubolti

Sveinbjörn: Bara fyndnir gaurar að búa til sjónvarp

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Sveinbjörn Claessen er ekki að æsa sig yfir ummælum manna í Dominos körfuboltakvöldi.
Sveinbjörn Claessen er ekki að æsa sig yfir ummælum manna í Dominos körfuboltakvöldi. vísir/anton
Reynsluboltinn Sveinbjörn Claessen er jafnan í stóru hlutverki í liði ÍR, bæði inn á vellinum og sem andlegur leiðtogi liðsins. Hann segir liðið hafa verið staðráðið í að spila vel eftir tapleikinn gegn Val í síðustu umferð.

„Þetta var ekki auðvelt. Þórsarar gáfu okkur hörkuleik að hluta til allavega. Við mættum bara virkilega grimmir eftir síðasta leik og vildum bæta upp fyrir hann,“ sagði Sveinbjörn eftir sigur ÍR á Þór fyrir norðan í kvöld.

„Menn voru svekktir en við vorum fullmeðvitaðir um að við áttum ekkert skilið út úr þeim leik. Í íþróttum hafa menn ekkert efni á að vanmeta lið og mig grunar að það hafi verið svolítið málið hjá okkur á móti Val,“ segir Sveinbjörn.

Jón Halldór Eðvaldsson, einn sérfræðinga í Körfuboltakvöldi, talaði um ÍR -liðið sem sprungna blöðru á föstudagskvöld. Sveinbjörn gefur lítið fyrir slík ummæli.

„Þeir eru að búa til sjónvarp. Þetta eru fyndnir gaurar að búa til sjónvarp og þeir mega bara segja það sem þeir vilja. Okkur er alveg sama.“

En hversu langt geta ÍR-ingar náð? Hafa þeir það sem til þarf til að berjast í efri hluta deildarinnar?

„Við tökum bara einn leik fyrir í einu. Við ætlum að vinna næsta leik og svo sjáum við bara til hvernig þetta fer í vor. Við erum með okkar markmið skýr. Spjallaðu bara við mig eftir síðasta leik í vor,“ sagði Sveinbjörn að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×