Enski boltinn

Real Madrid sagt ætla að gera Tottenham risa tilboð í Dele Alli

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dele Alli skorar mikið af mörkum.
Dele Alli skorar mikið af mörkum. vísir/getty
Spænska stórliðið Real Madrid er sagt ætla að gera Tottenham risa tilboð í enska miðjumanninn Dele Alli samkvæmt frétt enska blaðsins The Mirror í dag.

Real er sagt hafa fylgst með Dele í þó nokkurn tíma en spænska félagið hefur áður keypt stórstjörnur frá Tottenham á borð við Luka Modric og Gareth Bale sem báðir urðu Evrópumeistarar með Real Madrid síðasta vor.

Ekki kemur til greina að Dele Alli fari til Real í janúar þar sem spænska félagið má ekki kaupa leikmenn fyrr en næsta sumar en það er sagt vera að gera tilbúið hraustlegt tilboð fyrir næsta sumar.

Nái Real að kaupa enska miðjumanninn frá Tottenham er hann sagður fá væna launahækkun en Dele Alli er nýbúinn að skrifa undir langtíma samning við Spurs sem skilar honum 60.000 pundum í vikulaun.

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, hefur sagt opinberlega að leikmaðurinn sé ekki minna en 50 milljóna punda virði þannig Dele Alli verður ekki ódýr ætli Real að fjárfesta í honum næsta sumar.

Þessi tvítugi miðjumaður mætti til leiks með látum í ensku úrvalsdeildina á síðustu leiktíð og skoraði þá tíu mörk í 33 leikjum er Spurs tryggði sér sæti í Meistaradeildinni. Hann er búinn að skora átta mörk í 18 leikjum nú þegar en hann er uppalinn hjá MK Dons.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×