Lífið

Jón Gnarr fékk óvænta fimmtugsafmælisveislu: Segist vera best gifti maður í heimi

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Jóga og Jón Gnarr vinna mikið saman.
Jóga og Jón Gnarr vinna mikið saman. Vísir/Eyþór
Þúsundþjalasmiðurinn Jón Gnarr fagnar fimmtugsafmæli sínu í dag. Af því tilefni komu hans nánustu aðstandendur honum rækilega á óvart í gær með óvæntri afmælisveislu. Var Jón lokkaður að ljósmyndaskólanum þar sem Frosti sonur hans ætlaði að fá bíl foreldra sinna lánaðan.

„Fyrir utan skólann hittum við Sigurjón Kjartansson en sonur hans hafði verið við nám í skólanum. Ég var því algjörlega klúless þegar ég labbaði innum dyrnar og hópur fólks æpti: SÖRPRÆS!“ skrifar Jón í færslu á Facebook síðu sinni sem hann birti í gær.

„Jóga mín hafði skipulagt þetta vegna fimmtugsafmælisins míns á morgun. Þetta var líka afmælisveisla fyrir Frosta sem varð þrítugur fyrir nokkrum dögum. Og líka fyrir Fálka litla afastrák sem á einmitt sitt fyrta afmæli á morgun, fæddur sama dag og ég. Mér brá svo mikið að ég var í hálfgerðu sjokki. En ég jafnaði mig fljótt að vera með öllu þessu yndislega fólki sem eru vinir mínir og fjölskylda.“

 Í uppistandi sínu Ég var einu sinni nörd frá árinu 2000  talaði Jón um hve erfitt væri að eiga afmæli 2. janúar, sem oft er uppnefndur Vörutalningadagurinn. Þar sagðist hann oft hafa fengið heldur ómerkilegar afmælisgjafir og má með sanni segja að Jóga hafi náð að bæta upp fyrir það en Jón virðist vera mjög snortinn vegna veislunnar.

Sjá einnig: Jón lýsir týpískum ADHD-degi: Eiginkonan hálfgerður stuðningsfulltrúi í aukavinnu

Jón fer einnig fögrum orðum um Jóhönnu Jóhannsdóttur eða Jógu, eiginkonu sína, sem skipulagði veisluna og telur sig vera best gifta mann í heimi. Þau hjónin vinna mikið saman og unnu saman bæði að Borgarstjóranum og Áramótaskaupinu en næsta verkefni þeirra hjóna er að skrifa bók saman í Texas í Bandaríkjunum.

„Mitt hjónaband er mín mesta gæfa í lífinu. Án Jógu væri ég svo tíndur. Ég ku vera Íslandsmeistari í athyglisbresti. Ég er að auki með einhverja ógreinda bresti að auki og svo sérkennilegt mígreni sem hefur furðulegustu einkenni. Menn eins og ég fara yfirleitt tómar villigötur ef þeir hafa engan til að halda í hendina á. Við grínumst stundum með að hún sé stuðningsfulltrúi minn. Hún er það. En hún er líka sálufélagi minn og besti vinur. Og vinnufélagi. Og magnaðasta manneskja sem ég hef nokkurn tíman hitt, lesið eða heyrt um. Það er bara þannig. Ég held ég sé ekki bara best gifti maður á Íslandi heldur jafnvel í öllum heiminum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×