Júdókeppni WOW Reykjavik International Games lauk nú undir kvöld í Laugardalshöllinni. Þátttakendur voru 72 talsins, þar af 34 erlendir frá sjö löndum.
Á meðal keppenda voru verðlaunahafar frá Evrópu- og Grand Slam mótum og því um að ræða júdóveislu í háum gæðaflokki.
Tveir Íslendingar unnu til gullverðlauna, Þormóður Jónsson í +100 kg flokki og Janusz Komendera í -66 kg flokki.
Einnig unnu tveir Íslendingar silfurverðlaun, Hjördís Ólafsdóttir í -70 kg flokki og Pétur Szarek í -100 kg flokki.
Sérstakur gestur mótsins var gullverðlaunahafinn frá Ólympíuleikunum í Ríó í sumar, Lukas Krpalek frá Tékklandi, og þjálfari hans, Petr Lacina.
