Lífið

Aron Már: Ég er ekki lengur hræddur

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
„Það skiptir mig máli að hvetja aðra til að vera óhræddir við að tjá tilfinningar sínar. Ég er ekki lengur hræddur. Mér finnst mikilvægt að sætta sig við tilfinningar,“ segir Aron Már.
„Það skiptir mig máli að hvetja aðra til að vera óhræddir við að tjá tilfinningar sínar. Ég er ekki lengur hræddur. Mér finnst mikilvægt að sætta sig við tilfinningar,“ segir Aron Már. Visir/Antonbrink
Það skiptir mig máli að hvetja aðra til að vera óhræddir við að tjá tilfinningar sínar. „Fréttablaðið/AntonBrink
Ég ákvað að einbeita mér að öðru. Náminu, tónlist og verkefninu #allir gráta. Það fór alltof mikill tími í að framleiða efni fyrir Snapchat, ég þurfti að dvelja aðeins í raunveruleikanum,“ segir Aron um ástæður þess að hann hætti á Snapchat þegar vinsældir hans stóðu sem hæst. Hann fær sér kaffibolla á Kaffi Mílanó í hádegishléi frá námi sínu í Listaháskólanum og segir frá áætlunum sínum.

„Ég er að vinna miklu meira í tónlist núna en áður. Ég á stúdíó og ég og félagar mínir erum komnir á flug. Svo þarf ég að einbeita mér að náminu. Ég hélt að ég væri með betri stjórn á þessu en ég var að gefa samfélagsmiðlum of mikið vægi. Það bitnaði á náminu en ég náði nú að bjarga því fyrir horn,“ segir Aron.

Tálsýn á Snapchat

„Á Snapchat uppgötvaði ég að ég get gert ýmislegt sjálfur. En það var nú samt tálsýn.“

Aron fór síðasta vetur í heimsókn til heimsfrægu Snapchat-stjarnanna Chris Carmichael og Jerome Jarre í Los Angeles. „Ég var þar að leika mér. Fór kannski í von um að stækka áhorfendahópinn minn. Sem ég hefði getað gert en mér fannst ég ekki tilbúinn til að takast á við það. Kannski vegna þess að ég átti einlægt spjall við Jerome. Hann sagði mér í hreinskilni að þessi heimur væri rugl. Engar framfarir. Engin sköpun. Ef ég vildi gera eitthvað sem skipti máli, þá ætti ég að nota þá í eitthvað uppbyggilegt og nýtt.

Hann kynnti mig fyrir mörgum af þessum strákum sem eru áberandi á samfélagsmiðlum. Sumir sem líta út fyrir að vera ljúfir en eru bara að reyna að koma sér á toppinn.“

Aron tekur fram að hann eigi nú ekki við að samfélagsstjörnur séu allar yfirborðskenndar. „En þetta snýst allt um egóið. Þegar þér gengur vel þá vilja fullt af einstaklingum og fyrirtækjum nota þig til að græða á þér peninga. Og slík velgengni hrynur auðveldlega,“ bendir Aron á.

Þetta spjall opnaði á mér augun. Þeir vilja endilega fá mig inn á nýjan miðil sem þeir eru að stofna. Ég er með það á bak við eyrað að taka þátt. En þá mun ég gera það á mínum forsendum,“ segir hann.

Hugmyndin að samfélagsverkefni Arons, Allir gráta, kviknaði eftir heimsóknina.

Fékk aldrei svar

Aron missti fimm ára gamla systur sína, Evu Lynn, í ágúst árið 2011. Hún hafði verið í sumarbústað ásamt föður sínum og vinafjölskyldu þeirra frá Svíþjóð. Aron segir enn á huldu hvað gerðist en við krufningu kom í ljós að líklega hafi verið bakkað yfir hana. Honum hefur fundist erfitt að glíma við áfallið, sér í lagi af því að hann og fjölskylda hans fá engin svör frá konunni sem líklega keyrði yfir Evu Lynn.

„Við vitum ekki hvað gerðist í raun og veru því sakborningurinn hefur ekki talað um það. Ég sendi þessari konu bréf ári eftir lát Evu. Í bréfinu segist ég fyrirgefa henni, viti að þetta hafi verið slys.

Ég vilji bara vita hvað hafi gerst. Ég fékk aldrei svar við bréfinu. Það truflar mig, en eftir því sem tíminn líður þá áttar maður sig á því að maður getur ekki endalaust dvalið á þessum stað.“

Ýmislegt varðandi slysið á systur hans sækir á hann enn. „Pabbi var að kaupa í matinn á Selfossi. Þau höfðu öll verið saman í sundi en konan fer á undan heim með börnin. Svo fær hann símtal. Hún hringir og segir honum að eitthvað hræðilegt hafi gerst. Hann reyndi að halda í henni lífi. Svo kemur sjúkraþyrlan að sækja þau. Hann er læknir og með allan tímann. Það er svo skelfilegt að kannski hefði hún lifað ef það hefði verið til öndunargríma fyrir börn í þyrlunni. Það var bara til stór gríma sem var erfitt að halda að henni.

Ég sjálfur var nýkominn frá Eyjum og var í Nauthólsvík þegar mamma hringir í mig. Það hafði verið stirt á milli okkar um tíma svo mér fannst skrýtið að hún væri að hringja. Ég fór á spítalann og það hvarflaði ekki að mér annað en að það yrði í lagi með Evu. Hún var stundum að slasa sig og hefur næstum dáið áður.

Fékk taugaáfall

Í fjörutíu mínútur beið ég á spítalanum og talaði bara við sjálfan mig. Svo fengum við fregnirnar og ég trylltist. Ég man lítið annað en að ég var öskrandi á ganginum með sex lækna á bakinu að sprauta mig niður. Mér er alveg ljóst núna að ég fékk taugaáfall. En það vissi ég ekki þá,“ segir Aron.

Hann mætti í skólann nokkrum dögum síðar og brynjaði sig. „Ég setti upp grímu. Mætti snemma í skólann og fór seint heim. Flúði bara og bældi allt niður. Mér fannst bara þægilegra að vera í skólanum en heima. Heima var gríðarleg sorg og auðvitað varð mamma fárveik af áfallinu. Hún er nýfarin að stíga upp núna og vera aftur eðlileg. Mér finnst ég stundum hafa verið í föðurhlutverki síðustu ár. Það er erfitt hlutskipti þegar maður er svona ungur og vitlaus.“

Aron ræddi þó bæði við sálfræðinga og vini, þegar hann lítur til baka finnst honum að hann hefði mátt hafa fleiri að tala við. „Ég sagði stundum við sálfræðinginn minn að það væri skrýtið að vera kominn yfir þroska foreldra sinna. Á þessum tíma fannst mér ég hafa fáa til að leita til. En ég leitaði til þeirra sem mér fannst ég geta. Ég kláraði Verslunarskólann með þessa grímu á mér.“





Brynjaður

Aron komst inn í leiklistarnám við Listaháskólann en segist hafa verið of brotinn eftir áfallið til þess að geta einbeitt sér að náminu. „Ég var ekki tilbúinn andlega til að hefja þetta nám. Það var allt svo viðkvæmt. Og er meira að segja enn. Ég var á þessum tíma að prófa ýmislegt og að vinna með áfallið. En ég var enn brynjaður. Ég komst að því á þessum tíma að það er munur á því að vera persónulegur og nota eitthvað úr einkalífinu. Ég komst að því að ég var að ganga of mikið á sjálfan mig án þess að þurfa þess.“

Aron féll á árinu. Náði ekki jafnvægi í náminu vegna vanlíðunar. „Ég fór svo í aðgerð á öxl og var í fatla í þrjá mánuði. Það reyndist erfitt og ég fann fyrir þunglyndi. En góð vinkona kom til bjargar. Hringdi í mig og bauð mér hlutverk sem var sérsniðið að mér með fatlann. Ég endaði á því að leika í sýningu sem hét Ræflavík og var sett upp fyrir norðan.

Svo byrjaði nýtt skólaár en ég fór ekki í skólann. Ég ákvað þess í stað að gæta drengs á sveitabæ sem er með tauga- og hrörnunarsjúkdóm. Ég gætti hans í hálft ár. Þetta var dýrmætur tími og ég lærði að kæfa egóið.“

Leitaði svara

Hann ákvað að fara til Suður-Ameríku. Í ferðinni ákvað hann bæði að skoða heimshlutann og lenda í ævintýrum en líka að vinna með sjálfan sig og líðan sína. „Ég var í Suður-Ameríku í fjóra mánuði og ferðaðist vítt og breitt um álfuna. Kærastan mín kom og var með mér síðasta mánuðinn en annars ferðaðist ég með félaga mínum.

Þessi ferð breytti mér. Ég fór í ferðalagið líka til þess að leita svara. Finna leið út úr vanlíðan. Mér finnst sem það hafi tekist vel. Mér hefur aldrei liðið jafn vel og þegar ég kom heim. Mér fannst ég vera nýr maður, tilbúinn til að takast á við vandamálin. Hildur, unnusta mín, hefur líka verið eins og klettur og stutt mig í gegnum þetta allt saman, hún er stór partur af góðri líðan minni í dag.“

Ekki setja upp grímu

Aron hóf nýtt skólaár síðasta haust. Honum finnst hann ganga einbeittari til verks. Í meiri tengslum við sjálfan sig. „Mér finnst ég hafa lært margt. Og það gerir fólk almennt þegar það lendir í áföllum og tekst á við þau. Það tekur bara tíma og það er kannski ýmislegt sem svona villir af leið og tefur. En svo kemur þetta. Nú er stefnan að standa mig vel og gera það sem kallar. Núna er það skólinn fyrst og fremst, svo tónlistin og þetta mikilvæga verkefni, Allir gráta. Það skiptir mig máli að hvetja aðra til að vera óhræddir við að tjá tilfinningar sínar. Ég er ekki lengur hræddur. Mér finnst mikilvægt að sætta sig við tilfinningar. Setja ekki upp grímuna heldur umkringja sig góðu fólki og læra svo að sætta sig við það sem hefur gerst og tilfinningar sem kvikna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×