Lífið

Tobba snýr vörn í sókn: „Ég held að Íslendingar eigi heimsmet í að móðgast fyrir hönd annarra“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Tobba Marinósdóttir bjóst ekki við þeim viðbrögðum sem Facebook-færsla hennar um klæðaburð tiltekins manns í hátíðarkvöldverði Margrétar Þórhildar Danadrottningar í Amalíuhöll í gær fékk. Hún segir að hún hafi verið að grínast og að Íslendingar eigi heimsmet í að móðgast fyrir hönd annarra.

„Ég held að Íslendingar eigi heimsmet í að móðgast fyrir hönd annarra. Ég sjálf hef alveg tekið það að mér þannig að ég ætla ekki að kasta steinum úr glerhúsi. Það verður þarna mikil óánægja með að ég þekki ekki grænlenska þjóðbúninginn og hverslags kjáni ég sé,“ sagði Tobba í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag þar sem hún svaraði fyrir mikið fjaðrafok sem varð á Facebook vegna færslu hennar.

Með færslu Tobbu mátti sjá mynd af Ágústu Johnson, eiginkonu Guðlaugar Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra. Við hlið hennar var maður sem virtist vera í hvítri hettupeysu. Velti Tobba því fyrir sér hver færi í slíkri hettupeysu í hátíðarkvöldverð. Óhætt er að segja að internetið hafi farið á hliðina líkt og lesa má um hér.

Sjá einnig: Uppnám á Facebook eftir færslu Tobbu um grænlenska „hettupeysu“

Friðrik og María Elísabet í heimsókn á Grænlandi. Þau klæðast grænlenska þjóðbúningnum á myndinni.Vísir/EPA
Í ljós kom að maðurinn sem um ræðir er Kim Kielsen, formaður Siumut-flokksins og formaður grænlensku landstjórnarinnar. Var hann klæddur í grænlenska þjóðbúningin.

„Ég leyfði mér að grínast með það hvort að maðurinn væri í hettupeysu í höll. Mér fannst það eitthvað fyndið. Þessi mynd grípur,“ sagði Tobba og benti á andstæðurnar sem sjá mátti á myndinni.

„Hann er þungur á svip og hún brosandi, hún í blúndukjólnum og hann í einhverju alvöru hvítu sem líkist stakk eða peysu,“ sagði Tobba og bætti við að í ljósi þeirra hefða sem ríki í kringum dönsku konungsfjölskylduna hefði henni þótt þetta undarlegt.

Tobba var sökuð um dónaskap og að hún væri að gera lítið úr grænlenskri menningu. Hún segir þó að hún hafi verið að grínast og hafi helst unnið það sér til sakar að þekkja ekki grænlenska þjóðbúninginn sem varla gæti talist mikið sakarefni.

„Sumir gátu hlegið að þessu en öðrum fannst þetta erfitt. Ég viðurkenni fúslega að ég vissi ekki hver þessi maður var og ég vissi ekki að þetta væri grænlenski þjóðbúningurinn. Ég get ekki séð að það sé dónaskapur að þekkja ekki grænlenska þjóðbúninginn,“ sagði Tobba

Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×