Lífið

Uppnám á Facebook eftir færslu Tobbu um grænlenska „hettupeysu“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Tobba Marinósdóttir var um tíma ritstjóri Séð og Heyrt en fjallar nú um mat á Mbl.is.
Tobba Marinósdóttir var um tíma ritstjóri Séð og Heyrt en fjallar nú um mat á Mbl.is. vísir/anton
Fjölmiðlakonan Tobbu Marinósdóttur varð verulega undrandi þegar hún skoðaði myndirnar sem ljósmyndari Morgunblaðsins tók í hátíðarkvöldverði Margrétar Þórhildar Danadrottningar í Amalíuhöll í gær.

Meðal gesta var Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og kona hans Ágústa Johnson. Við hlið Ágústu sat maður sem Tobba kannaðist ekki við og var öðruvísi klæddur en aðrir gestir.

„Okei hver fer í veislu í höll í hettupeysu?“ spyr Tobba á Facebook í morgun og virkar við fyrstu sýn hneyksluð á klæðaburði umrædds manns.

Færslan og umræðan í kjölfarið hefur vakið mikla athygli enda tengsl Íslendinga við Grænland í kastljósinu þessa stundina vegna máls Birnu Brjánsdóttur.
Friðrik og María Elísabet í heimsókn á Grænlandi. Þau klæðast grænlenska þjóðbúningnum á myndinni.Vísir/EPA
Tveir Grænlendingar eru í einangrun grunaðir um manndráp. Grænlenska þjóðin minntist Birnu í vikunni og greinilegt að málið snertir Grænlendinga mjög.

Vinkona Tobbu, Sigrún Jónsdóttir, er fljót að svara því að þarna sé á ferðinni þjóðbúningur Grænlands og í framhaldinu kemur í ljós að um engan annan er að ræða að Kim Kielsen, formann Siumut-flokksins og formanni grænlensku landstjórnarinnar.

Innlegg vina Tobbu virðast ekki hafa nein áhrif á skoðun hennar þess efnis að um undarlegan klæðaburð sé að ræða. Og fleiri taka undir. Aðrir benda á að við hæfi væri að bera virðingu fyrir þjóðbúningi Grænlendinga.

Þá deilir einn vinur Tobbu mynd af Margréti Þórhildi og Hinriki prins þar sem sá síðarnefndi klæðist umræddum þjóðbúning og skartar um leið orðum. 

Tobba svarar að bragði og slær á létta strengi: „Án blingsins er þetta hettupeysa ...á ekki að vera neitt meira á honum? Bara hvít peysa?“
Ragnhildur Sverrisdóttir, talsmaður Björgólfs Thors Björgólfssonar.
Árni Björn Helgason biður Tobbu um að „hætta að drulla yfir annarra þjóða hefðir og menningu.“ Tobba sver af sér allar sakir, hún hafi aðeins velt upp þessari spurningu og hún standi fast á henni.

„Á mynd virðist þetta ansi líkt hvítri beisik hettupeysu. Ég veit reyndar ekki úr hvernig efni þetta er. Ég er enn bara að velta þessu fyrir mér. Það er ekki dónskapur gott fólk.“

Fjölmiðlakonan Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Björgólfs Thors Björgólfssonar, biður Tobbu um að hætta að moka, hún sé komin svo djúpt.  

„Óskaplega er fólk viðkvæmt. Ekkert má ræða lengur. Það þíðir ekkert að reiðast þó ég þekki ekki grænlenska þjóðbúninginn og finnist hann undarlegur. Hættum nú öll þessu tuði. Er ég sum sé eina manneskjan sem þekki ekki þennan búning og viðurkenni að mér finnist hann skrítinn?“ spyr Tobba og ekki sér fyrir endann á umræðunni sem sjá má hér að neðan.

Ragnhildur hefur sjálf fjallað um grænlenska þjóðbúninginn sem er hvítur anórakk við dökkar buxur og dökkum kamikkum. Kvenbúningurinn er hins vegar mun skrautlegri.

Guðni ávarpar gesti hátíðarkvöldverðarins í gær á dönsku. Hefur honum verið hrósað fyrir dönskuna.vísir/epa
Fram kemur á vefsíðu forseta Íslands að forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, bað um fund með Kim Kielsen eftir kvöldverðarboð drottningar.

„Ræddu þeir um leiðir til að styrkja og efla samskipti Íslands og Grænlands á ýmsum sviðum. Ákveðið var að samræðum um þessi mikilvægu mál hinna tveggja vinaþjóða skyldi haldið áfram,“ segir á vefsíðu forseta Íslands.

Táknmynd mjög góðs húmors

Fjölmiðlakonan Björk Eiðsdóttir, vinkona Tobbu, finnst þráðurinn stórfyndinn og segir að hana langi í grænlenskan þjóðbúning.

Þá hrósar Stefán Karl Stefánsson leikari Tobbu fyrir húmorinn.

„Ég elska fólk sem hefur ekki húmor, ekki vegna þess að það er leiðinlegt, heldu vegna þess að það skilur ekki húmor. Þá langar mann svo að snúa húmorsleysinu í sárinu,“ segir Stefán Karl sem þekktur er fyrir að slá á létta strengi.

„Þessi status þinn er náttúrulega ekkert annað en táknmynd mjög góðs húmors, eins og þú er þekkt fyrir.“

Hér fyrir neðan má sjá upptöku af útsendingu DR frá heimsókn Guðna Th. Jóhannessonar forseta til drottningar Danmerkur og heiðurskvöldverðinum í Amalíuborgarhöll í gær. Þar má meðal annars horfa á þegar gestir mæta til veislunnar og ræður drottningar og forseta en þær hefjast eftir um tuttugu mínútur af upptökunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×