Bílar

Opna hlöður í Vík og á Kirkjubæjarklaustri

Aðalheiður Ámundadóttir og Finnur Thorlacius skrifa
Hafrún Þorvaldsdóttir, sölustjóri hjá ON, og Sindri Már Jónsson, vaktstjóri N1 í Skaftárskála opnuðu nýju hlöðuna við þjónustustöð N1 á Kirkjubæjarklaustri.
Hafrún Þorvaldsdóttir, sölustjóri hjá ON, og Sindri Már Jónsson, vaktstjóri N1 í Skaftárskála opnuðu nýju hlöðuna við þjónustustöð N1 á Kirkjubæjarklaustri.
Orka náttúrunnar og N1 opnuðu í gær hlöður með hraðhleðslu fyrir rafbíla við þjónustustöðvar N1 í Vík og á Kirkjubæjarklaustri. ON rekur nú alls 19 hlöður víðs vegar um landið og eru sex af þeim við þjónustustöðvar N1. Fyrstu hraðhleðslurnar voru settar upp í Reykjavík árið 2014 og frá þeim tíma hefur ON stuðlað að aukinni rafbílavæðingu á Íslandi. Á þessum þremur árum hefur rafbílum, sem nýtt geta hraðhleðslurnar, fjölgað ört.

,,Það er afar ánægjulegt að opna þessar tvær nýju hlöður í Vík og á Kirkjubæjarklaustri í góðu samstarfi við N1. Við hjá ON kunnum samstarfsaðilum okkar miklar þakkir. Við erum á góðri leið með að opna hringinn kringum landið með hraðhleðslum og á næstunni munum við opna við Jökulsárlón og í Freysnesi. Við leggjum mikla áherslu á uppbyggingu innviða fyrir rafbíla sem býður upp á umhverfisvænni og hagkvæmari samgöngur,” segir Hafrún Þorvaldsdóttir, sölustjóri hjá Orku náttúrunnar.

Guðný Rósa Þorvarðardóttir, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs N1, segir að rafmagn sé orðið hluti af vöruframboði þjónustustöðva. ,, Nú er unnið að því að koma upp hraðhleðslum fyrir rafbíla í samstarfi við Orku náttúrunnar hringinn í kringum landið. Framtíðarsýnin er sú að fólk á ferð geti náð sér í orku inni á þjónustustöðinni um leið og bíllinn er í hleðslu fyrir utan,“ segir Guðný Rósa.






×