Lífið

Vitnaði í Big Bang Theory í ræðustól Alþingis: „Fjör með fánum“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Viktor Orri Valgarðsson í ræðustól Alþingis í dag.
Viktor Orri Valgarðsson í ræðustól Alþingis í dag.
Viktor Orri Valgarðsson, þingmaður Pírata, vakti kátínu annarra þingmanna í dag þegar hann kvaddi sér hljóðs í umræðu um frumvarp sex þingmanna Vinstri grænna þess efnis að ekki verði lengur refsivert að móðga erlenda þjóðhöfðingja. Vitnaði hann í sjónvarpsþáttinn Big Bang Theory og bauð upp á leik sem hann kallaði „Fjör með fánum“ með Viktori Orra Valgarðssyni.

Þingmaðurinn fagnaði því að frumvarpið væri komið fram og sagði að 95. grein almennra hegningarlaga, sem kveður á um þessa refsiverðu háttsemi, væri löngu orðin úrelt.

Í greininni er þó ekki aðeins kveðið á um að ekki megi móðga erlenda þjóðhöfðingja heldur er einnig refsivert að smána þjóðfána erlends ríkis, fána Sameinuðu þjóðanna eða Evrópuráðsins. Í þessu samhengi dró Viktor Orri fram mynd af fána Sameinuðu þjóðanna.

„Ef mér finnst fáni Sameinuðu þjóðanna ekki vera fallegur eða vel hannaður og ég lýsi þeirri skoðun minni opinberlega þá varðar það við almenn hegningarlög að smána þennan fána. Við erum sem sagt komin í uppsetningu Alþingis á „Fun with flags“ með Sheldon Cooper eða „Fjör með fánum“ með Viktori Orra Valgarðssyni eins og ég kýs að kalla það,“ sagði þingmaðurinn og uppskar hlátur í þingsal.

Hann sýndi svo einnig fána Evrópuráðsins og svo tvo fána sem Atli Jasonarson vinur hans hafði hannað en þeir ímyndaðir fánar og ekki til í alvöru. Vildi Viktor Orri benda á fáránleika í því að mega smána fána Atla en ekki fána Evrópuráðsins.

„Þetta er að hluta til til gamans gert en einnig til að vekja athygli á fáránleika þessarar löggjafar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.