Enski boltinn

Hazard: Ef það er ekki verið að sparka mig niður er ég ekki að standa mig

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eden Hazard fær að finna fyrir því.
Eden Hazard fær að finna fyrir því. vísir/getty
Eden Hazard, leikmaður Chelsea í ensku úrvalsdeildinni, er hrifinn af því þegar mótherjar hans eru að sparka hann niður trekk í trekk því þá líður honum eins og hann sé að spila leik.

Hazard er sá leikmaður sem er brotið oftast á í ensku úrvalsdeildinni. Búið er að brjóta 67 sinnum á Hazard í vetur en næstur á listanum er Wilfried Zaha sem brotið hefur verið 66 sinnum á.

Belginn í Chelsea-liðinu fékk að finna fyrir því í 3-1 sigrinum á Arsenal í hádeginu síðasta laugardag þar sem Francis Coquelin og Skodra Mustafi gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að stöðva Hazard.

Spörkin voru nokkur ansi hörð og sást Hazard haltra eftir leikinn. Hann gekk þó brosandi af velli og er ekkert sár því svona vill hann hafa hlutina.

„Mér líður virkilega eins og ég sé inn í leiknum þegar það verið að sparka á fullu í mig. Ef það er ekki verið að sparka mig niður er ég ekki að standa mig, bara alls ekki,“ sagði Hazard við blaðamenn eftir sigurinn um helgina.

„Ég er ekki að segja að ég hafi gaman að því að láta sparka mig niður en það er gott fyrir mig að finna virkilega fyrir því að ég sé að spila leik. Þetta hvetur mig áfram,“ sagði Eden Hazard.

Chelsea er sem fyrr á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með 59 stig og hefur sex stiga forskot á Tottenham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×