Enski boltinn

Zlatan skorað að minnsta kosti 20 mörk tíu tímabil í röð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Zlatan Ibrahimovic skoraði annað mark Manchester United í 3-0 sigri liðsins gegn Englandsmeisturum Leicester í gær er United- færðist nær Liverpool í baráttunni um Meistaradeildarsæti.

Þetta var 20. mark Zlatans á leiktíðinni fyrir Manchester United í öllum keppnum. Hann er búinn að skora fimmtán mörk í ensku úrvalsdeildinni, tvö í Evrópudeildinni, tvö í deildabikarnum og þá skoraði hann eitt mark er United vann Leicester í leiknum um Samfélagsskjöldinn í byrjun leiktíðar.

Zlatan er nú búinn að skora að minnsta kosti 20 mörk á hverju tímabili tíu ár í röð en síðast skoraði hann undir 20 mörk leiktíðina 2006-2007. Þá skoraði Svíinn fimmtán mörk í Seríu A og ekkert meira í öðrum keppnum fyrir Inter.

Tímabilið eftir það skoraði Zlatan 22 mörk í 34 leikjum fyrir Inter í öllum keppnum og hefur ekki farið undir 20 mörkin síðan. Hann hefur á þessum tíma spilað fyrir Inter, Barcelona, AC Milan og Paris Saint-Germain.

„Ég er með markmið í höfðinu á mér en ég gef ekkert upp. Ég set mér markmið fyrir hverja leiktíð. Ég skoraði 27 deildarmörk í fyrra og tölfræðin mín er svipuð og undanfarin tímabil,“ sagði Zlatan Ibrahimovic um markaskorunina eftir leikinn í gær.

Áratugur Zlatans:

2007-2008 22 mörk í 34 leikjum fyrir Inter

2008-2009 29 mörk í 47 leikjum fyrir Inter

2009-2010 21 mark í 45 leikjum fyrir Barcelona

2010-2011 22 mörk í 42 leikjum fyrir AC Milan og Barcelona

2011-2012 35 mörk í 44 leikjum fyrir AC Milan

2012-2013 35 mörk í 46 leikjum fyrir PSG

2013-2014 41 mark í 46 leikjum fyrir PSG

2014-2015 30 mörk í 37 leikjum fyrir PSG

2015-2016 50 mörk í 51 leik fyrir PSG

2016-2017 20 mörk í 33 leikjum fyrir Manchester United

Samtals: 305 mörk í 425 leikjum eða 0,7 mörk í leik


Tengdar fréttir

Zlatan sló enn eitt metið

Er orðinn elsti leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar sem skorar fimmtán mörk á einu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×