Lífið

Varð ein taugahrúga þegar hún sá að Villi Vill hafði hringt í hana en ekki var allt sem sýndist

Stefán Árni Pálsson skrifar
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson yngri hafði greinilega gaman af tísti Brynhildar þrátt fyrir að hafa hvergi komið nálægt símtalinu misheppnaða.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson yngri hafði greinilega gaman af tísti Brynhildar þrátt fyrir að hafa hvergi komið nálægt símtalinu misheppnaða. Vísir/GVA/aðsend
Brynhildi Bolladóttur, pistlahöfundi á Rás 1 og lögfræðingi, brá í brún í gær þegar hún sá að hún hafði misst af símtali frá Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni hæstaréttarlögmanni. Hún upplýsti um þetta fjaðrafok á Twitter í gær og var greinlega ekki sama.

Hún hafi í kjölfarið farið að skoða allt sem hún hefur skrifað og látið út úr sér á netinu væntanlega til að komast að því hvort verið væri að stefna henni fyrir einhver ummæli. Var hún að eigin sögn ein taugahrúga.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður hefur nefnilega verið nokkuð iðinn við kolann undanfarin ár að stefna fólki fyrir ærumeiðandi ummæli og blaðamönnum sömuleiðis fyrir umfjöllun sem hann telur brjóta í bága við lög.

Brynhildur hringdi að lokum til baka í Vilhjálm en niðurstaðan var ekkert sérstaklega dramatísk. Skakkt númer. Og þá er ekki öll sagan sögð.

Tístið vakti mikla athygli og ekki síður þegar Vilhjálmur sjálfur deildi tísti Brynhildar með textanum:

„Nú veit ég hvers vegna enginn svarar símtölum frá mér…“

Upplýsti hann að það hefði ekki verið hann sjálfur sem hringdi fyrir mistök í Brynhildi. Heldur var það alnafni hans, karl faðir hans, sem sömuleiðis er hæstaréttarlögmaður.

„Það sem gerir þetta reyndar enn fyndnara er að það var pabbi sem hringdi óvart í Brynhildi,“ sagði Vilhjálmur yngri í færslunni.

Þetta er langt í frá fyrsta skiptið sem ruglast er á feðgunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×