Hlutabréf í Icelandair Group lækkuðu í verði um 0,5 prósent í dag í 1,5 milljarða króna viðskiptum. Gengi bréfanna var 16,025 krónur á hlut við lokun markaða. Öll hin fyrirtækin á Aðallista Kauphallar Íslands hækkuðu eða stóðu í stað.
Bréf HB Granda hækkuðu mest eða um 4,5 prósent í 170 milljóna króna viðskiptum. Velta með bréf N1 var 679 milljónir og hækkuðu þau um rétt rúm fjögur prósent. Fjögur fyrirtæki rufu þriggja prósenta múrinn eða Síminn, Fjarskipti (Vodafone á Íslandi), Sjóvá og Vís. Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hækkaði í dag um 0,88 prósent í 10,2 milljarða viðskiptum.
