Sport

Stelpurnar náðu ekki að fylgja eftir stórsigrinum frá því í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Valli
Íslenska kvennalandsliðið í íshokkí tapaði í kvöld 4-2 á móti Mexíkó í öðrum leik sínum í 2. deild í heimsmeistaramóts kvenna en riðill íslenska liðsins fer fram á Akureyri 27. febrúar til 5. mars 2017.

Sunna Björgvinsdóttir skoraði bæði mörk íslenska liðsins en það dugði skammt því Mexíkó komst þrisvar yfir í leiknum og innsiglaði síðan tveggja marka sigur undir lokin.

Mexíkó komst í 1-0 á 16. mínútu en Sunna Björgvinsdóttir jafnaði í næstu sókn eftir stoðsendingu frá Silvíu Rán Björgvinsdóttur.

Mexíkó komst í 2-1 á 22. mínútu og þannig var staðan þar til að Sunna Björgvinsdóttir jafnaði aftur metin á 40. mínútu.

Staðan var því 2-2 fyrir lokaleikhlutann en þar fékk íslenska liðið á sig tvö mörk og varð að sætta sig við tap.

Íslensku stelpurnar unnu 7-2 sigur á Rúmeníu í fyrsta leik sínum í gær en Mexíkó hefur nú unnið tvo fyrstu leiki sína á mótinu.

Ísland er ein af fjórum þjóðum sem hafa unnið annan af tveimur fyrstu leikjum sínum á heimsmeistaramótinu en hin eru Spánn, Nýja-Sjáland og Tyrklandi. Rúmenía hefur tapað tveimur fyrstu leikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×