Lífið

Styrkurinn kemur fljótt

Vera Einarsdóttir skrifar
Þórdís Daníelsdóttir kennir Lyru eða loftfimleika hjá Eríal Pole. Hún var sjálf að æfa Lyru en leiddist út í kennslu og finnst frábært að geta starfað við áhugamálið. Hún segir iðkendur öðlast mikinn styrk samhliða því að læra allskyns kúnstir og að margir finni mun á milli tíma.

Þórdís æfði fimleika hjá Gerplu frá átta ára til sautján ára aldurs en hætti sökum meiðsla í baki. Hún var í sjúkraþjálfun um tíma en haustið 2014 langaði hana að fara að æfa á ný. „Mig langaði prófa eitthvað nýtt og fór í pole fitness. Í lok námskeiðsins var boðið upp á prufutíma í Lyru, sem er kennd á sama stað. Ég hafði enga hugmynd um hvað það var en heillaðist strax. Í kjölfarið skipti ég yfir í Lyru og hef æft hana síðan.“

Með tímanum fór Þórdís að hlaupa í skarðið fyrir Lyru-kennarann sinn og í febrúar í fyrra var hún beðin um að taka að sér hluta kennslunnar. Þórdís, sem er á tuttugasta aldursári, segir gaman að fá tækifæri til að starfa við sitt helsta áhugamál „Mér finnst líka mjög skemmtilegt að geta miðlað af reynslu minni til annarra og sjá nemendur taka framförum.“

Lyra er í raun loftfimleikar þar sem iðkendur gera æfingar og kúnstir í misstórum hringjum sem hanga í loftinu. Kúnstirnar er svo hægt að tengja saman í rútínu eða eins konar dans. Byrjendur þurfa að sögn Þórdísar hvorki að búa yfir liðleika né styrk og æfingarnar henta fólki á öllum aldri. „Styrkurinn er hins vegar fljótur að koma og flestir finna mikinn mun á sér strax eftir fyrsta námskeið, enda talsvert átak að komast upp í hringina, halda sér þar og gera kúnstir. Ég myndi því segja að þetta væri mjög góð líkamsrækt,“ segir Þórdís.

Þórdísi finnst skemmtilegast að læra nýjar kúnstir, tengja saman í rútínu og sýna.MYND/NINA REED
Helsti kostur Lyru er að sögn Þórdísar hversu hratt iðkendur byggja upp styrk. „Fólk finnur oft mun á sér á milli tveggja tíma. Hún segir iðkendum stundum finnast óyfirstíganlegt að ná tilteknu „trikki“ en fimm æfingum síðar er það komið. „Íþróttin reynir á alla vöðva líkamans án þess að fólk sé að spá í það sérstaklega og allt í einu eru það komið með þann styrk sem þarf.“

Þórdís segir Lyru fyrir alla, konur jafnt sem karla. Hún segir iðkendur með mjög mismunandi bakgrunn. Sumir hafa verið mikið í íþróttum og aðrir ekki. „Ég hef bæði verið með stráka og stelpur og fólk upp í fimmtugt sem hefur náð svakalegum árangri.“

En er þetta hættuleg íþrótt? „Nei, ég myndi ekki segja að þetta væri hættulegra en annað. Auðvitað er hægt að slasast í Lyru eins og öðru en það er mjög sjaldgæft að iðkendur detti úr hringjunum. Þeir byggja upp getuna jafnt og þétt og hafa náð upp nauðsynlegum styrk og liðleika þegar þeir eru farnir að komast upp í hringina með auðveldum hætti. Þeir gera svo ekki erfiðari kúnstir en líkaminn ræður við hverju sinni.

Sjálfri finnst Þórdísi skemmtilegast að læra nýjar kúnstir, tengja saman í skemmtilega rútínu og sýna, en reglulega eru haldnar sýningar í Eríal Pole. „Einu sinni tók ég líka þátt í Great Gatsby sýningu í Gamla bíói sem var mjög skemmtilegt.“ Hún segir erfiðara en margur heldur að sýna fimm mínútna rútínu en alltaf jafn gaman.

Þórdís er í MR og stefnir á að útskrifast af náttúrufræðibraut 1 í vor. Hún stefnir á háskólanám og hefur mestan áhuga á líffræði. „Ég er þó ekki búin að ákveða neitt og ætla að byrja á fara í heimsreisu með kærastanum mínum. Ég ætla svo að sjálfsögðu að halda áfram að sinna Lyrunni enda með því skemmtilegra sem ég geri.“

MYND/MARINÓ FLÓVENT





Fleiri fréttir

Sjá meira


×