Innlent

Bannsvæði fyrir drónana

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Myndin sýnir það svæði þar sem flug dróna er nú óheimilt.
Myndin sýnir það svæði þar sem flug dróna er nú óheimilt. MYND/SAMGÖNGUSTOFA
Bannað er að fljúga drónum innan tveggja kílómetra frá áætlunarflugvöllum og 1,5 kílómetrum frá öðrum flugvöllum. Einnig er bannað að fljúga drónum ofar 130 metrum óháð þyngd þeirra.

Þetta felst í ákvörðun Samgöngustofu. Ákvörðunin sækir lagastoð í lög um loftferðir.

Sé flug drónans lægra en hæstu byggingar í nágrenninu má fljúga dróna innan þess svæðis sem takmarkast af ákvörðuninni. Þá má einnig fljúga dróna á svæðinu fáist leyfi frá rekstraraðila flugvallarins.

Ákvörðunin felur meðal annars í sér að óheimilt er að fljúga dróna í vesturbæ Reykjavíkur og sömu sögu er að segja af miðborginni, við Kringluna, yfir öllum Fossvogi og á Kársnesi í Kópavogi.

Að auki verður óheimilt að fljúga dróna í stærstum hluta Keflavíkur.

Ákvörðun Samgöngustofu verður í gildi þar til reglugerð um notkun og starfrækslu dróna hefur fengið samþykki ráðherra. Slík reglugerð hefur verið í vinnslu í innanríkisráðuneytinu og er nú í umsagnarferli. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×