Viðskipti innlent

Hátt fall hjá N1 og Nýherja í Kauphöllinni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1, seldi helming hlutabréfaeignar sinnar í félaginu á föstudag á 9,6 milljónir króna.
Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1, seldi helming hlutabréfaeignar sinnar í félaginu á föstudag á 9,6 milljónir króna.
Verð á bréfum í N1 og Nýherja hafa hríðfallið það sem af er degi. Viðskipti með bréf í N1 hafa numið 664 milljónum króna og hafa bréfin fallið um 12 prósent. Þá hefur velta með bréf í Nýherja það sem af er degi verið fyrir 130 milljónir króna og nemur fallið um 14 prósentum.

Töluvert hefur verið um sölu lykilstarfsmanna hjá N1 á bréfum í fyrirtækinu undanfarna daga.

Forstjórinn Eggert Þór Kristófersson seldi helming hlutabréfaeignar sinnar í félaginu á föstudag á 9,6 milljónir króna. 

Félagið Hofgarðar, í eigu Helga Magnússonar varaformanns stjórnar N1, seldi hlut sinn í félaginu á 399 milljónir króna fyrr í vikunni.

Þá seldi félagið Helgafell, í eigu Bjargar Fenger eiginkonu Jóns Sigurðssonar stjórnarmanns í N1, fjórar milljónir hluta á dögunum fyrir 540 milljónir króna.

Aðalfundur Nýherja fór fram á föstudaginn og ljóst að fall bréfa í fyrirtækinu tengist fundinum sem hófst klukkan 16, þ.e. eftir að lokað var fyrir viðskipti í Kauphöllinni.

Gunnar Már Petersen, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Nýherja, seldi um 90 prósent af hlutum sínum í fyrirtækinu fyrir um 27 milljónir króna í morgun.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×