Kavanagh kom frá Dyflinni um hádegisbilið í gær og byrjaði á því að koma sér fyrir á herbergi sínu og spjalla við Harald Nelson, faðir og umboðsmann Gunnars. Þegar Vísir hitti á Írann var hann að fara yfir dagskrá næstu daga og stilla upp æfingu fyrir sig og sinn mann.
Kavanagh, sem var sjálfur Evrópumeistari í blönduðum bardagalistum á árum áður, tók æfingu í gærkvöldi með Gunnari en eins og sjá má á myndinni hér að ofan neyddist hann til að fara í gólfið með íslenska bardagakappanum og láta hengja sig aðeins.
Gunnar eyddi fyrri parti gærdagsins í upptökur fyrir UFC en hann lagði sig svo eftir hádegi. Teymið yfirgaf ekki hótelið heldur tók því rólega og borðaði þar saman í gærkvöldi.
Í dag er fjölmiðladagur en þá mæta allir bardagakapparnir og spjalla við fréttamenn á öðru hóteli en þeir gista á. Uppstilltar myndir verða teknar af þeim sem berjast en engin opin æfing er á dagskrá í dag eins og svo oft á fimmtudögum í bardagavikum. Á morgun stígur Gunnar Nelson svo á vigtina en samkvæmt upplýsingum Vísis gengur niðurskurðurinn vel.
Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá gærkvöldinu þar sem Gunnar og Kavanagh tókust á og svo frá rólegri kvöldstund Gunnars og hans fólks.
Ekki missa af neinu tengdu bardaga Gunnars Nelson og Alan Jouban. Vísir er í London og færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af Gunnari og bardagakvöldinu í O2-höllinni á laugardaginn. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).



