Fótbolti

Þrettán íslenskir víkingar ætla sér stóra hluti í Svíaveldi

Reikna má með Íslendingum í toppbaráttu, botnbaráttu og í keppni um gullskóinn í Allsvenskan sem hefst á morgun.

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ögmundur Kristinsson, Arnór Smárason og Birkir Már Sævarsson ætla sér stóra hluti með Hammarby frá Stokkhólmi í Allsvenskan í ár. Ömmi Kristins
Flautað verður til leiks í Allsvenskan, efstu deild sænsku knattspyrnunnar, um helgina. Þrettán íslenskir leikmenn spila með sjö liðum í deildinni sem telur sextán lið. Flestir hafa verið viðloðandi karlalandsliðið undanfarin ár og eru margir hverjir lykilmenn í sínum liðum. Þá eru einnig yngri leikmenn að stíga sín fyrstu skref í atvinnumennsku. 

Eins og gengur má reikna með að gengi Íslendingaliðanna verði æði misjafnt. Meistararnir í Malmö FF, sem Kári Árnason og Viðar Örn Kjartansson spiluðu með á síðustu leiktíð, þykja líklegastir til að standa uppi sem sigurvegarar. Á hæla þeirra koma Íslendingaliðin AIK, IFK Gautaborg og IFK Norrköping.

Að neðan má sjá þegar Arnór Ingvi tryggði Norrköping titilinn 2015.



Íslendingar hafa verið í meistaraliði síðustu tvö ár því Arnór Ingvi Traustason varð meistari með Norrköping árið 2015 þar sem hann sló í gegn. Hann spilar nú með Rapid Vín í Austurríki.

Veðbankar telja líklegast að Eskilstuna og Halmstad verði í botnbaráttu ásamt Íslendingaliðinu Sundsvall sem treystir á mörk frá íslenskum nöfnum í baráttu fyrir lífi sínu á meðal þeirra bestu.

Að neðan er fjallað stuttlega um hvert Íslendingalið fyrir sig, einkenni hvers þeirra og hverju reikna má með af Íslendingunum og liðinu á komandi tímabili. Félögin eru í stafrófsröð.

Haukur Heiðar í leik með íslenska landsliðinu.vísir/getty
AIK

Haukur Heiðar Hauksson 

Fæddur árið 1991, hægri bakvörður. 

AIK í Stokkhólmi er eitt af stóru félögunum í Svíþjóð og er ávallt gerð krafa á sigur í deildinni, allt annað er talið óásættanlegt. Mikil pólitík einkennir félagið og hafa stuðningsmenn mikil áhrif á leikmannaval og stjórn félagsins. Þetta brýst fram í tíðum breytingum og töluverðri ókyrrð á starfsfólki hjá liðinu. 

Íslendingar fengust að kynnast stuðningsmönnum AIK þegar liðin mættust í Evrópukeppni bikarhafa árið 1996. AIK vann 1-0 sigur á Laugardalsvelli en 1-1 jafntefli varð í síðari leiknum í Svíþjóð þar sem Gummi Ben skoraði einkar snyrtilegt mark.



Haukur Heiðar Hauksson gekk í raðir liðsins frá KR í nóvember 2014 og var fastamaður þangað til nýr þjálfari tók við í maí 2016. Síðan hefur Haukur þurft að sætta sig við bekkjarsetu og spilað út úr stöðu, sem vinstri bakvörður og jafnvel hægri kantmaður. 

Leiktími hans hjá AIK virðist hafa haft áhrif á möguleika hans með landsliðinu enda var hann í 23 manna EM-hópnum í sumar en var ekki valinn í hópinn fyrir leikinn gegn Kósóvó á dögunum. 

Ef aðstæður breytast ekki hjá Hauki má gera ráð fyrir því að hann muni færa sig um set og þá væntanlega innan Skandinavíu eins og fleiri íslenskir bakverðir hafa gert undanfarin misseri. Leikmaður á hans aldri hefur ekki tíma til að sætta sig við bekkjarsetu enda lykilatriði að spila reglulega.



Kristinn Freyr á fullri ferð í æfingaleik gegn MexíkóVísir/EPA
GIF Sundsvall

Kristinn Steindórsson

Fæddur árið 1990, kantmaður.

Kristinn Freyr Sigurðsson 

Fæddur árið 1991, miðjumaður.

Hjá GIF Sundsvall hafa Íslendingar átt mikilli velgengni að fagna og ekkert lát virðist ætla vera á því. Hjá félaginu eru núna tveir íslendingar, nafnarnir Kristinn Steindórsson og Kristinn Freyr Sigurðsson sem báðir hafa verið viðloðandi landsliðið undanfarin misseri.

Kristinn var stóran hluta síðasta tímabils meiddur eftir að hafa snúið aftur í sænsku deildina eftir dvöl hjá Columbus Crew í MLS-deildinni í Bandaríkjunum. Kristinn Freyr gekk liðs við félagið frá Val í janúar eftir frábært tímabil í Pepsi-deildinni sumarið 2016 þar sem hann var valinn besti leikmaður deildarinnar.

Kristinn skoraði mörg glæsileg mörk í Pepsi-deildinni í fyrra og sagði í viðtali í nóvember síðastliðnum að draumur væri að rætast með för sinni út til Svíþjóðar.



Báðir leikmenn munu koma til með að spila stórt hlutverk í sóknarleik liðsins á komandi tímabili. Nafnarnir eiga það sameiginlegt að líða vel með boltann á tánum og hafa auga fyrir mörkum. Sundsvall treystir á góða frammistöðu frá báðum til að halda sér frá botnbaráttunni sem liðið hefur verið í áskrift að undanfarin ár.

Félögin í efstu deild í Svíþjóð.Wikipedia
Hammarby

Birkir Már Sævarsson

Fæddur árið 1984, hægri bakvörður. 

Ögmundur Kristinsson

Fæddur árið 1989, markvörður.

Arnór Smárason

Fæddur árið 1988, kantmaður.

Hammarby á frábæra stuðningsmenn og eru jafnan um 30.000 áhorfendur á heimaleikjum liðsins í Tele2 Arena í Stokkhólmi.

Gengi liðsins hefur ekki verið gott undanfarin ár og liðið verið í miðjuþófi síðustu tvö tímabil ekki er ásættanlegt þar á bæ. Veðbankar reikna með því að liðið verði í miðjumoði.

Búið er að skipta út þjálfaranum sem og yfirmanni knattspyrnumála og spurningin hvort félagið finni töfraformúluna til að liðið geti verið í toppbaráttu þetta tímabil. Arnór Smárason hefur spilað ágætlega fyrir liðið sem þarf fleiri mörk frá Skagamanninum ætli liðið að stimpla sig inn af krafti í ár.

Ögmundur Kristinsson hefur fengið töluvert lof fyrir frammistöðu sína á milli stanganna hjá liðinu og þá hefur Birkir Már verið mikils metinn meðal stuðningsmanna liðsins.

Að neðan má sjá tilþrif frá Ögmundi á síðustu leiktíð.



Ogmundur Kristinsson (1989) - Highlights 2016 from Total Football on Vimeo.



Bakvörðurinn er á sínu tíunda tímabili í atvinnumennsku og fullur sjálfstrausts eftir frábært gengi landsliðsins á EM í fyrra og undankeppni HM 2018.


Elías Már Ómarsson skoraði og skoraði í Svíþjóði í fyrra.IFK
IFK Gautaborg

Elías Már Ómarsson

Fæddur árið 1995, framherji. 

IFK Gautaborg hefur átt í miklum fjárhagsvandræðum og þurft að selja m.a. æfingasvæðið sitt og nokkra af sínum bestu leikmönnum. Liðið er þrátt fyrir það vel mannað og má alltaf gera ráð fyrir því í toppbaráttunni. 

Mikil meiðsli komu í veg fyrir að liðið blandaði sér í titilbaráttuna í fyrra en liðið hafnaði á endanum í þriðja sæti, sex stigum á eftir meistunum í Malmö. Elías Már Ómarsson kom um mitt tímabil á láni frá Vålerenga í Noregi, þar sem hann átti erfitt uppdráttar, stóð sig mjög vel og raðaði inn mörkum. Fór svo að félagið nýtti sér forkaupsrétt á framherjanum. 

Snyrtilegt mark frá Elíasi Má á síðustu leiktíð.



Elías Már er talinn líklegur markakóngur í sænsku deildinni samkvæmt veðbönkum en íslenskur leikmaður hefur einu sinni orðið markakóngur. Gunnar Heiðar Þorvaldsson í búningi Halmstad árið 2005.

Haldi Elías Már uppteknum hætti má reikna með IFK Gautaborg í toppbaráttu en veðbankar telja að liðið muni berjast um titilinn við Malmö og AIK.


Árni Vilhjálmsson styrkti lið Breiðabliks sumarið 2016 og var iðinn við kolann.Vísir/Stefán
Jönköping Södra

Árni Vilhjálmsson

Fæddur árið 1994, framherji.

Jönköping Södra er að hefja sitt annað tímabil í efstu deild og hefur það oft reynst liðum um víða veröld erfiður ljár í þúfu. Þjálfari liðsins þykir afar efnilegur og verður því áhugavert að fylgjast með liðinu á komandi tímabili. Liðinu er spáð botnbaráttu.

Árni Vilhjálmsson gekk til liðs við liðið frá Lilleström SK en líkt og Elías Már þá gekk honum illa að fóta sig í Noregi. Eftir að hafa verið lánaður til Breiðabliks á miðju síðasta tímabili, þar sem mörkin komu á færibandi, virkar Árni í toppformi og líklegur til að raða inn mörkum í Svíþjóð.

Framherjinn er einn af lykilmönnum liðsins og mörk frá honum gætu skilið á milli þess hvort liðið verði áfram á meðal þeirra bestu að loknu tímabilinu.

Jón Guðni í baráttunni í Svíþjóð.vísir/getty
IFK Norrköping

Jón Guðni Fjóluson

Fæddur árið 1989, miðvörður. 

Guðmundur Þórarinsson

Fæddur árið 1992, miðjumaður.

Alfons Sampsted,

Fæddur árið1998, hægri bakvörður. 

Arnór Sigurðsson

Fæddur árið 1999, miðjumaður.

IFK Norrköping hefur spilað einstaklega vel á undirbúningstímabilinu og er komið í úrslit sænska bikarsins sem fram fer þann 13. apríl. Þar mætir liðið Östersund. 

Peking, eins og liðið er kallað, hefur ávallt verið mikið Íslendingalið og enginn breyting er þar á. Með liðinu spila núna fjórir íslenskir leikmenn, þeir Jón Guðni Fjóluson, Guðmundur Þórarinsson, Alfons Sampsted og Arnór Sigurðsson sem er nýgenginn í raðir félagsins. 

Jón Guðni er algjör lykilmaður hjá liðinu en á síðasta tímabili var hann einn besti miðvörður deildarinnar eftir fjögur ár hjá Sundsvall. Var hann orðaður við önnur félög en meiðsli komu í veg fyrir að af þeim yrði. Ef Jón Guðni heldur áfram að spila líkt og í fyrra þá getur fátt komið í veg fyrir að hann færi sig um set eftir tímabilð. 

Jón Guðni var á skotskónum í bikarnum á dögunum.



Gera má ráð fyrir því söngfuglinn og gleðigjafinn Guðmundur fái stórt hlutverk á miðjunni en hann glímdi við meiðsli þegar hann gekk til liðs við félagið í febrúar síðastliðnum frá Rosenborg.

Leikstíll liðsins ætti að henta Guðmundi afar vel og með stjálfstraustið í botni er hann leikmaður sem getur spilað utan Skandinavíu. Frammistaða þeirra Jóns Guðna og Guðmundar getur haft stór áhrif á gengi liðsins. 

Fróðlegt verður að sjá hvort ungstirnin Alfons og Arnór nái að stimpla sig inn fái þeir tækifæri af beknum. Reiknað er með því að Norrköping geti blandað sér í baráttuna um titilinn en liðið hafnaði í þriðja sæti deildarinnar í fyrra.

Hjörtur Logi er einn reynslumesti atvinnumaður Íslands í dag en hefur verið óheppinn með meiðsli undanfarin misseri.vísir/vilhelm
Örebro

Hjörtur Logi Valgarðsson

Fæddur árið 1988, vinstri bakvörður. 

Örebro er enn eitt Íslendingaliðið í Allsvenskan en fyrir tuttugu árum spiluðu nafnarnir Hlynur Birgisson og Stefánsson með liðinu auk Arnórs Guðjohnsen sem er goðsögn hjá félaginu. 

Örebro er eitt af þessum liðum sem eru yfirleitt með gott lið á pappír en nær aldrei almennilega að taka þátt í toppbaráttunni. Ekkert bendir til þess að einhverjar breytingar verði þar á þetta tímabilið.  Er liðinu spáð miðjumoði.

Hjörtur Logi hefur verið gríðarlega óheppinn með meiðsli undanfarið en ef hann helst heill er hann lykilmaður hjá félaginu enda kominn með mikla reynslu eftir sjö tímabil sem atvinnumaður í Svíþjóð og Noregi. 

Fyrsta umferðin fer fram um helgina og þá mætast:

Laugardagur 1. apríl

IFK Gautaborg - Malmö FF

Halmstads BK - Östersunds FK

Sunnudagur 2. apríl

GIF Sundsvall - AFC United

AIK Solna - BK Häcken

IFK Norrköping - Hammarby IF

Mánudagur 3. apríl

Kalmar FF - IF Elfsborg

Djurgårdens IF - IK Sirius

Örebro SK - Jönköping Södra IF








×