Sport

Íshokkístrákarnir byrjuðu á sigri gegn Spáni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pétur Maack skoraði eftir sjö sekúndur og Ísland vann.
Pétur Maack skoraði eftir sjö sekúndur og Ísland vann. vísir/pjetur
Íslenska karlalandsliðið í íshokkí byrjaði vel í A-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins í dag en strákarnir unnu sterkan 3-2 sigur á Spáni.

Riðill Íslands fer að þessu sinni fram í Galati í Rúmeníu en spænska liðið hafnaði í 2. sæti á HM á heimavelli í fyrra en íslensku strákarnir enduðu þá í 5. sæti.

Það tók Pétur Maack aðeins sjö sekúndur að skora fyrsta mark leiksins og koma Íslandi yfir en þeir spænsku jöfnuðu á fimmtu mínútu í 1-1. Jóhann Már Leifsson kom Íslandi aftur yfir á 8. mínútu og staðan eftir fyrsta leikhluta, 2-1, fyrir íslenska liðinu.

Spánverjar jöfnuðu aftur í 2-2 á 38. mínútu í öðrum leikhluta en Róbert Freyr Pálsson var ekki lengi að koma Íslandi aftur yfir. Það gerði hann aðeins einni mínútu og 50 sekúndum eftir að Spánn jafnaði. Mark Róberts reyndist sigurmarkið, 3-2.

Spænska liðið lá í sókn síðustu mínúturnar og reyndi hvað það gat að jafna en íslensku strákarnir vörðust fimlega. Síðasta skot Spánverjanna var stórhættulegt en pökkurinn af íslensku vörninni og skoppaði rétt framhjá markinu.

Ísland mætir Ástralíu á morgun en leikurinn hefst klukkan tíu í fyrramálið. Þriðji leikurinn er á móti heimamönnum frá Rúmeníu en Ísland mætir svo Belgíu á föstudaginn og Serbum á sunnudaginn.

Hér má nálgast allar tölfræðiupplýsingar og beinar útsendingar frá leikjum A-riðilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×