Innlent

Hefur áhyggjur af stöðu ungs fólks á Íslandi: „Það hefur í raun ekkert gerst síðan þessi skýrsla kom út“

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Formaður félags ungra jafnaðarmanna í Reykjavík segir ástæðu til að hafa áhyggjur af stöðu ungs fólks á Íslandi. Ungt fólk hafi dregist aftur úr í tekjum og því sé hætta á því að þjóðin missi það úr landi.

Unga kynslóðin á Íslandi hefur það mun verr en sama kynslóð fyrir tæpum þrjátíu árum og staða hennar er jafnframt lakari en ungu kynslóðarinnar í öðrum vestrænum ríkjum.

Þetta voru niðurstöður skýrslu sem fjármálaráðherra lét get að beiðni þingmanna Samfylkinarinnar í haust.

Þá kemur fram í skýrslunni að unga kynslóðin hafi almennt dregist aftur úr í tekjum síðustu áratugina en þeir sem eru yfir fimmtugu hafa það betur nú en sama kynslóð fyrir tæpum þrjátíu árum.

Aron Leví Beck, Formaður Hallveigar, félags ungra jafnaðarmanna í Reykjavík, segir stjórnvöld ekki hafa brugðst nægilega við niðurstöðum skýrslunnar. „Það hefur í raun ekkert gerst síðan þessi skýrsla kom út. Ég held að stjórnvöld á Íslandi verði að fara taka af skarið og gera eitthvað í þessum málum,“ segir Aron Leví.

Aron segir brýnt að skapa vel launuð störf fyrir ungt fólk til að þjóðin missi það ekki úr landi. „Það er náttúrulega rosalega leiðinlegt að vera búin að mennta sig og það sem tekur við eru illa launuð störf. Þar af leiðandi verður landflótti vandamál á Íslandi og það er eitthvað sem við viljum alls ekki að gerist,“ segir Aron Leví og bætir við að svo virðist sem sköpun nýrra starfa við hæfi háskólamenntaðra hafi ekki haldið í við fjölgun þeirra og tekjuávinningur menntunar því minnkað.

Ungir jafnaðarmenn í Reykjavík hafi áhyggjur af stöðu mála. „Við þurfum náttúrulega að búa til fleiri störf fyrir þetta fólk. Sérhæfð og vel launuð störf til þess að við nýtum allt þetta flotta fólk sem er á Íslandi,“ segir Aron Leví.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×