Innlent

Borginni heimilt að miðla persónuupplýsingum í eineltismáli

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. Vísir/GVA
Reykjavíkurborg var heimilt að miðla persónuupplýsingum um starfsmann sem kvartað hafði undir einelti til sálfræðistofu sem var ráðgjafi vegna eineltismálsins.

Þetta kemur fram í úrskurði Persónuverndar en starfsmaðurinn kvartaði til stofnunarinnar vegna miðlun Reykjavíkurborgar á persónuupplýsingum um hann, sem og vinnslu sálfræðistofunnar á þeim.

Starfsmaðurinn hafði ítrekað farið fram á við Reykjavíkurborg að mál hans yrði skoðað þar sem hann hafi ekki talið rétt hafa verið staðið að málum við meðferð kvartana hans yfir meintu áreiti á vinnustað. Kvartaði hann meðal annars yfir því að fulltrúar borgarinnar hafi ekki gætt hlutleysis.

Borgin hafi því ákveðið að fá utanaðkomandi ráðgjafa vegna málsins. Ekki var þó leitað samþykkis starfsmannsins en borgin taldi þó að hann væri meðvitaður um þessa afgreiðslu borgarinnar.

Braut lög varðandi fræðslu til starfsmannsinsSendi borgin sálfræðistofunni tölvupóstsamskipti starfsmannsins við starfsmannastjóra Reykjavíkurborgar, greinargerð lögfræðings starfsmannsins, auk greinargerðar starfsmannsins og tímalínu vegna málsins.

Kvartaði starfsmaðurinn yfir því að sálfræðistofunni hafi verið send gögnin en í þeim mætti meðal annars finna persónuleg greinargerð hans um eineltið, en hún hafi meðal annars innihaldið bréf frá sálfræðingi hans.

Var það mat Persónuverndar að þar sem starfsmaðurinn hafði lagt inn formlega kvörtun til borgarinnar vegna eineltis hafi Reykjavíkurborg verið heimilt samkvæmt lögum að miðla persónuupplýsingum um hann til sálfræðistofunnar, sem og vinnsla sálfræðistofunnar.

Það er þó mat Persónuverndar að Reykjavíkurborg hafi ekki sinnt fræðsluskyldu sinni með því að veita starfsmanninum ekki fræðslu áður en persónuupplýsingunum var miðlað áfram.

Þarf Reykjavíkurborg því að gera Persónuvernd grein fyrir því hvernig borgin muni uppfylla fræðsluskyldu sína þegar persónuupplýsingum er miðlað í þeim tilgangi að afla utanaðkomandi ráðgjafar í framtíðinni.

Úrskurð Persónuverndar má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×