Veiði

Umgengni við suma veiðistaði afleit

Karl Lúðvíksson skrifar
Sóðaskapur við Elliðavatn
Sóðaskapur við Elliðavatn Mynd: Nökkvi Svavarsson
Það er ótrúlegt að á hverju ári þurfi virkilega að fara í umræðu um umgengni á veiðistöðum en virðingin fyrir náttúrunni virðist oft á tíðum lítil sem engin.

Veiðivísir hefur sett inn grein á hverju vori vegna fjölda ábendinga frá veiðimönnum um slælega umgengni við ár og vötn landsins.  Sumir virðast því miður telja það í lagi að troða bjórdósum inní grjóthrúgur eða skilja þær bara eftir við bakkann eins virðist reykingamönnum það sérstaklega tamt að henda stubbunum hvar sem er.  Það eru svartir sauðir í öllum hópum og þetta nær ekki bara yfir veiðimenn heldur einnig einhverja sem fara á þessa staði og skilja svo ruslið eftir.

Það sem við veiðimenn getum í það minnsta gert er að taka upp eftir okkur tauma enda eru þeir skeinuhættir fuglum sem lifa við vötnin og árnar og ungarnir eru sérstaklega gjarnir á að flækja sig í gömlum taumum sem því miður drepur síðan fuglinn en fullorðnir fuglar eru ekki síður í hættu fyrir þessu.  Sígarettustubba er hægt að setja í box eða í vasann en ekki skjóta þeim frá sér enda eyðast þeir seint upp í náttúrunni.

Veiðimenn ganga heilt yfir mjög vel um veiðisvæðin sín og það er skilda þeirra eldri að kenna yngri veiðimönnum að ganga vel um náttúruna og taka allt upp eftir sig á vettvangi að veiði lokinni eða eins og veiðimenn segja oft "skildu ekker eftir nema sporin".






×