Handbolti

Ljónin skrefi nær titlinum eftir sigur í uppgjöri toppliðanna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexander skoraði fimm mörk og var markahæstur í liði Löwen.
Alexander skoraði fimm mörk og var markahæstur í liði Löwen. vísir/getty
Rhein-Neckar Löwen steig stórt skref í átt að því að verja þýska meistaratitilinn í handbolta með 21-23 sigri á Flensburg í uppgjöri toppliðanna í dag.

Ljónin eru nú með þriggja stiga forystu á Flensburg þegar þrjár umferðir eru eftir. Löwen á reyndar mjög erfiðan leik gegn Kiel í næstu umferð. Síðustu tveir leikirnir eru svo gegn Wetzlar og Melsungen.

Leikurinn í Flens-Arena í dag var jafn og spennandi og aldrei munaði meira en þremur mörkum á liðunum.

Löwen var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 11-13, og skoraði svo fyrsta markið í seinni hálfleik. Flensburg svaraði með þremur mörkum í röð og eftir það héldust liðin í hendur.

Ljónin voru samt alltaf skrefi á undan og Guðjón Valur Sigurðsson kom þeim tveimur mörkum yfir, 20-22, þegar fimm mínútur voru eftir. Kentin Mahé minnkaði muninn í eitt mark en Andy Schmid kláraði svo leikinn með frábæru marki rúmum 20 sekúndum fyrir leikslok. Lokatölur 21-23, Löwen í vil.

Alexander Petersson var markahæstur í liði Löwen með fimm mörk. Guðjón Valur skoraði tvö mörk, bæði á lokakafla leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×