Lífið

Systkini Prince erfa auðævi hans

Anton Egilsson skrifar
Prince var margverðlaunaður tónlistarmaður.
Prince var margverðlaunaður tónlistarmaður. Vísir/Getty
Ein alsystir og fimm hálfsystkini bandaríska söngvarans Prince koma til með að erfa öll auðævi hans. Dómstóll komst að niðurstöðu um þetta í gær en söngvarinn hafði ekki látið eftir sig erfðaskrá.

Í frétt BBC segir að talið sé að auðævi Prince nemi allt að 200 milljónum Bandaríkjadollara eða sem samsvarar um 20 milljörðum króna. Alls 45 einstaklingar gerðu kröfu í dánarbúið og voru þeir allir látnir gangast undir lífsýnarannsókn til að sanna tengsl þeirra við söngvarann.

Prince lést í apríl á síðasta ári eftir að hafa innbyrt of stóran skammt af verkjalyfjum. Skömmu eftir andlát Prince var haft eftir mági hans, Mauric Philipps, að söngvarinn hafi unnið í 154 klukkustundir samfleytt án þess að sofa dagana áður en hann fannst látinn í lyftu á heimili sínu, Paisley Park í Minnesota. 

Prince var margverðlaunaður tónlistarmaður. Þekktasta verk hans er án efa Purple Rain sem kom út árið 1984 ásamt samnefndri mynd. Prince hlaut Óskarsverðlaunin fyrir tónlist sína í myndinni auk þess sem titillag plötunnar var útnefnt besta lag níunda áratugarins af tónlistarvefnum Pitchfork.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.