Lífið

Móteitur við leiðindum

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Hrafnhildur Arnardóttir fann ekki farveg fyrir húmor í myndlistinni fyrr en hún flutti til New York.
Hrafnhildur Arnardóttir fann ekki farveg fyrir húmor í myndlistinni fyrr en hún flutti til New York. vísir/Anton Brink
Þetta er einn af þessum maídögum sem sólin sýnir sig óvænt. Allt er í skærari litum eftir alltof marga grámóskulega og vindasama daga. Hrafnhildur Arnardóttir myndlistarmaður situr á bekk fyrir utan Listasafn Íslands og nýtur birtunnar og það er óhætt að segja að hún sjálf sé litrík þar sem hún situr fyrir utan stílhreina bygginguna.

Hún er með grátt hárið í hnút, augabrúnirnar hefur hún litað bláar og fatnaðurinn er í mörgum skærum litum.

Fyrstu gráu hárin komu um tvítugt. Hún segist stolt grávera, eða „graylien“ eins og hún segir á enska tungu. „Við gráverur ættum einhvern tímann að halda Graypride,“ segir hún kímin og strýkur yfir hárið.

Landslag tilfinningaflækja

Ferill Hrafnhildar er skemmtilegt ævintýri og henni hefur tekist að tefla saman lífshamingju og árangri með kímnigáfu og sköpunargleði að vopni. Á undanförnum fimmtán árum hefur hárið verið viðfang hennar og í verkum sínum hefur hún kannað listræna möguleika þess. Verk Hrafnhildar hafa verið sýnd á Norræna tvíæringnum, Momentum 8, Í Moss, Noregi, í MoMA með listahópnum a.v.a.f. Einnig setti hún upp 500 fermetra hárverk í Queensland Art Gallery of Modern Art, QAGOMA, í Brisbane í Ástralíu sl. haust og fyrr á þessu ári í Fílharmóníunni í Los Angeles.

Sýningar hennar hafa hlotið frábærar viðtökur. Sýning hennar í Listasafni Íslands sem var opnuð nýverið, Taugafold VII, Nervescape VII, er framhald af ámóta sýningum víða um heim, staðbundnum innsetningum, skúlptúrum og veggverkum með litríku hári í vöndlum.

„Ég held það hafi með sjálfsmyndina að gera að við bregðumst svona sterkt við hári. Manneskjan er með þráhyggju gagnvart hári,“ segir Hrafnhildur og gengur inn í sýningu sína í Listasafninu og stöðvar undir risastórum knippum af grænu, fjólubláu og appelsínugulu gervihári. „Þetta er litað hár sem er framleitt í hárlengingar. Nafnið Nervescape sem fékk þýðinguna Taugafold á íslensku, varð til þegar ég vann fyrsta verkið í seríunni í Clocktower Gallery í New York. Sýningarrými sem var stofnað af Alönnu Heiss sem stofnaði einnig PS 1 sem nú heyrir undir MOMA í New York. Clocktower var efst uppi í gömlum klukkuturni og þegar ég var að setja upp sýninguna fannst mér þetta taka á sig mynd af eins konar landslagi tilfinninga. Taugaenda og tilfinningaflækja. En á sama tíma þá var verkið griðastaður og flótti, litríkur heimur fyrir utan þetta daglega líf.“

Eins og teikning

Hrafnhildur setur ekki upp sýninguna eftir fyrirfram gefinni uppskrift. „Uppsetningarferlið stjórnar útkomu verksins. Ég teikna og mála í lausu lofti þegar ég er að setja saman þessa vöndla af hári og festa upp inn í rýmið hverju sinni. Ég á í baráttu við þyngdarlögmálið. Þetta er fyrst og fremst groddaleg og litrík teikning. Svo er þetta líka bara svolítið eins og að taka regnbogann og sprengja hann aðeins upp, leysa hann úr læðingi og leyfa okkur að baða okkur í honum.“

Hún segir að áhorfendur finni tengingu við æskuna. „Þetta er líka ævintýrakennt í litum og efniviði og svolítið barnslegt. Börnum finnst gaman að koma hingað og fullorðnir kætast, ég hvet fólk til að snerta verkið, klappa því og skynja það bæði sjónrænt og líkamlega.“

Hvers vegna hár?

„Hár fyrir mér er rétt eins og teiknuð lína. Hugmyndin kom svolítið til mín þegar ég var að gera portrettmyndir með tússlitum af öllum sem eru blóðtengdir mér í móðurættinni. Ég reyndi aðeins einu sinni við hvern og einn og þurfti því að lifa með mistökum og misjöfnum útkomum. Erfiðast fannst mér að teikna hárið, ég minnti mig á að þetta eru bara línur. Í framhaldi af því mundi ég eftir spænsku senjó­rítupóstkortum sem voru með hári á. Ég fór að flétta hár og festa á teikningar. Sem síðar urðu verk eingöngu úr hári, lágmyndir, fléttur, raðað á vegg, innblásnar af mínum áhuga á hárgreiðslu og hvernig við notum hár til að vera skapandi.“



Hrafnhildur varð hugfangin af hárgreiðslum blökkumanna í New York.vísir/anton brink
Sjóndeildarhringurinn stækkaði

Hrafnhildur hefur búið í meira en tvo áratugi í New York. Í dag býr hún í pólska hverfinu Greenpoint í Brooklyn með eiginmanni sínum Michal Jurewicz og börnum þeirra Mána Lucjan og Úrsúlu Milionu.

„Það var einmitt eftir að ég flutti til New York sem ég varð hugfangin af til dæmis hárgreiðslum blökkumanna. Hvernig þeir fléttuðu og hnýttu hár sitt upp í þvílíka skúlptúra. Ég var t.d. með gjörninga, löngu áður en ég gerði teikningar með hári, þar sem ég bauð fólki að flétta á því hárið og spreyja það með lituðu hárspreyi eins og graffiti. Ég varð yfir mig hrifin af þessum lifandi textíl sem vex á líkamanum. Svo hef ég gaman af því að vera absúrd og hrífst af fáránleika lífsins. 

Ég fann því ekki farveg fyrir húmor inn í myndlistina fyrr en ég var flutt frá Íslandi til New York. Þá losnaði aðeins um ákveðinn stífleika og sjóndeildarhringurinn stækkaði.“

Að losna undan væntingum

Hrafnhildur fluttist til New York sem námsmaður og hóf nám við hinn virta School of Visual Arts. Hún útskrifaðist þaðan með mastersgráðu í myndlist árið 1996. Hrafnhildur féll fyrir borginni og fann fyrir þessari frelsistilfinningu sem hún lýsti og ákvað að elta frekar.

„Ég kom úr skólanum á Íslandi sem var þá deildaskiptur og útskrifaðist úr málaradeild. Kennararnir í minni deild vildu mest bara fjalla um liti og form og lítið tala um hugmyndalist en þó voru nokkrar perlur inn á milli sem björguðu manni eins og hún Ingileif Thor­lacius heitin sem er einn besti kennari sem ég hef haft.

Þeir kennarar sem komu í tímabundna kennslu og störfuðu sem myndlistarmenn komu margir úr heimi naumhyggjunnar í Evrópu þannig að það var mínímalisminn sem sveif yfir vötnum og flottir myndlistarmenn svo sannarlega, en ég átti erfitt með að finna minn takt þangað til ég flutti til New York.

Það voru ekki eins margir á þessum tíma sem höfðu farið vestur í nám, flestir horfðu meira til Evrópu. En mig langaði að losna undan myllu­steini sögunnar, fyrirfram gerðum væntingum um stíl eða efni, og fannst ég finna það frelsi sem ég þurfti í New York þar sem menningarsagan er yngri og einhvern veginn frjálsari, ég vildi aðgang að poppmenningu, pönki, raftónlist og almennum hráleika sem maður finnur í New York. Ég hafði þörf til að gefa lausan tauminn og sjá hvert forvitnin tæki mig, kasta mér út í mannhafið og taka allt inn og sjá hvar ég myndi lenda. Ég þurfti að losa mig við mína eigin fordóma og stífni gagnvart mismunandi miðlum og efniviði og hrista af mér einhverjar fyrirframgefnar hugmyndir um hvað maður ætti að gera. Ég held að þetta sé dæmigert fyrir fólk sem kemur úr litlu samfélagi.

Ég ákvað að fylgja eftir þessari frelsistilfinningu sem ég fann fyrir í New York. Gleðinni yfir því að búa eitthvað til og leyfa innsæinu að ráða og finna öryggi í óvissunni. Ég ákvað að treysta því bara að sama hvað ég geri þá muni það hafa samnefnara, sem er ég og mér finnst ómögulegt að eiga að loka á viðfangsefni eða efnivið fyrirfram. Þetta var mjög markviss ákvörðun. Ég vildi nota hvaða efnivið sem vakti áhuga minn, hvort heldur sem hann teldist göfugur til listsköpunar eður ei og finna fegurð í einhverju sem telst ómerkilegt eða hvorki né. Og verkin mega vera risastór og agnarsmá. Mér finnst skemmtilegt að leika mér með stærðir og skala í samhengi við okkur sem manneskjur.

Sumt af því sem ég geri núna, smáverkin sem ég kalla Nonsicles og Furlings, eru litlar hárflækjur sem ég hita örlítið svo þær rétt haldist saman og mynda þannig litríka ló og litla teikningu. Þau finnst mér alveg jafn spennandi og stærri innsetningar.“

Hrafnhildur segist vera nokkurs konar félagslegur einfari. Að skapa hafi alltaf verið eins konar móteitur við leiðindum og þunglyndi. Visir/Antonbrink
Viðstöðulaus sköpun

Frelsistilfinningin og sköpunargleðin sem Hrafnhildur leyfði sér að fylgja í New York á rætur í uppvexti hennar. „Ég hef viðstöðulaust verið að búa til. Ég hef alltaf haldið að þannig væru bara allir. Ég hef alltaf haft mjög sterkar skoðanir á því hvernig ég vildi klæða mig og var alltaf að leita að einhverju furðulegu og sniðugu. Var oft úti í bílskúr hjá ömmu og afa því þau höfðu rekið kaupfélag á Ísafirði og voru með gamla lagerinn úti í bílskúr. Ég var alltaf að snuddast þangað út og hverfa. Skoða litina á tvinnakeflunum, einhverjar gamlar íslenskar peysur og Wrangler-gallajakka. Nokkuð sem var alls ekki í tísku þá. Ég var um það bil tíu ára gömul og klæddi mig í eitthvað sem var ekki í tískubúðunum og var ekkert strítt á því. Örugglega af því ég klæddist því af svo miklu sjálfstrausti.“

Móteitrið

Hrafnhildur segir sköpunina hafa sprottið af þörf. „Að búa eitthvað til hefur alltaf verið eins og móteitur við leiðindum og þunglyndi. Ég er mjög félagslynd en nýt þess líka að vera ein. Svona mjög félagslegur einfari. Ég var mjög mikið inni í herberginu mínu að búa til hluti, raða upp fundnum hlutum og ofskreyta herbergið á sem nýstárlegastan hátt, og ég var alltaf að breyta og færa til húsgögnin, eitthvað sem elsku mömmu minni, Ragnheiði Jónasdóttur, fannst alveg út í hött á köflum en hún hefur alltaf verið mjög mínímal. Ég var að taka furðulega hluti úr bílskúrnum hjá afa og ömmu, svona eins og til dæmis sokkabönd og lífstykki eða gamla einnota karlasundskýlu sem ég bað svo pabba minn, Gunnar Ólafsson, um að hengja upp á vegg fyrir mig þegar ég var tíu ára. Mér fannst þetta bara svo heillandi hlutur. Og þau bara voru alltaf svo stuðningsrík og gáfu manni frelsi til að vera bara maður sjálfur.

Mér finnst mannfólkið heillandi og hlutirnir sem því dettur í hug að búa til,“ segir hún og bendir á litríkt gervihárið. „Það sem er framleitt í þessum heimi er með ólíkindum. Það er svo mikil ofgnótt af öllu og engu á sama tíma og oft furðulegt að hugsa út í hvatann sem liggur að baki. Eins og gervihárin, þetta er gerviefni sem er búið til og látið líkjast mannshári og selt í einhverjum pakkningum til að bæta við hárið á fólki.“



Skapandi áherslur mikilvægar

Hrafnhildur átti skemmtilega æsku í Fossvoginum. Á þeim árum sem Hrafnhildur var í Fossvogskóla var sérstök áhersla lögð á skapandi greinar. „Þvílík heppni. Í skólanum var sérstök áhersla lögð á skapandi greinar, t.d. smíðar, handmennt og myndmennt, og þetta er bara akkúrat það sem ég er að gera í dag og þarna var ég mjög hamingjusöm,“ segir Hrafnhildur og segir að einstakar áherslur skólans hvað varðar skapandi greinar hafi mögulega haft úrslitaáhrif. Lagt grunn.

Eftir Fossvogsskóla lá leiðin í Réttarholtsskóla. „Þá var ég svo heppin að bróðir hennar mömmu, Þorvaldur Jónasson, kenndi myndlist í skólanum. Hann var meira að segja búinn að koma fyrir keramikað­stöðu í kjallaranum og þar gerðum við alls konar tilraunir með leir, ég glerjaði og brenndi hitt og þetta.“

Þegar Hrafnhildur fór í framhaldsskóla valdi hún öllum að óvörum Verslunarskólann. Hún brosir við. „Tja, já. Þar var ég kannski ekki alveg á réttri hillu. En það var nú samt hressandi svona eftir á að sjá. Ég öðlaðist meiri umburðarlyndi og skilning á því hvað við getum verið ólík. Fólk er bara fólk og við höfum öll áhuga á ólíkum hlutum. Eftir eitt og hálft ár þá kom upp þunglyndi. Líklega af leiða, mér leiddist auðvitað hagfræði og bókfærsla mjög mikið,“ segir hún frá.

Móðir hennar skarst í leikinn og lagði til að hún færi á myndlistarnámskeið meðfram námi.

„Það er mömmu að þakka að ég komst frá þessu. Hún þekkti mig svo vel og vissi hvar ég var hamingjusömust. Það var alveg lygilegt hvernig mér leið á laugardagsmorgnum í myndlistartímum, það var bara eins konar alsæla. Maður velur að hafa hamingjuna að leiðarljósi. Þannig finnst mér að skólakerfið eigi að funkera. Því til hvers annars er þetta allt saman?“ segir Hrafnhildur og baðar út höndum.

Kenndu börnunum heima

Hrafnhildur hefur þetta að leiðarljósi í uppeldi barna sinna, Mána og Ursúlu, sem eru 13 og 10 ára gömul. „Það sem skiptir máli er að þau séu kærleiksrík, góð við menn og dýr og jörðina. Mér er alveg sama hvað þau „verða“ bara að þau verði hamingjusöm. Ef maður heldur sig bara við þetta, er ekki að flækja málið, þá losnar maður við þessa uppáþrengjandi hræðslu um að allt sé að fara á versta veg ef maður gerir þetta ekki svona eða hinsegin.

Við hjónin erum komin á kaf í menntamál og svona endurskoðun á menntun og námi. Við kenndum börnunum heima á tímabili. Syni mínum leist ekkert á blikuna sex ára gömlum og neitaði að taka þátt í skólastarfinu. Honum fannst verið að taka frá sér skapandi hugsun og hann hafði algjörlega rétt fyrir sér. Hann fengi ekki að vera hann sjálfur. Við vorum alveg sammála því. Hann sýndi okkur að það er alveg hægt að gera þetta öðruvísi. Ég var svo heppin í skóla. En svo getur það verið að börnin manns verði ekki jafn heppin og þá verður maður að standa með börnunum sínum og þeirra hamingju. Það er engin ástæða til að steypa alla í sama form. 

Þetta er svo flókið, það eru sumir svo óöruggir ef aðrir eru ekki eins og þeir sjálfir eða kjósa annan lífsmáta,“ segir Hrafnhildur. „Þau eru komin fram úr jafnöldrum sínum á sumum sviðum og aftur úr þeim á öðrum sviðum. En þau eru klár, skemmtileg og hamingjusöm. Örugg í eigin skinni.“

Lífið í New York

Hrafnhildi líkar vel andstæðurnar í lífi sínu. Að búa í stórborginni New York og dvelja um tíma á Íslandi og Póllandi á sumrin.

„Það er frábært að búa í Green­point hverfinu í Brooklyn. Það er aðeins grænna en önnur hverfi í borginni. Fyrst bjó ég í Williamsburg. Svo fór ég til Manhattan þegar ég kynntist manninum mínum. En ég fékk fljótt alveg nóg af að búa á Manhattan. Ég veit ekki hvort ég er svona viðkvæm fyrir orkunni í umhverfinu en ég var dauðþreytt á því að hafa borgina alltaf í andlitinu. Maðurinn minn samþykkti að flytja með mér í Greenpoint þótt það sé pólskt hverfi.

Hann er alinn upp í Póllandi og ég meina, ekki myndi ég vilja búa í íslenskum smábæ í miðri Brooklyn. En þarna er allt til alls. Við komumst hvert sem er með lest og getum meira að segja tekið vatnsleigubíla yfir til Manhattan. En við þurfum annars ekki að fara langt til vinnu því við erum bæði með starfið í sama húsi og við búum í. Michal er uppfinningamaður og rafverkfræðingur og rekur eigið fyrirtæki og nú eru börnin í skóla í Brooklyn og okkur líður vel.



Samstarf Hrafnhildar við tískuverslanakeðjuna &Other Stories hefur vakið lukku.
Gott andrými í New York

Ég held ég sé mótsagnakennd í grunninn og eins og svo margir á ég t.d. tvö sett af foreldrum þar sem blóðforeldrar mínir giftu sig aldrei þannig að ég hef verið „tvífeðra“ frá því ég man eftir mér og á yndisleg systkini í báðar áttir. Ég sæki í þessa tvenndartilvist, held að ég gæti ekki búið í New York nema að hafa greiðan aðgang og vita af Íslandi á sumrin. Svo verð ég stundum að komast burtu úr New York og öfugt. Það virðist vera að ég þurfi að hafa togstreitu eða vissa kaótík. Tvenndir og mótsagnir. En í raun er þetta gott jafnvægi. Að hafa aðgang að báðum stöðum. Ég verð fyrir svo miklum innblæstri af borginni. Ég fæ svo gott andrými til að gera myndlist.

Ég get valið að vera einangruð og út af fyrir mig þegar ég vil. En svo hef ég samt aðgang að fólki og félagslífi. Hér heima er þetta allt í einum graut og allir svolítið „í hvers manns koppi“.

Ég hef reynt að þýða það yfir á ensku, það hefur ekki gengið,“ segir hún glettin og segir ákveðið álag að taka inn mikið af nákvæmum upplýsingum, jafnvel smávægilegum um líf fólks.

„Ég er sko ekki áhugalaus um líf fólks, það er ekki það sem ég á við. Það er bara samt þannig að hér heima þá er mjög mikil nálægð. Í New York er meiri fjarlægð. Ég er þannig gerð að ég hef mikla þörf fyrir einveru en er samt ótrúlega félagslynd. Ég er búin að finna ákveðið jafnvægi hvað þetta varðar.“

Hrafnhildur segir mikilvægt að halda áfram með sköpunargleðina að leiðarljósi. „Það er enn þannig að myndlistin er fyrst og fremst móteitur mitt við leiðindum og þunglyndi. Það er svo erfitt að henda reiður á það hvað myndlist er, hvað hún á að vera og hvaða hlutverki hún gegnir. En eins og aðrar listgreinar getur hún verið miðlun hugmynda, hugarástands og tilfinninga manneskjunnar eða ádeila á lífið og rannsókn á framkvæmd listamannsins og viðbrögðum áhorfandans. Og ég er ekkert að reyna að greina það. Ég hef ekki áhuga á því að vita hvað ég er að gera og til hvers. Efniviðurinn tekur mig í einhverjar áttir og mér hentar vel að ofskilgreina það ekki strax heldur að koma sjálfri mér á óvart. Að vita aldrei hvernig þetta endar.“

Í samstarfi við & Other Stories

Þótt Hrafnhildur sé fyrst og fremst myndlistarmaður hefur hún lagt lykkju á leið sína og tekið að sér verkefni sem hönnuður og stílisti. Hrafnhildur skapaði til dæmis nýja línu fatnaðar og fylgihluta fyrir verslunina & Other Stories. „Þetta er ört stækkandi verslanakeðja og með verslanir í helstu borgum Evrópu og í Ameríku. Fatalínan er held ég að seljast upp, lítið eftir af henni í verslunum en mér skilst að það sé hægt að kaupa fatnað úr línunni enn á netinu,“ bendir Hrafnhildur á. „Það er gaman þegar listin eignast svona aukaafurð.“ 

Af hverju kallar þú þig Shoplifter?

„Þetta var bara misskilningur. Fyrsta mánuðinn minn í New York heyrði einhver Shoplifter þegar ég sagði Hrafnhildur. En svo eru nú hrafnar þekktir fyrir að vera þjófóttir svo þetta passar bara ágætlega. En ég losnaði með þessu við að hlusta á fólk rembast við að reyna að bera fram og afbaka þetta fallega nafn sem Hrafnhildur er! Þá er bara skárra að vera kallaður eitthvað allt annað og mér fannst þetta nógu absúrd til að hafa húmor fyrir því.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×