Hágengisfjandinn Þorvaldur Gylfason skrifar 1. júní 2017 07:00 Sagan heldur áfram að endurtaka sig. Gengi krónunnar hefur nær alltaf verið of hátt skráð ef frá eru talin þau (fjölmörgu!) skipti þegar gengið var nýfallið. Óræk vísbending um of hátt gengi langtímum saman er sú staðreynd að Ísland er eina iðnríkið þar sem erlend viðskipti jukust engu hraðar en landsframleiðslan allan þann tíma sem mælingar ná yfir, þ.e. frá 1870. Alls staðar annars staðar jukust erlend viðskipti örar en landsframleiðslan þar eð hagkvæmt þótti að auka hlut erlendra viðskipta í efnahagslífinu eftir þeirri einföldu reglu að viðskipti borga sig. Hátt gengi krónunnar hélt aftur af útflutningi og þá einnig innflutningi. Við því brugðust menn m.a. með því að fjármagna innflutning um of með erlendri lánasláttu. Erlendar skuldir hrönnuðust upp. Önnur vísbending um of hátt gengi er verðbólga sem var næstmest á Íslandi frá 1960 og áfram á öllu OECD-svæðinu ef Tyrkland eitt er undan skilið. Meiri verðbólga heima en erlendis hækkar raungengi krónunnar þar eð vöruverð erlendis hækkar þá minna en heima og ýtir þannig undir innflutning á vörum og þjónustu frá útlöndum líkt og ef gengi krónunnar hefði hækkað. Þriðja vísbending er þessi: Þegar gengi krónunnar hrapaði í hruninu tók útflutningur fjörkipp, einkum ferðaútvegurinn. Fjöldi erlendra ferðamanna á Íslandi í fyrra, 2016, nam 1,8 milljónum eða fimmföldum íbúafjölda landsins. Það var aldamótaárið 2000 að ferðamannafjöldinn fór fram úr íbúafjöldanum í fyrsta sinn. Hvers vegna er hágengi landlægt á Íslandi? Það er ekki undarlegt þegar alls er gætt. Pendúll hallar svo lengi sem vindur blæs á hann úr einni átt. Þessi líking á við um gengi krónunnar. Vandinn í sem allra stytztu máli er að sjávarútvegurinn hefur verið styrktur af skattfé svo lengi sem elztu menn muna, fyrst beint og síðan óbeint. Styrkir til útflutningsatvinnuvega auka framboð gjaldeyris og lækka þannig verð hans, þ.e. hækka gengi gjaldmiðilsins. Orkusala til erlendra kaupenda undir réttu verði og skattaívilnanir handa þeim eru ígildi útflutningsstyrks og leggjast því á sömu sveif og útvegsdekrið. Við bætist búverndarstefna sem dregur að sínu leyti úr eftirspurn eftir gjaldeyri og lækkar þannig verð hans, þ.e. hækkar gengi krónunnar. Fram að hruni lagðist þungt innstreymi erlends lánsfjár á sömu sveif svo gengið hækkaði upp úr öllu valdi áður en krónan hrundi. Öllu þessu hefur áður verið lýst í þaula.Ekki skemmt Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) taldi raungengi krónunnar 15% til 25% of hátt 2007, ári fyrir hrun, en sjóðnum láðist samt að vara við fyrirsjáanlegum – og fyrirséðum! – afleiðingum hágengisins, þ.e. yfirvofandi gengisfalli. Of hátt gengi fellur alltaf á endanum. Starfsmenn sjóðsins kölluðu efnahagshorfur Íslands „öfundsverðar“ í skýrslu sinni skömmu fyrir hrun. Óháðri eftirlitsskrifstofu sjóðsins sem hefur það hlutverk að blása í flautu þegar starfsmenn sjóðsins villast af réttri leið var ekki skemmt, engin yfirhylming þar. Í skýrslu sinni, 2016, lýsti sjóðurinn þeirri skoðun að raungengi krónunnar, þ.e. gengið eins og það kemur af skepnunni að viðbættri leiðréttingu fyrir verðlags- eða launaþróun heima og erlendis, hefði aftur verið orðið nokkurn veginn rétt 2015, þ.e. hvorki of hátt skráð né og lágt. Þá kostaði Bandaríkjadalurinn 132 krónur og evran 146 krónur. Seðlabankinn birtir nú tölur sem sýna að raungengi krónunnar hefur hækkað um 20% til 25% síðan 2015 eftir því hvort miðað er við þróun verðlags eða launa heima og erlendis. Seðlabankinn segir m.ö.o. – án þess að segja það! – að raungengið sé nú orðið 20% til 25% of hátt alveg eins og það var 2007. Nema þá brostu allir eins og önnum kafinn iðnaðarmaður rifjaði upp í blaðaviðtali um daginn. Við höfum séð þetta allt saman áður. Fyrir hrun var genginu haldið of háu alveg eins og nú m.a. til að halda verðbólgu niðri og fjarlægjast ekki sett verðbólgumarkmið. Seðlabankinn lækkaði þá bindiskyldu til að þóknast bönkunum frekar en að hækka hana til að hemja vöxt þeirra. Hann þrætti fyrir mikinn vaxtamun sem þá eins og nú er til marks um óhagkvæmni í bankarekstri. Ísland er enn eina land álfunnar þar sem innlendir bankar þurfa ekki að keppa við erlenda banka og hegða sér því eins og fákeppnishringur. Seðlabankinn hefur bætt ráð sitt eftir hrun þótt enn vanti mikið á. Mestu skiptir að nú hefur verið girt að nokkru leyti fyrir skyndiflæði erlends fjár inn í landið líkt og gerðist fyrir hrun. En bankanum hafa að ýmsu öðru leyti verið mislagðar hendur. Hann hefði þurft að halda genginu í skefjum með gjaldeyriskaupum frekar en að leyfa því að hækka svo sem raun er orðin á því of hátt gengi fellur alltaf á endanum eins og áður var sagt og skellurinn kemur ójafnt niður. Það þarf ekki nema einn stöndugan spákaupmann úti í heimi til að gera áhlaup á örmynt sem allir sjá að er allt of hátt skráð. Við bætist að bankinn sýnir þess engin merki enn að hann hafi brugðizt við uppljóstrunum Kastljóss RÚV um meint lögbrot í bankanum. „Ég ætla ekki að ræða það sem við gerum í bankaráði,“ sagði einn bankaráðsmaðurinn í sjónvarpi af öðru tilefni en bankaráðinu ber lagaskylda til að fylgjast með að bankinn starfi skv. lögum. Fundargerðir bankaráðsins eru leyniskjöl. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Þorvaldur Gylfason Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Sagan heldur áfram að endurtaka sig. Gengi krónunnar hefur nær alltaf verið of hátt skráð ef frá eru talin þau (fjölmörgu!) skipti þegar gengið var nýfallið. Óræk vísbending um of hátt gengi langtímum saman er sú staðreynd að Ísland er eina iðnríkið þar sem erlend viðskipti jukust engu hraðar en landsframleiðslan allan þann tíma sem mælingar ná yfir, þ.e. frá 1870. Alls staðar annars staðar jukust erlend viðskipti örar en landsframleiðslan þar eð hagkvæmt þótti að auka hlut erlendra viðskipta í efnahagslífinu eftir þeirri einföldu reglu að viðskipti borga sig. Hátt gengi krónunnar hélt aftur af útflutningi og þá einnig innflutningi. Við því brugðust menn m.a. með því að fjármagna innflutning um of með erlendri lánasláttu. Erlendar skuldir hrönnuðust upp. Önnur vísbending um of hátt gengi er verðbólga sem var næstmest á Íslandi frá 1960 og áfram á öllu OECD-svæðinu ef Tyrkland eitt er undan skilið. Meiri verðbólga heima en erlendis hækkar raungengi krónunnar þar eð vöruverð erlendis hækkar þá minna en heima og ýtir þannig undir innflutning á vörum og þjónustu frá útlöndum líkt og ef gengi krónunnar hefði hækkað. Þriðja vísbending er þessi: Þegar gengi krónunnar hrapaði í hruninu tók útflutningur fjörkipp, einkum ferðaútvegurinn. Fjöldi erlendra ferðamanna á Íslandi í fyrra, 2016, nam 1,8 milljónum eða fimmföldum íbúafjölda landsins. Það var aldamótaárið 2000 að ferðamannafjöldinn fór fram úr íbúafjöldanum í fyrsta sinn. Hvers vegna er hágengi landlægt á Íslandi? Það er ekki undarlegt þegar alls er gætt. Pendúll hallar svo lengi sem vindur blæs á hann úr einni átt. Þessi líking á við um gengi krónunnar. Vandinn í sem allra stytztu máli er að sjávarútvegurinn hefur verið styrktur af skattfé svo lengi sem elztu menn muna, fyrst beint og síðan óbeint. Styrkir til útflutningsatvinnuvega auka framboð gjaldeyris og lækka þannig verð hans, þ.e. hækka gengi gjaldmiðilsins. Orkusala til erlendra kaupenda undir réttu verði og skattaívilnanir handa þeim eru ígildi útflutningsstyrks og leggjast því á sömu sveif og útvegsdekrið. Við bætist búverndarstefna sem dregur að sínu leyti úr eftirspurn eftir gjaldeyri og lækkar þannig verð hans, þ.e. hækkar gengi krónunnar. Fram að hruni lagðist þungt innstreymi erlends lánsfjár á sömu sveif svo gengið hækkaði upp úr öllu valdi áður en krónan hrundi. Öllu þessu hefur áður verið lýst í þaula.Ekki skemmt Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) taldi raungengi krónunnar 15% til 25% of hátt 2007, ári fyrir hrun, en sjóðnum láðist samt að vara við fyrirsjáanlegum – og fyrirséðum! – afleiðingum hágengisins, þ.e. yfirvofandi gengisfalli. Of hátt gengi fellur alltaf á endanum. Starfsmenn sjóðsins kölluðu efnahagshorfur Íslands „öfundsverðar“ í skýrslu sinni skömmu fyrir hrun. Óháðri eftirlitsskrifstofu sjóðsins sem hefur það hlutverk að blása í flautu þegar starfsmenn sjóðsins villast af réttri leið var ekki skemmt, engin yfirhylming þar. Í skýrslu sinni, 2016, lýsti sjóðurinn þeirri skoðun að raungengi krónunnar, þ.e. gengið eins og það kemur af skepnunni að viðbættri leiðréttingu fyrir verðlags- eða launaþróun heima og erlendis, hefði aftur verið orðið nokkurn veginn rétt 2015, þ.e. hvorki of hátt skráð né og lágt. Þá kostaði Bandaríkjadalurinn 132 krónur og evran 146 krónur. Seðlabankinn birtir nú tölur sem sýna að raungengi krónunnar hefur hækkað um 20% til 25% síðan 2015 eftir því hvort miðað er við þróun verðlags eða launa heima og erlendis. Seðlabankinn segir m.ö.o. – án þess að segja það! – að raungengið sé nú orðið 20% til 25% of hátt alveg eins og það var 2007. Nema þá brostu allir eins og önnum kafinn iðnaðarmaður rifjaði upp í blaðaviðtali um daginn. Við höfum séð þetta allt saman áður. Fyrir hrun var genginu haldið of háu alveg eins og nú m.a. til að halda verðbólgu niðri og fjarlægjast ekki sett verðbólgumarkmið. Seðlabankinn lækkaði þá bindiskyldu til að þóknast bönkunum frekar en að hækka hana til að hemja vöxt þeirra. Hann þrætti fyrir mikinn vaxtamun sem þá eins og nú er til marks um óhagkvæmni í bankarekstri. Ísland er enn eina land álfunnar þar sem innlendir bankar þurfa ekki að keppa við erlenda banka og hegða sér því eins og fákeppnishringur. Seðlabankinn hefur bætt ráð sitt eftir hrun þótt enn vanti mikið á. Mestu skiptir að nú hefur verið girt að nokkru leyti fyrir skyndiflæði erlends fjár inn í landið líkt og gerðist fyrir hrun. En bankanum hafa að ýmsu öðru leyti verið mislagðar hendur. Hann hefði þurft að halda genginu í skefjum með gjaldeyriskaupum frekar en að leyfa því að hækka svo sem raun er orðin á því of hátt gengi fellur alltaf á endanum eins og áður var sagt og skellurinn kemur ójafnt niður. Það þarf ekki nema einn stöndugan spákaupmann úti í heimi til að gera áhlaup á örmynt sem allir sjá að er allt of hátt skráð. Við bætist að bankinn sýnir þess engin merki enn að hann hafi brugðizt við uppljóstrunum Kastljóss RÚV um meint lögbrot í bankanum. „Ég ætla ekki að ræða það sem við gerum í bankaráði,“ sagði einn bankaráðsmaðurinn í sjónvarpi af öðru tilefni en bankaráðinu ber lagaskylda til að fylgjast með að bankinn starfi skv. lögum. Fundargerðir bankaráðsins eru leyniskjöl. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun