Lífið

Sögur af veginum

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Grindjánar- mótorhjólaklúbbur
Grindjánar- mótorhjólaklúbbur
Undir hörðu yfirborðinu er mýkt og umhyggja fyrir samfélaginu. Meðlimir mótorhjólaklúbbsins Grindjána í Grindavík tóku á móti blaðamanni í félagsheimili sínu Virkinu og sögðu sögur af veginum. Og frá mikilvægi þess að standa upp eftir áföll, losa sig við óttann og njóta ferðalagsins.

Virkið stendur við Ægisgötu í Grindavík. Þar sem áður var rækjuvinnsla Þorbjarnar er nú klúbbhús mótorhjólaklúbbsins Grindjána.

Blaðamaður leit inn í Virkið á þriðjudagskvöldi en þá er opið hús kl. 19.30 fyrir alla þá sem hafa áhuga á starfseminni. Þeir opna einnig klúbbhúsið fyrir bæjarbúa yfir vetrartímann og halda til dæmis jólagleði, þorragleði og vorgleði.

Tveir hávaxnir Grindjánar standa fyrir utan Virkið og spjalla. Þeir eru íklæddir leðurvestum með ísaumuðu merki Grindjána á bakinu. Framan á vestinu er félaganúmerið og nöfn þeirra. Stundum viðurnefni þeirra. Þetta kvöld eru til dæmis Lúsífer, Flúri, Rokkurinn, Púki, Engill og Kanslari stödd í Virkinu.

Í dag eru þrjátíu og fimm félagar í klúbbnum en alls hafa 99 félagar verið í Grindjánunum frá upphafi.

Aðstaðan við Ægisgötu var útbúin fyrir tveimur árum. Félagsmenn hjálpuðust að, þrifu, máluðu, rifu niður veggi og settu upp nýja veggi. Einn Grindjána, Georg, hlaut viðurnefni sitt, „Rokkurinn“, eftir endurbætur á húsinu. Aðstaðan er smekkleg, hlýleg. Þarna geyma félagsmenn hjólin sín, horfa saman á kvikmyndir, fá sér kaffi. Tja eða kannski eitthvað aðeins sterkara og ræða saman.





Grindjánar staddir fyrir utan Virkið í Grindavík. Vísir/Andri Marínó
Aðstoða bágstadda

Þeir eru sumir vígalegir. Flúraðir og með voðaleg viðurnefni. En undir hrjúfu yfirborðinu er mýkt. Grind­jánarnir eru áberandi á Sjóaranum síkáta sem haldinn er núna um helgina. Um sjómannadagshelgina fer fram stærsta fjáröflun klúbbsins á hverju ári og það er alls konar góðgerðarstarf sem nýtur góðs af því. Grindjánarnir grilla pylsur og leyfa börnum að sitja á mótorfákunum. Þátttaka Grindjánanna er ómissandi hluti af hátíðarhöldum bæjarins.

Þeir ræða ekkert í smáatriðum um góðgerðarstarfið. Vilja ekki ræða það af nærgætni við þá sem þiggja. En góðmennskan fréttist. Eitt árið heimsóttu þeir íþróttafélög fatlaðra og buðu fötluðum á rúntinn. Þeir hafa aðstoðað bágstadda í Grindavík með milligöngu kirkjunnar og annað. Listinn er lengri. Miklu lengri.





Hörður og Bragi ræða málin.Visir/Andrimarínó
Kanslarinn og engillinn

„Kanslarinn“ er Hrafnhildur Björgvinsdóttir, alltaf kölluð Hrabba. Hún og eiginmaður hennar, „Engillinn“ Davíð Friðriksson, eru tveir af stofnmeðlimum Grindjána og hafa verið að hjóla í tugi ára. Hrabba býður upp á kaffi úr lúxuskaffivél sem getur framleitt ótrúlega marga kaffidrykki. Hún stendur í svolitlum barkrók í setustofu Virkisins og útskýrir markmiðin með stofnun klúbbsins fyrir öllum þessum árum síðan. „Fyrst og fremst að hjóla saman, skemmta sér og öðrum og láta gott af sér leiða, og einnig að stuðla að bættri umferðarmenningu. Við vorum ellefu sem vorum stofnfélagar, og nú eru fimm eftir af upprunalegum stofnfélögum,“ segir Hrabba.

„Við vorum nýflutt hingað í bæinn og þekktum fáa hér en vissum af einum og einum sem var að hjóla,“ segir Davíð. „Já, og við buðum fólki einfaldlega að vera með okkur í klúbbi. Hingað kom fólk sem við þekktum ekkert. Það hefur margt breyst síðan þá,“ segir Davíð og lítur í kringum sig á vini sína, Grindjánana, sem eru mættir í Virkið.





Hrabba, „kanslari“ í svolitlum barkrók í aðstöðu Grindjána í Virkinu.Vísir/Andrimarínó
Öll í fullri vinnu

Meirihluti Grindjána býr í Grindavík. En nokkrir þó í grenndinni á Suðurnesjum og örfáir eru búsettir í Hafnarfirði. Í klúbbnum eru átta hjón. Tvenn þeirra eiga syni í klúbbnum.

Hrabba vinnur sem bókari hjá Héðni í Hafnarfirði og Davíð vinnur hjá pípulagningameistara.



Hörður starfar sem netagerðarmaður, er reyndar með verkstæði sitt rétt hjá klúbbhúsinu. Þar geyma félagsmenn hjólin sín þegar eitthvað mikið stendur til. Til dæmis brúðkaup. Tvenn hjón hafa gift sig í Virkinu í ár. „Við eigum Hörð í horni,“ segir Baldur, kallaður „Gráni“, um greiðvikni Harðar. „Gráni“ starfar í vélsmiðjunni í Grindavík.

Georg, „Rokkurinn“ sem fékk viðurnefnið við að gera upp Virkið, starfar við flugvélaeftirlit á Keflavíkurflugvelli.

„Ég vann nú í fjöldamörg ár við að prenta Fréttablaðið,“ segir Arnar Ólafsson. Á vestinu hans stendur „CB“, sem merkir einfaldlega að hann hafi átt Hondu CB. „Ég starfa nú hjá fyrirtæki sem heitir Vörumerking,“ segir Arnar sem segir prentiðnina því miður deyjandi iðngrein með hröðum tækniframförum. „Það má segja að sjúklingurinn sé á skurðarborðinu,“ segir hann um þróunina.





Jonni, „Flúri“ og „Lúsífer“ ræða málin.Vísir/Andrimarínó
Guðjón Gíslason, kallaður Jonni, státar ekki af nokkru viðurnefni. Eiginkona hans Alla hans er kölluð „Prinsessan“.

„Ég er viðhaldsmaður í Bláa lóninu,“ segir Jonni.

„Ég hélt þú værir að þurrka einhverjum inni í klefa? Ég var að hugsa um að sækja um,“ segir Davíð og uppsker hláturrokur félaga sinna og Jonna.

„Þetta er öfund í honum,“ segir Inga við Jonna. Inga hefur viðurnefnið „Púki“ og starfar sem sjúkraliði á spítalanum í Keflavík og sem nuddari. „Það þorir enginn í nudd til mín, því þeir lenda kannski bara á spítala,“ gantast hún með.



Ingimundur Magnússon ber einna skuggalegasta viðurnefnið. „Lúsífer“ stendur á jakkanum hans. Hann er þó oftar kallaður Mundi og starfar hjá Ístaki. Grindjánar segjast nokkuð sammála um að viðurnefnið Lúsífer sé nokkurs konar öfugmæli.

„Það er þó alltaf einhver örlítil alvara á bak við,“ segir Inga og glottir. Við hlið Munda stendur Árni Kr. Ólafsson, „Flúri“. Hann skartar ótal húðflúrum, á höfði og handleggjum. Í horni setustofunnar hangir fallegt listaverk eftir hann. „Hann hefur flúrað nokkur okkar,“ skýrir Davíð frá.





Arnar Cb í Virkinu.Vísir/Andrimarínó
Það er ekkert lítið fíflast þegar Grindjánar koma saman. Og þau eru augljóslega traustir vinir sem eru saman komin í Virkinu þetta kvöld.

Við hlið Ingu situr Bjarný, kona Arnars „CB“ sem starfar líka sem sjúkraliði. „Ég er líka ökukennari. Kenni þó ekki á hjól,“ svarar Bjarný spurð hvort hún nýti sér ekki örugglega ökukennarastarfið til að veiða inn nýliða í Grindjánana.

Tóku frétt DV nærri sér

Hafdís Jónsdóttir og Bragi Pálsson eru hjón. Þau eiga bæði son og tengdadóttur í Grindjánunum. Bragi starfar við akstur og Hafdís við bleikjuvinnslu. „Bleikjuvinnslan er nú bara í næsta húsi,“ segir Hafdís.

„Enda er allt hér, því þetta er nafli alheimsins,“ segir Inga „Púki“. Tengdadóttir Hafdísar er reyndar í inntökuferli sem stendur yfir í sex mánuði.

Hrabba útskýrir ferlið. „Það er sex mánaða inntökuferli. Fólk sækir um og þeir sem eru í stofnráði, ellefu elstu meðlimirnir, samþykkja félagsmenn inn. Í ferlinu þarf fólk að sýna sig og sanna.“

Hvernig sýna þeir sig og sanna? „Þeir þurfa nú allra helst að sýna áhuga og vera með. En líka að vinna fyrir klúbbinn.

Það eru engar kvaðir. Ef fólk kemur og sýnir þessu áhuga þá hljóta þeir greiða inngöngu,“ svarar Davíð.

En þið sigtið úr fólk er það ekki? „Jú, við gerum það og höfum lent í blöðunum út af því,“ segir Hafdís og rifjar upp frétt sem var sögð í DV fyrir nokkrum árum. Einum var synjað um inngöngu og sótti sá hinn sami um einkaleyfi á nafninu Grindjánar. „Leiðindamál sem tók á okkur,“ segir Davíð frá og bætir við að í fréttinni hafi misfarist að segja rétt frá og leiðréttingin sem Grindjánar vildu koma á framfæri hefði ekki ratað á síður DV.

Grindjánar- mótorhjólaklúbbur á ferð um Suðurnes.Visir/Andrimarínó


„Velkomin, bikers and bitches“

Deginum áður en blaðamaður er í heimsókn sóttu flestir Grindjána svokallaða mótorhjólamessu. Árlegan viðburð þar sem hinir ýmsu mótorhjólaklúbbar ríða fákunum í fylkingu til Digraneskirkju. Kirkjan fyllist þá mótorhjólafólki íklæddu leðri og goretex. Presturinn, séra Gunnar Sigurjónsson er einnig íklæddur viðeigandi klæðnaði, í leðurvesti, og Grindjánar eru sammála um að prestskraginn fari einkar vel við leðrið.

„Presturinn ávarpar fyrst söfnuðinn. Velkomin, bikers and bitches. Þetta er svona hrá og rokkuð messa. Nokkuð sem allir verða að upplifa.

Presturinn varar gesti við áður en messuhaldið hefst. Hún gæti farið fyrir brjóstið á þeim sem leitast eftir hefðbundnara kirkjuhaldi,“ segir Hrabba.

„Hann tekur það fram að ef þú heldur að þú sért kominn í alvörumessu þá skulir þú standa upp og ganga út,“ segir Bragi.

„En fólk hefur nú látið sig hafa það og það eru margir sem tengjast engum mótorhjólaklúbbum sem mæta á hverju ári. Harðfullorðið fólk. Virðulegar konur á áttræðisaldri sem hafa bara virkilega gaman af þessu,“ segir Inga.

Mótorhjólamessan er viðamikið samstarfsverkefni sem gengur þvert á kirkjudeildir og mótorhjólaklúbba. Meðan messan er geta allir farið og fengið sér vöfflukaffi og ágóðinn rennur til hjálparstarfs kirkjunnar. Kirkjutónlistin er líka óhefðbundin. Síðustu ár hafa kirkjuveggir titrað af þungum bassahljómum. Eitt árið var það til dæmis Deep Purple, í ár var það öllu mildara því kántrítónlist ómaði í Digraneskirkju.



En hvernig skyldu Grindjánarnir vera öðruvísi en aðrir mótorhjólaklúbbar á landinu? „Ætli okkar sérstaða sé ekki sú að við erum mörg hjónafólk. Við erum ekki þessi hefðbundni hjólaklúbbur,“ segir Hrabba.

„Við erum meira eins og saumaklúbbur,“ segir Hafdís og kímir.

Bjóða börnum og mömmum í túr

Og fram undan er Sjóarinn síkáti. „Það er heljarinnar stuð,“ segir Hrabba frá. „Það voru 180 hjól í fyrra. Við keyrum inn í bæinn í hópkeyrslu og í gegnum hátíðarsvæðið. Við endum hér í Virkinu þar sem við bjóðum hjólafólkinu og öðrum upp á grillaðar pylsur. Um hálf fjögur förum við niður að fiskmarkaðnum og leyfum börnum að sitja á hjólunum í um það bil klukkustund milli 16-17. Það finnst þeim óskaplega spennandi,“ segir hún frá.

Grindjánarnir standa vel að viðburðinum og gæta fyllsta öryggis. Þeir festu kaup á hjálmum og öryggisbeltum vegna viðburðarins.

„Við þurftum náttúrulega að kaupa belti af því að við erum svo feitir, krakkarnir ná ekki að festa sig á okkur,“ segir Davíð og skellir upp úr.

„Við leyfum mömmunum líka að fara rúnt í lokin,“ segir Mundi, kallaður Lúsífer.



Blaðamaður á ferð með „Lúsífer“.Vísir/Andrimarinó
Hrabba hefur tvisvar sinnum slasast á hjólinu. Þau eru öll sammála um að það skipti máli að láta ekki óttann ná tökum á sér. „Ég fór á hausinn í Nesjavallabrekku árið 2007. Þá missti ég hjólið í lausamöl. Það kom sprunga í hjálminn. Í seinna skiptið datt ég á öfugan vegarhelming í hópslysi á Holtavörðuheiði árið 2014,“ segir Hrabba frá.

„Það fór betur á en horfðist,“ segir Arnar um fyrra slysið. „Já, ég var vel gölluð, ég slasaðist á ökkla en annars er í lagi með mig.“

„En þú hefðir getað dáið í seinna skiptið,“ minnir Inga á. „Það munaði engu.“

„Henni var bjargað af tveimur englum,“ segir Arnar og horfir til Lúsífers þar sem hann stendur við barkrókinn og heldur áfram frásögn sinni: 

Lúsífer og Engillinn reistu hjólið við rétt áður en jeppi kom á miklum hraða að henni þar sem hún lá á veginum.



 „Við vildum ekki þriðja engilinn í hópinn,“ segir Davíð og Hrabba brosir.

„Það eru bara til tvenns konar hjólamenn. Þeir sem eru búnir að detta og þeir sem eiga eftir að detta,“ segir Baldur.

„Það þýðir ekki að láta óttann ná tökum á sér. Það á við um allt,“ segir Arnar. „Já, það er sama hvað það er. Áföll eða annað. Það skiptir máli að standa upp, reisa sig við og halda áfram,“ segir Hrabba. „Ég hjólaði sjálf niður í Baulu eftir slysið. Ég man ekki eftir því. En ég er fegin að ég gerði það. En það er bara fyrir snarræði „Englanna“ sem ég er á lífi. Og svo er bara að halda áfram og njóta þess að vera til.“



„Það er nú ein regla hjólafólks. Að treysta engum. Bara sjálfum sér og félögunum,“ segir Arnar.

„Gatnakerfið er í slæmu standi og svo gera túristarnir okkur grikk,“ útskýrir hann.

Túristar og dauðagildrur

„Það er stórhætta í umferðinni af túristum sem eru að skoða náttúrufegurðina. Við vorum á leiðinni fjögur okkar austur á landsmót. Vorum á leið yfir blindhæð austur á fjörðum. Þar var lítill bíll stopp og dyrnar opnar. Á blindhæðinni stóðu ferðamenn og virtu fyrir sér útsýnið,“ segir Hrabba frá og segir lukkuna eina hafa afstýrt slysi.

„Ef maður sér Yaris eða gljáandi smábíl fram undan þá er maður farinn að negla niður,“ segir Baldur um bílaleigubíla ferðamanna í umferðinni.

„Við hjóluðum svo lengra þarna fyrir austan og þá voru þar túristar úti á miðri götu að klappa kindum,“ segir Hrabba og hristir höfuðið.

„Svo eru þeir um nætur með bílana stopp á miðri götu hér á Suðurnesjum að skoða norðurljósin. þetta er stórhættulegt,“ segir Baldur.

Og hvað er það, sem heillar svona mikið? „Það er frelsið. Það er félagsskapurinn og það er útivistin. Að vera úti í náttúrunni. Það lyftir andanum,“ segir Hrabba.

„Já. Við elskum að hjóla úti í náttúrunni þangað til við komum að túni þar sem er búið að bera á mykju,“ segir Davíð og skellir upp úr.

„Já, þá fáum við náttúruna beint í æð!“ segir Hörður og Grindjánarnir liggja í hláturrokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×