Lífið

Sóli snöggreiddist í beinni og Steindi þarf að hlaupa hálfmaraþon

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sóli og Salka Sól ræddu við Steinda Jr. á Rás 2 áðan.
Sóli og Salka Sól ræddu við Steinda Jr. á Rás 2 áðan. myndvinnsla Garðar
„Ég er maður orða minna og ætla ekki að bakka með þetta,“ segir Steinþór Hróar Steinþórsson, betur þekktur sem Steindi Jr., í samtali við Vísi en hann lenti í smá rifrildi við Sólmund Hólm í þættinum Sumarmorgnar á Rás 2 um hádegisbilið í dag. Steindi lofaði upp í ermina að hann myndi hlaupa hálfmaraþon í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst.

Steindi vildi meina að tíu kílómetrar væru alltof lítið og í raun bara auðvelt verkefni.

„Ég viðurkenni að ég hljóp aðeins framúr mér, en ætla bara taka þetta á kassann og hlaupa. Eftir á að hyggja var þetta smá skita og fólk hafði strax samband við mig eftir þáttinn og spurði hvað væri eiginlega að mér. Ég hef kannski hlaupið einn kílómeter á ævinni og skipuleggjendur hlaupsins þurfa sennilega að hafa sjúkrabíl við hliðin á mér allt hlaupið.“

Steindi segir að Neistinn, styrktarfélag hjartveikra barna, hafi strax haft samband við hann eftir viðtalið og ætlar því grínistinn að hlaupa fyrir félagið.

„Ég skora alla á að styrkja Neistann og skora á mig.“

Umræðan hefst eftir 2:13:45 og má hlusta á rifrildið hér en Steindi ræddi þar við Sólmund og Sölku Sól.

„Nei ég er ekkert að fara hlaupa, hvað ætlar þú að hlaupa?,“ sagði Steindi við Sóla sem svaraði um hæl: „Ég fer tíu kílómetra.“

Steindi: „Tíu kílómetrar? Er það ekki bara eins og hlaupa Bankastrætið?“

Sóli: „Ert þú að segja að þú getir það? Gætir þú hlaupið tíu kílómetra?“

Steindi: „Æji Sóli ég gæti hlaupið tíu kílómetra núna sko. Ég er ekki að reyna vera leiðinlegur en ætlar þú ekki að hlaupa meira?“

Sóli: „Það er alveg hægt að hlaupa meira, það er hægt að hlaupa hálfmaraþon, gerðu það bara. Það er svo mikill kjaftur á honum.“

Steindi: „Ég held ég gæti alveg hlaupið hálfmaraþon.“

Sóli: „Ertu eitthvað bilaður?“

Samtalið endaði svo með því að Steindi Jr. er að fara hlaupa hálfmaraþon.

Steindi er nú þegar kominn með styrktarreikning inni á vefsíðu Reykjarvíkurmaraþonsins sem sjá má hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.