Stúlkurnar sem urðu fyrir barðinu á Róberti Árna Hreiðarssyni munu aldrei endurheimta glataða æsku. Aftur á móti stendur til að endurheimta svonefnda æru mannsins. Og lögmannsréttindi, sem Hæstiréttur veitti honum með þeim orðum meðal annars í úrskurði sínum að „það skipti […] hann miklu máli að geta skilið við þann kafla í lífi sínu sem leitt hafi til dómsins á árinu 2008“.
Virðingarstaða
Lögmennska er virðingarstaða í samfélaginu, valdastaða gagnvart alls konar fólki sem stendur misvel að vígi, trúnaðarstaða þar sem viðkvæm mál koma upp og reynir á mannkosti og heiðarleika viðkomandi manns. Það eru ekki grundvallarréttindi að fá að gegna lögmennsku – hafi maður einu sinni verið sviptur þeim – heldur forréttindi. Ekki blasir við að dæmdur barnaníðingur sé vel fallinn til slíkra starfa.
Um þetta mál hefur þegar verið skrifað margt og sennilega litlu við það að bæta. Hins vegar er það umhugsunarefni fyrir okkur öll að í þessu máli birtist óvenju skýrt hvernig lagaleg niðurstaða máls getur farið í bága við sómakennd og siðferðisviðmið alls þorra fólks; það er óheppilegt fyrir samfélag þegar slíkt gerist oft.
Það blasir við nánast hverjum manni – nema ef til vill Róberti og lögmanni hans – að hann fær ekki „uppreist æru“ si svona, nema í þröngum lagaskilningi, og hugsanlega í litlum hópi vina og velunnara. Orðspor manns, sæmd – æra – er ekki nokkuð sem aðeins er komið undir lögum. Og sæmd sína geta menn ekki sótt til dómstóla. Hvað sem kann að vera átt við með orðinu „æra“ í hinum stirðnaða og gamla lagatexta um „uppreist æru“ þá er það samt sem áður svo, að sæmd öðlumst við með framgöngu okkar, orðum og verkum; því orði sem af okkur fer. Sæmd er einfaldlega það álit sem annað fólk hefur á okkur, hafi það á annað borð einhverjar skoðanir á manni, sem auðvitað er sjaldnast, og kannski best.
Þó að sakamaður komi út úr fangelsi frjáls maður, búinn að afplána frelsissviptingu vegna glæpa sinna, á viðkomandi alveg eftir að byggja upp mannorð sitt í samfélaginu; þó að sérhver eigi svo sannarlega skilið nýtt tækifæri til að verða nýt manneskja eftir slíka afplánun, þá verður viðkomandi sjálfur að sýna meðborgurum sínum fram á að vera orðinn nýr og betri maður. Besta leiðin til þess er ekki endilega að sækjast eftir mannvirðingum á borð við lögmannsstarf.
Við erum það sem við gerum
Það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að lögin hafa sínar takmarkanir í siðferðilegum og heimspekilegum álitamálum. Dómar eru ekki einhlítur mælikvarði á rétt og rangt. Þeir geyma mat (vonandi) færustu manna á því hvernig tekist hefur að sanna ávirðingar og þó að manneskja teljist saklaus uns sekt er sönnuð á enginn heimtingu á því að njóta sæmdar í samfélaginu. Álit annarra á okkur ræðst af verkum okkar og framgöngu – persónu okkar – við erum það sem við gerum. Lögin segja hins vegar að það sé ekki endilega svo – heldur séum við það sem sem við verðum uppvís að því að gera.
Þetta eru takmarkanir lögfræðinnar. Hún nær ekki utan um siðferðileg álitamál nema upp að vissu marki. Áður en Róbert Árni var dæmdur sagðist hann saklaus af ásökunum (og hefur aldrei sagt annað). Hann var líka saklaus í skilningi laganna – en hann var ekki saklaus, það vitum við nú. Við erum það sem við gerum – og það sem meira er: við berum það sem við gerum. Allt sem við gerum fylgir okkur og mótar okkur – meira að segja þó að það hafi aldrei komist upp.
Róbert mun aldrei geta „skilið við þann kafla í lífi sínu sem [leiddi] til dóms yfir honum 2008“ frekar en annað fólk sem þessu ömurlega máli tengist. Hann getur ekki létt af sér byrðunum af verkum sínum. Það getur enginn gert. Ekki lögfræðingur hans og ekki heldur Hæstiréttur. Menn sem hafa gerst sekir um alvarlega glæpi á borð við morð, nauðgun eða barnaníð fara um með þungar byrðar og ekkert okkar getur létt þessum byrðum af þeim. Kristnir menn segja að það geti guð einn gert – aðeins guð geti veitt fyrirgefningu fyrir svo skelfilega glæpi en þá aðeins að undangenginni sannri og raunverulegri iðrun.
Aðrir segja sem svo, að fyrirgefning sé ekki í boði en við séum hins vegar það sem við gerum, og þar á meðal það sem við gerum næst. Við getum ekki breytt því sem við höfum áður gert af okkur en við getum valið um hitt sem við gerum næst, og þannig getum við hægt og hægt reynt að lifa frá degi til dags og létta þunga daganna með því að reyna að breyta rétt og hætta að réttlæta glæpi, eins og við vitum að kynferðisglæpamenn eru sérlega gjarnir á að gera. Hvað sem því öllu líður þá er sjálf afplánun dóms aðeins fyrsti liður í því langa og stranga ferli fyrir barnaníðinga að lifa með sér og verkum sínum.
Fastir pennar