Fótbolti

Frábært sumar unglingalandsliða Englendinga hjálpar þeim að gleyma Íslandsleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Sessegnon.
Ryan Sessegnon. Vísir/Getty
Englendingar geta horft björtum augum til framtíðarinnar í fótboltanum ef marka má gott gengi yngri landsliðanna í sumar. Öll landsliðin eru nefnilega að gera það gott.

Englendingar hafa ekki unnið titil á stórmóti í fótboltanum síðan 1966 og landslið þeirra hefur verið aðhlátursefni síðan Íslendingar slógu þá út í sextán liða úrslitum EM í Frakklandi í fyrrasumar.

Tapið á móti Íslandi í Nice voru enn ein vonbrigðin fyrir enska landsliðið á síðustu stórmótum og menn kölluðu eftir endurnýjun í liðinu. Hún ætti að geta gengið vel ef marka má þann efnivið sem Englendingar eiga í dag.

Þetta hefur verið frábært sumar fyrir ensku unglingalandsliðin og hápunkturinn var þegar 20 ára landsliðið vann heimsmeistaratitilinn á dögunum eftir sigur á Venesúela í úrslitaleik. Fyrsti heimsmeistaratitill Englendinga í 51 ár.

Sautján ára landsliðið komst í úrslitaleikinn á EM og 21 árs landsliðið fór alla leið í undanúrslitin Evrópumótsins þar sem liðið tapaði fyrir Þýskalandi í vítakeppni.

Nú síðast tryggði nítján ára landslið Englendinga sér sæti í undanúrslitunum á EM í Georgíu. Enska liðið vann 4-1 sigur á Þjóðverjum og mætir Tékkum í undanúrslitaleiknum á miðvikudaginn. Í hinum undanúrslitaleiknum mætast síðan Portúgal og Holland.

Ben Brereton, leikmaður Nottingham Forest og Ryan Sessegnon, leikmaður Fulham, skoruðu báðir tvö mörk í leiknum. Chelsea-maðurinn Mason Mount var líka allt í öllu í sóknarleiknum og átti þátt í þremur markanna.  Þeir Brereton og Sessegnon hafa báðir skorað þrjú mörk í keppninni og eru markahæstir ásamt Joël Piroe frá Hollandi og Viktor Gyökeres frá Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×