Tónlist

Systurnar í Haim eru ánægðar með Ísland

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Systurnar spiluðu á Iceland Airwaves-hátíðinni árið 2012. Tónleikarnir virðast vera þeim minnisstæðir.
Systurnar spiluðu á Iceland Airwaves-hátíðinni árið 2012. Tónleikarnir virðast vera þeim minnisstæðir. Vísir/getty
“Við höfum virkilega unun af því að spila. Þegar Days are Gone kom út fengum við tækifæri til að halda tónleika um allan heim. Ég hefði aldrei getað ímyndað mér að við myndum einhvern tíman fá að ferðast til helming þeirra landa sem við höfum heimsótt. Við höfum farið til Íslands!”

Tónlistin er í fyrsta sæti hjá systrunum.Vísir/getty
Í nýjasta tölublaði V Magazine segja systurnar í hljómsveitinni Haim frá tónleikaferð sinni um heiminn og nýju plötunni þeirra Something to Tell You sem margir hafa beðið með mikilli eftirvæntingu. Þær hafa ferðast víða og til að útskýra fyrir blaðamanni hversu víðförlar þær eru segjast þær hafa komið alla leið til Íslands. Hljómsveitin Haim spilaði á Iceland Airwaves-hátíðinni árið 2012. Þegar þær renna hugsjóninni yfir tónleikaferðalagið sitt virðast tónleikarnir á Gamla gauk á litla Íslandi hafa verið tónlistarkonunum minnisstæðir.

Hljómsveitina skipa þær Alana, Danielle og Este Haim frá Californíu í Bandaríkjunum.

Days are Gone plötunni var gríðarlega vel tekið og var hún m.a. nefnd á lista Pitchfork yfir hundrað bestu plötur áratugarins. Þær hafa spilað nánast sleitulaust á tónleikaferðalagi síðan platan kom út enda er það helsta ástríða þeirra: “Við ætlum að spila þangað til blæðir úr fingrunum og blóð flæðir út úr eyrunum á okkur,” segir ein Haim-systranna með afar myndrænum hætti.



Ný plata og hnetusmjörssamlokur

Eftir tónleikaferðalagið hélt leið systranna rakleiðis í foreldrahús þar sem þær eru búnar að koma sér upp upptökuveri. Þar sömdu þær og tóku upp plötuna Something to Tell You sem kom út fyrr í þessum mánuði. Á meðan á upptökunni stóð framreiddi móðir þeirra gómsætar samlokur með hnetusmjöri og sultu sem eflaust hefur aukið sköpunargleði systranna.



Nýja platan fjallar um mannleg samskipti.Vísir/getty
Ótal samskiptaleiðir en skortur á raunverulegum samskiptum

Alana Haim, ein systranna, segir að nýja platan fjalli að miklu leyti um mannleg samskipti. Hún segir að þær systur eigi einstaklega bágt með þau. Rót vandamálsins telur hún liggja í nútímaháttum. “Við búum við allar þessar ólíku samskiptaleiðir: Þú getur sent tölvupóst, þú getur sent smáskilaboð og þú getur hringt. Þú getur farið ótal leiðir á sama tíma og þú getur ekki sagt neinum hvernig þér líður raunverulega. Þú ert alltaf í hausnum á þér,” segir Alana til útskýringar.

Sú elsta innan systraveldisins, Este Haim, segir að systurnar séu bestar í að tjá sig í gegnum tónlistina. Það sé besti farvegurinn fyrir tilfinningar og tjáningu. Hún segir að tónlistarsköpunin hafi heilandi áhrif á sig. Este bendir á hversu mótsagnarkennd mannleg samskipti eru á okkar tímum þegar hún segir að þau séu auðveld en líka erfið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.