Lífið

Unnur að gera það gott í Hollywood: Draumur að leika hlutverk sem skipta einhverju máli

Stefán Árni Pálsson skrifar
Unnur lærði leiklist í New York.
Unnur lærði leiklist í New York.
„Það gengur rosalega vel úti og rosalega mikið að gera,“ segir Unnur Eggertsdóttir sem er ung og efnileg leikkona á hraðri uppleið úti í Los Angeles. Unnur var í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Unnur var á dögunum að fá áframhaldandi landvistarleyfi úti í Bandaríkjunum og má hún búa þar næstu þrjú árin.

„Það voru heldur betur góðar fréttir og núna má ég vinna þar löglega næstu þrjú árin. Það var rosalega langt ferli að fá þetta landvistarleyfi og hófst þetta allt saman í nóvember. Ég fann lögfræðing sem ég vildi vinna með og við settum saman þykkan bunka af allskonar hlutum sem ég hef gert á mínum ferli.“

Unnur hefur verið í leiklistarnámi úti í New York undanfarin ár. Leikkonan skrifaði undir hjá umboðsskrifstofu á dögunum.

„Það er umboðsskrifstofa sem ég er búin að hafa auga á í svolítinn tíma. Það sem er frábært við þau er að þau eru bæði í New York og L.A. Ég hef verið heppinn hingað til. Núna er komið ár síðan ég útskrifaðist úr skólanum og eitt hefur einhvern veginn leitt að öðru og maður kynnist fólki í gegnum prufurnar. Ég hef t.d. lent í því að þó ég fái ekki eitthvað hlutverk, þá hefur leikstjórinn kallað mig í prufu fyrir annað hlutverk.“

Mikil samkeppni

Unnur segir að samkeppnin sé mikil en að sama skapi er framboðið að verkefnum gríðarlega mikið.

„Minn draumur er að geta leikið hlutverk sem skipta einhverju máli. Mér finnst mikilvægt að það sé hlutverk listafólks að endurspegla samfélagið.“

Hún segir að konur séu meira og meira að fá betri hlutverk.

„Það er að aukast að konur fái jafn mikið borgað og karlmenn. Mig langar að taka þátt í baráttu kvenna og segja sögur sem hafa ekkert endilega verið sagðar áður.“

Unnur er sjálf að klára að skrifa kvikmyndahandrit. Hér að neðan má hlusta á viðtalið í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×