Sport

Katrín Tanja: Silfurmedalían er alltaf með í æfingatöskunni en gullpeningarnir eru ofan í kassa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir.
Katrín Tanja Davíðsdóttir. Mynd/CrossFit/Road to the Games
Katrín Tanja Davíðsdóttir hefur í dag titilvörn sína á heimsleikunum í crossfit en keppni hefst þá í Madison í  Wisconsin-fylki og nýr sigurvegari verður síðan krýndur um Verslunarmannahelgina.

Katrín Tanja hefur unnið heimsleikana tvö ár í röð og getur orðið sú fyrsta í sögunni sem vinnur þrjú ár í röð.

Athygli vakti að Katrín Tanja varð í öðru sæti í svæðakeppninni en hún keppti í East Regional í maímánuði og varð þá að sætta sig við annað sætið á eftir hinni kanadísku Carol-Ann Reason-Thibault.  

Reason-Thibault fékk þrettán fleiri stig en sú íslenska en þar munaði miklu um næstsíðustu greinina þar sem Katrín Tanja náði aðeins 10. sæti og var næstum því þremur mínútum á eftir Carol-Ann.  

Katrín Tanja var samt örugg áfram á sjálfa heimsleikana en það kom þó mörgum á óvart að hún næði ekki að vinna svæðakeppnina sína. Katrín ræddi þetta í innslagi á vegum Crossfit-samtakanna þar sem þær fjórar bestu á heimsleikunum í fyrra voru heimsóttar.

„Ég er alltaf með þennan silfurpening í æfingatöskunni minni. Gullverðlaunapeningarnir mínir eru einhversstaðar ofan í kassa en ég alltaf með silfurmedalíuna hjá mér,“ sagði Katrín Tanja

„Það hafa allir gott af því að tapa. Þetta var gott fyrir mig  á þessum tíma. Ég er ekki ósigrandi. Þetta tap kveikti í mér og ég þurfti á því að halda,“ sagði Katrín Tanja en það má sjá þetta í myndbandinu hér fyrir neðan.  

Katrín Tanja ræðir um tapið og silfurmedalíuna eftir um 18:20 mínútur af myndbandinu hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×