Ótrúlegt en satt – í Japan er nú meiri hagvöxtur en í Bandaríkjunum, á evrusvæðinu og Bretlandi. Á mánudaginn voru birtar upplýsingar um raunvöxt vergrar landsframleiðslu í Japan á öðrum ársfjórðungi. Hagvöxtur í Japan var 4% á ársgrundvelli.
Maður verður auðvitað að fara varlega í að lesa of mikið út úr einni tölu, og verg landsframleiðsla er alræmd fyrir óstöðugleika, en heildarmyndin af sterkum efnahagsbata – kannski jafnvel uppsveiflu samkvæmt sumum viðmiðum – er nokkuð skýr.
Með öðrum orðum er erfitt annað en að álykta sem svo að Shinzo Abe forsætisráðherra hafi staðið við loforð sín um að koma japanska hagkerfinu út úr verðhjöðnunargildrunni sem það var fast í fyrir aðeins nokkrum árum. „Abenomics“, eins og efnahagsstefna Abes hefur verið kölluð, virkar.
Nú sjáum við bæði fyrir endann á verðhjöðnuninni og það sem lítur út fyrir að vera viðvarandi aukning á hagvexti. Svo hvað er í gangi? Á einfaldaðan hátt má segja að það séu sérstaklega tveir þættir sem þessi árin hjálpa Japan út úr lágvaxtagildrunni.
Í fyrsta lagi eru konur að koma í auknum mæli út á vinnumarkaðinn. Og það eru ekki, eins og við sáum á Norðurlöndum á 8. og 9. áratugnum, ungu konurnar heldur eru það miðaldra konur sem eru að koma inn á vinnumarkaðinn.
Þegar Abe varð forsætisráðherra 2012 voru 55 prósent kvenna á aldrinum 55 til 64 ára á vinnumarkaðnum. Nú hefur sú tala hækkað í 65 prósent og þetta er drifkrafturinn sem er að binda enda á neikvæðu lýðfræðilegu tilhneiginguna sem við höfðum séð á japanska vinnumarkaðnum í næstum þrjá áratugi, og þetta ýtir undir hagvöxt.
Það eru mismunandi ástæður fyrir þessari breytingu. Ein sú mikilvægasta er að eftirspurn eftir vinnuafli hefur aukist hratt í Japan þessi árin í kjölfar verulegrar tilslökunar á peningamálastefnunni.
Og peningamálastefnan er önnur mjög mikilvæg ástæða fyrir efnahagslegum árangri Abes. Þess vegna væri hægt að halda því fram að hér sé ekki um neitt „Abenomics“ að ræða heldur „Kurodanomics“, nefnt eftir seðlabankastjóra Japans, Haruchiko Kuroda, sem Shinozo Abe skipaði 2013 með það skýra markmið að koma Japan út úr verðhjöðnuninni. Og það hefur honum tekist – að minnsta kosti að hluta til.
Kuroda hefur tekið upp tvö prósent verðbólgumarkmið og ágenga peningamálastefnu með svokallaðri magnbundinni íhlutun. Japan er ekki enn komið upp í tveggja prósenta verðbólgu en nálgast það og virðist vera að færast varanlega út úr verðhjöðnuninni.
Þetta þýðir að Japanar hafa aftur öðlast trú á framtíðina og hagvöxtur hefur tekið við sér. Og með meiri hagvexti eykst eftirspurn eftir vinnuafli. Reyndar eru nú fleiri laus störf en umsækjendur í japanska hagkerfinu. Og það er eitt af því sem laðar konur – og sérstaklega miðaldra konur – inn á vinnumarkaðinn.
Svo það má vera að Abe forsætisráðherra þurfi að takast á við pólitískar áskoranir núna en efnahagsstefna hans hefur heppnast vel. Hann ætti að þakka japönskum konum og Kuroda fyrir það.
Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.
Fastir pennar