Lífið

Fólk sem les er spennandi

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir og Sæunn Gísladóttir skrifa
Auður Ava Ólafsdóttir rithöfundur segir Íslendinga lesa á annann hátt en áður.
Auður Ava Ólafsdóttir rithöfundur segir Íslendinga lesa á annann hátt en áður. Visir/Ernir
Hvers vegna kaupa Íslendingar færri bækur? Á síðustu sjö árum hefur bóksala dregist saman um 43 prósent. Ýmsar tilgátur eru á lofti um hvers vegna bókamarkaður hefur dregist saman. 

Virðisaukaskattur á bækur er talinn fæla frá kaupendur. Samkeppni við snjallsíma, sjónvarp og kvikmyndir er meiri. Aðgengi að annarri dægurmenningu eykst með ári hverju og þá velja æ fleiri að hlusta frekar en lesa.

Auður Ava Ólafsdóttir rithöfundur telur Íslendinga lesa á annan hátt en áður.

„Þeir lesa öðruvísi, meira af einföldum texta með orðaforða upp á 70 orð eins og á Facebook og Trump notar, en minna af bókmenntatextum sem geyma dýpri hugsun og langtum meiri orðaforða.“

Hún hefur ekki áhyggjur af aðgengi Íslendinga að bókum og menningararfi. „Nei, aðgangurinn er ágætur en athyglin liggur í augnblikinu annars staðar. Það má kannski kenna það við athyglisbrest.“

Bókaormar eru víða

„Einhvern tímann hefði ég svarað að við værum bókaþjóð en ekki endilega bókmenntaþjóð, að við keyptum og gæfum bækur, að við byrjuðum oft á bókum án þess endilega að ljúka við þær. Nú veit ég ekki hverju ég á að svara. Í lífsstílsþáttum sjást engar bækur og manni líður eins og í frystiklefa. Bókaormar eru samt víða.“

Auður Ava segir Íslendinga eyða miklum tíma á samfélagsmiðlum. Og líklega meiri tíma en þá grunar.

„Ég legg til að Íslendingar geri eftirfarandi tilraun. Að þeir byrji á því að skrá hvað þeir eyða miklum tíma á dag á samfélagsmiðlum, eins og á Facebook og að skrolla yfir fréttamiðla og bíða eftir nýuppfærðri frétt. Ég legg til að fólk geri það í einrúmi því það gæti fengið taugaáfall.

Eins og fimm kókosbollur

Sumir nota þetta sem eldsneyti til að viðhalda reiðinni. Ég held að þetta sé ein meginorsök spennu bæði í samfélaginu og á heimilum. Og hvernig líður fólki á eftir? Eins og það hafi borðað fimm kókosbollur. Daglega. Það þýðir ekki að tuða í unglingnum ef þú ert sjálfur límdur við snjallsímann,“ segir Auður Ava sem hefur meiri trú á fyrirmyndum.

„Það vekur forvitni og áhuga hjá börnum og unglingum að sjá foreldri lesa. Sá sem les í eina klukkustund á dag getur lesið 50 bækur á ári. Sumir lesa áður en þeir fara til vinnu á morgnana. Það er líka hægt að hafa ljóðabækur í hanskahólfinu og lesa þær í biðröðinni eftir bensíni hjá Costco. Menn verða að ákveða í hvað þeir ætla að eyða lífinu. Börn eru mjög hrifin af því þegar lesið er fyrir þau,“ segir Auður Ava og segist hafa orðið rithöfundur af að lesa.

„Maður fær allt annan skilning á manninum, heiminum og manni sjálfum af að lesa. Sumar bækur þarf maður að vaxa upp í eins og einhver sagði og það er í lagi,“ segir Auður Ava og segir sögu af vini sem tók sé frí frá samfélagsmiðlum í sumar af því að hann langaði að lesa meira. 

„Það merkilega var, sagði hann, að hann missti ekki af neinu. “

Eiríkur skreppur úr bænum?…

Aðspurð um það hvort íslensk stjórnvöld hafa staðið í stykkinu segir hún athyglisvert að stjórnvöld í stærri málsamfélögum bregðist við með því að styrkja bókmenntaútgáfu. Hér sé það líklega einn maður sem haldi uppi vörnum, Eiríkur Rögnvaldsson prófessor.

„Menn hafa áhyggjur af áhrifum enskunnar víðar en á Íslandi og í því sambandi er athyglisvert að skoða hvernig stjórnvöld í öðrum löndum bregðast við með því að styrkja bókmenntir og bókmenntaútgáfu. Í málsamfélögum sem telja jafnvel yfir hundrað milljónir er rekin markviss málverndunarstefna. Við erum hins vegar 333.000 manna örreytismálsamfélag og mér sýnist að það sé aðallega einn maður, Eiríkur Rögnvaldsson prófessor, sem haldi uppi vörnum fyrir því að hér sé töluð og skrifuð íslenska. Ef hann skreppur út úr bænum, þá nota menn tækifærið og skipta yfir í enskar auglýsingar. Það er nokkuð ljóst að íslenska ríkið þarf að hysja upp um sig buxurnar. Að afnema virðisaukaskatt á bókum ætti að vera sjálfsagt mál í svo fámennu málsamfélagi. Það gæti verið fyrsta skrefið í átt að einhvers konar menningarstefnu.“





Snobbið að drepa menningu

Stefán Máni rithöfundur telur vandamálið einfalt. „Almenningur hefur smám saman orðið afhuga íslenskum bókmenntum. Samkeppnin frá snjalltækjunum er auðvitað ekkert að hjálpa en ef fólkið í landinu langar ekki að lesa eða hreinlega man ekki eftir því að bækur séu til, þá er baráttan erfið. Það eru vissulega margir sem lesa en ekki endilega íslenskar bækur. Að mínu mati er snobbið að drepa íslenska menningu, þá helst bókmenntir og kvikmyndir,“ segir Stefán Máni.

„Frá því að Laxness fékk Nóbelinn hafa íslenskir höfundar upp til hópa skrifað bækur í þeim tilgangi að fá hól og verðlaun hjá einhverri elítu í stað þess að skrifa fyrir almenning, að föndra við stíl í stað þess að segja sögur. Óskarsverðlaunatilnefning Barna náttúrunnar gerði íslenskum kvikmyndum sama óleik. Síðan þá eru flestar íslenskar kvikmyndir gerðar til að ganga í augun á útlenskum verðlaunanefndum. En um leið og listamenn missa sambandið við fólkið í landinu, þá hættir almennningur að kaupa bækur og bíómiða.

Skortur á virðingu

Þannig grafa listgreinarnar undan sjálfum sér. Ef bækur eru ekki skrifaðar fyrir fólkið í landinu, fyrir hvern þá? Berum virðingu fyrir almenningi – hann borgar launin okkar. Og berum virðingu fyrir þeim listamönnum sem skapa fyrir fólkið í landinu. Þannig verður menning til – þannig snúum við blaðinu við,“ segir Stefán Máni.





Katrín Jakobsdóttir lestrarhestur og formaður VG. Fréttablaðið/Ernir
Lestur er sjálfshjálp

„Ég held við missum svo mikið ef við hættum að lesa því það er svo gaman,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sem er mikill lestrarhestur og kunnáttukona um bókmenntir.

Katrín er með meistarapróf í íslenskum bókmenntum og hefur kennt bókmenntakúrsa og námskeið um bókmenntir hjá Endurmenntun.

„Við erum búin að vera að tala mikið um það í stjórnmálunum að fólk lesi minna og þá erum við að horfa á börnin. Það held ég að skipti máli. Ég held að stjórnvöld þurfi að koma virkar að stuðningi við bókaútgáfu, ekki síst barnabókaútgáfu, því snemma beygist krókurinn.“

„Bókaútgáfa hefur verið mjög blómleg á jafn litlu málsvæði. En þegar við sjáum bæði stöðuna á bókaútgáfunni og líka merki um að fólk sé að lesa minna þá verða stjórnvöld að koma einhvern veginn að með einhverjum aðgerðum til að styðja við bókaútgáfu og lestur,“ segir Katrín.

„Lestur er að breytast og það er kannski erfiðara að einbeita sér að lestri. Ég held að það skipti miklu máli að gefnar séu út fjölbreyttar og áhugaverðar bækur og við vinnum að því á heimilum og skólum hvernig við getum gert lestur eftirsóknarverðan.

Hún telur mikilvægt að fólk nái djúpri einbeitingu við lestur sem hún telur sálrænt gott fyrir fólk. „Lestur á góðri skáldsögu, þetta er eins og besta sjálfshjálp sem maður getur fengið. Maður lærir svo mikið um sjálfan sig, þetta hefur gildi fyrir það að kynnast sjálfum sér og skilja betur tilfinningar sínar. Þetta er ekki bara spurning um að lesa sér til skemmtunar. Ég held að þetta sé beinlínis mannbætandi,“ segir Katrín.

Mikilvægt fyrir karla að lesa líka

„Það er oft auðveldara að kveikja á sjónvarpinu eða kíkja aðeins á netið og eyða klukkutíma þar. Þetta þarf að vera svolítið meðvituð ákvörðun hjá fólki að setjast niður og lesa. En það þarf ekki alltaf að kaupa bækur það er hægt að fara á bókasafnið og finna sér eitthvað áhugavert,“ segir Katrín aðspurð um hvernig fólk á fullorðinsaldri geti eflt lestur. Hún segir lykilatriði að finna sér þá eitthvað sem hentar.

„Ég hef verið með hópa þar sem er fólk sem hefur ekki lesið skáldsögu frá því að það var í grunnskóla. Þá hjálpar að gera það með öðrum og tala um bækurnar. Þá held ég líka að sé gott að velja sér þá eitthvað skemmtilegt. Það þarf ekki að vera þungt. Stundum er mjög mikið að gera hjá mér, þá sest ég niður og les bara ljóð því það er svo stutt. Ég les líka mikið af glæpasögum, þær reyna kannski ekki á einhverja sérstaka túlkun,“ segir Katrín.

Að lokum bendir Katrín á að rannsóknir sýni að konur lesi meira skáldskap en karlar. „En ég held það sé mikilvægt fyrir karla líka að lesa skáldskap. Karlar virðast frekar hætta að lesa skáldskap, en þetta er svo mannbætandi, þess vegna held ég að það sé gott fyrir þá að lesa meiri skáldskap.“





Njörður Sigurjónsson formaður samstarfsnefndar sem skilaði skýrslu árið 2014 um framtíð bókaútgáfu.
Ráðherra vildi ekki funda 

Staðan á íslenskum bókamarkaði þykir mörgum hafa verið fyrirsjáanleg. Í janúar 2014 var skýrslu samráðsnefndar um framtíð bókaútgáfu á Íslandi skilað til Illuga Gunnarssonar, þáverandi menntaráðherra. Í skýrslunni er tiltekið sérstaklega að yfirvöld þurfi að gæta að því að íslenskri bókaútgáfu sé búið hagfellt viðskiptaumhverfi í hagstæðum virðisaukaskatti. Þetta sama ár var virðisaukaskattur hækkaður á bækur. Þvert á varnaðarorð.

„Það var minni en enginn áhugi á skýrslunni í ráðuneytinu á þessum tíma,“ segir Njörður Sigurjónsson, formaður nefndarinnar. Nefndin starfaði lögum samkvæmt og var gert að fjalla um framtíð bókaútgáfu. Nefndin kom saman árið 2013 og á meðan hún starfaði var umræða um hækkun virðisaukaskatts á bækur í samfélaginu. „Skýrslan var ekkert notuð. Það er hefð fyrir því þegar skýrsla er komin út að funda um niðurstöðurnar með ráðherra. En það varð ekki af því,“ segir Njörður sem segist hafa reynt að fá fund með ráðherra. Þá hafi dregist að birta skýrsluna á vef ráðuneytisins. 

Þegar skýrslan var skrifuð var ekki komin sú þróun í ljós að bóksala var farin að minnka. Þvert á móti mátti telja hana stönduga. „Við lögðum margt annað gott til, svo sem að prentarfurinn allur verði öllum aðgengilegur á rafrænu formi. Það er fyrirmynd að slíku frá Noregi. Þá lögðum við til að bókaútgáfa nyti stuðnings við að gefa út rafbækur og huga þyrfti vel að útgáfu námsefnis á öllum stigum náms af ríki og sveitarfélögum,“ segir Njörður.







Kristján Þór Júlíusson mennta og menningarmálaráðherra. Fréttablaðið/Eyþór
Kristján Þór Júlíusson, núverandi mennta- og menningarmálaráðherra, segist ekki þekkja innihald skýrslunnar frá árinu 2014 þrátt fyrir að hafa skipað starfshóp um sama vanda nýverið. „Ég þekki ekki innihaldið í skýrslunni, þekkingin er hér í ráðuneyti. Eftir samráð við fólk sem þekkir til í þessum geira þá var ákveðið að skipa starfshóp. Það er ýmislegt breytt frá árinu 2014. Það hefur til dæmis orðið breyting í notkun samfélagsmiðla.“

Kristján Þór tekur undir vond áhrif hækkunar virðisaukaskatts á bóksölu. „Þetta hefur ekki haft jákvæð áhrif á bóksölu og ég man eftir varnaðarorðum þáverandi menntamálaráðherra vegna breytinganna,“ segir Kristján Þór, sem segir þó enga vinnu hafa farið fram í þeim efnum að afnema virðisaukaskatt á bækur.

Egill Örn Jóhannsson formaður Félags íslenskra bókaútgefenda.
Að duga eða drepast

Egill Örn Jóhannsson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, segir orðin tóm ekki duga lengur. Aðgerða sé þörf. „Við getum ekki lengur skipst á, útgefendur og höfundar annars vegar og stjórnvöld hins vegar, að segjast hafa skilning á vandanum,“ segir hann.

„Við erum búin að vara við þessu árum saman og ekki síst í tengslum við hækkun virðisaukaskattsins, staðan þá þegar var orðin grafalvarleg. Nú er að duga eða drepast fyrir íslensk stjórnvöld þegar kemur að íslenskri bókaútgáfu og ef við viljum yfirhöfuð að hjá bókmenntaþjóðinni komi út myndarlegt og gott úrval bóka,“ segir Egill.

Hrun fyrir hvaða grein sem er

„Samdráttur á liðnum níu til tíu árum er rúmlega 30 prósent. Það segir sig sjálft að fyrir hvaða grein sem er þá myndi slíkur samdráttur teljast til hruns. Íslenskur bókamarkaður og íslensk bókaútgáfa er og var örmarkaður sem má við ákaflega litlu. Það er ljóst að þessi tekjuminnkun sem orðið hefur og sér ekki fyrir endann á getur komið til með að hafa gríðarleg áhrif á bókaútgáfuna. Ég legg hér áherslu á að við sjáum því miður ekki enn fyrir endann á þessum samdrætti. Við höfum ekki enn fundið viðspyrnuna sem flestar greinar íslensks atvinnulífs hafa fundið eftir hrun,“ segir Egill.

Skattur lækkaður annars staðar

Egill bendir á að virðisaukaskattur hafi verið hækkaður hérlendis á meðan víðast hvar í Evrópu kepptust menn við að lækka virðisaukaskatt á bækur og bókaútgáfu. Egill vísar í skýrsluna frá árinu 2014 um stöðu bókaútgáfu og hvað þyrfti að gera svo vel mætti fara. Hann furðar sig á því að henni hafi verið stungið undir stól. „Ég hef aldrei heyrt nokkurn mann á vegum hins opinbera ræða þá skýrslu, henni var einfaldlega stungið undir stól. Núna þremur árum síðar er farið fram á nýja skýrslu. Vonandi fer ekki fyrir henni eins og hinni,“ segir Egill.

Fatamarkaðnum var bjargað 

Egill gagnrýnir viðbrögð stjórnvalda við stöðu bókaútgáfu, ekki hafi verið brugðist eins við hjá öðrum atvinnugreinum, til að mynda fataverslun. „Það er ekki langt síðan stjórnvöld sáu ástæðu til að koma fataverslun á Íslandi til hjálpar sem þá hafði þurft að þola töluverðan samdrátt sökum þess að fólk virtist vera farið að kaupa fatnað erlendis í mun meiri mæli. Þá afnámu þau í einum grænum tolla og gjöld af fatnaði. Egill telur að hækkaður virðisaukaskattur eigi svo sannarlega sinn þátt í því að viðspyrna hafi ekki náðst í sölu. „Að sjálfsögðu væri mikil einföldun að halda því fram að virðisaukaskatturinn einn og sér beri þessa ábyrgð alla. En hann er kannski skýrasta dæmi um hvernig ríkið og stjórnvöld hafa nálgast bókaútgáfu á Íslandi í áratugi.

Það þarf að bregðast hratt og vel við. Fljótlegast leiðin og sú sanngjarnasta væri að fara að dæmi Norðmanna og afnema allan virðisaukaskatt af bókum. Einnig þarf ríkið að setja sér bókmenningarstefnu. Hún þarf ekki að vera ýkja flókin en hún gæti orðið leiðarvísir um það hvernig best megi koma íslenskri bókaútgáfu fyrir.“

Egill telur að til að örva bókmenntaáhuga þjóðarinnar mætti koma bókmenntaarfinum á rafrænt form. 





Guðrún Vilmundardóttir eigandi Benedikt bókaútgáfu. Fréttablaðið/Ernir
Enn bókaþjóð

Guðrún Vilmundardóttir, eigandi Benedikts bókaútgáfu, segir Íslendinga enn geta kallað sig bókaþjóð. „Bóksala fyrir jólin sýnir að við metum bókina og gefum þeim sem okkur finnst vænt um hana að gjöf. Þetta er fallegur siður og við erum enn heimsmeistarar í að selja ný skáldverk, miðað við höfðatölu. Mér finnst að hér eigi stjórnvöld að taka undir með fólkinu sínu, og sýna í verki að þetta sé eitthvað sem við viljum varðveita.

Mér finnst ég umkringd bókaormum! 

Ég þýddi einu sinni bók eftir franskan höfund, Philippe Claudel. Hann kom í upplestrarferð og við lásum upp á Borgarbókasafninu. Rétt þegar við vorum að hefja lesturinn hvíslaði hann að mér: Þú áttar þig á því að ef við værum í París og þetta hlutfall Parísarbúa mætti – þá værum við að fara að lesa upp á Stade de France.“

Hvar er menningarstefnan?

Guðrún segist ekki þora að spá um þróun á bókamarkaði. „Margir héldu að rafbókin myndi gera út af við hina prentuðu bók. Þessi nýjung tók hluta af markaðnum – en kannski styrkti hún líka að vissu leyti prentverkið í sessi. 

Ég þori ekki að spá um þróunina, en trúi því að hvað sem verði skapist ný tækifæri. Nú hljóta vandaðir sjónvarpsþættir til dæmis að vera miklir keppinautar bókarinnar um tíma fólks – en eru þeir bestu ekki byggðir á góðum bókum?“ Guðrún segir stjórnvöld þurfa skýra menningarstefnu.

„Ég lærði í Frakklandi fyrir 20 árum. Frakkar eru með skýra og ákveðna menningarstefnu „til varnar franskri tungu“. Frakkar eru 67 milljónir og finnst aðkallandi að verja tungu sína gagnvart ensku. Við erum 330.000, erum stolt af íslenskunni og köllum okkur bókaþjóð – en hvar er menningarstefnan?

Eitt verður ekki af íslenskum stjórnvöldum tekið, og það eru listamannalaunin. Þau styð ég heilshugar, þar er ákveðin stefna í gangi, sem virkar. Ég óska eftir skýrri stefnu varðandi bókaútgáfu.

Einföld og skýr viljayfirlýsing væri að afnema skatt af bókum. Veita bókasöfnum fjármagn svo þau geti keypt bækur – það er gott fyrir útgáfuna og höfunda og lesendur. Eða veita bókaútgáfu skattaafslátt af framleiðslu, eins og kvikmynda- og tónlistargeirunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.