Lífið

Bæjarstjórinn leikur á fiðluna í kvöld

Guðný Hrönn skrifar
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri leikur á fiðluna í kvöld.
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri leikur á fiðluna í kvöld.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, er einn þriggja tónlistarmanna sem troða upp í Keflavíkurkirkju í kvöld. Um er að ræða upphaf Ljósanætur 2017 og hafa svokallaðir Hjólbörutónleikar vakið gífurlega lukku. Auk Kjartans koma fram þeir Elmar Þór Hauksson söngvari og Arnór Vilbergsson organisti.

Þetta er í þriðja skiptið sem þremenningarnir taka sig saman. „Þetta hefur fest sig í sessi, enda húsfyllir í þau skipti sem við höfum spilað. Við erum búnir að setja lagalistann inn á Facebook og menn geta farið að undirbúa sig fyrir kvöldið,“ segir Kjartan Már en fyrirkomulag tónleikanna er dálítið óvenjulegt þar sem hópurinn hefur tekið saman 184 lög sem fara á lista og svo sjá gestir sjálfir um að velja með því að t.d. gala yfir hópinn.

„Í fyrra tókum við með okkur baðvog og fengum tónleikagesti til að stíga á og sú tala sem upp kom réð þá næsta lagi. Þetta var vinsælt, þó aðallega hjá körlunum. Annars voru það fæðingarár og annað slíkt sem fengu að fljúga og vöktu lukku.“

Tónleikarnir hefjast klukkan 20.00 í kvöld og er aðgangseyrir 1.500 krónur.

Aðhugið að tónleikarnir eru í kvöld en ekki annað kvöld eins og kom fram í Fréttablaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.