Lífið

„Eyddu púðrinu í að breyta hugsun frekar en hegðun“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Ragga nagli er þekkt fyrir hreinskilna pistla um heilsu og lífsstíl.
Ragga nagli er þekkt fyrir hreinskilna pistla um heilsu og lífsstíl. Úr einkasafni
Þjálfarinn og sálfræðingurinn Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga Nagli, segir mikilvægt að reyna að breyta hugsun frekar en hegðun ef markmiðið er að breyta einhverju í lífsstílnum.

„Þegar við eyðum öllu bensíninu í tanknum í að breyta hegðun okkar í kringum mat þá er innra samtalið einhvern veginn svona:

„Ég ætla EKKI að borða neinn sykur í dag.“

„Ég ÆTLA að borða bara hollt alla vikuna.“

„Ég SKAL standast freistingar á kaffistofunni.“

Þá erum við frústreruð. Tæmd af viljastyrk. Eins og gasblaðra daginn eftir sautjánda júní. Hnúarnir hvítir. Jaxlarnir sargaðir.“

Ragga segir að daglega mæti allir nýjum aðstæðum og kringumstæðum sem fólk viti ekki hvernig eigi að tækla.

„Hinsvegar ef við breytum viðhorfum. Hugsun. Skoðunum. Burt frá Stóra Dómi um hvað við setjum upp í túlann. Burt frá systrunum Samviskubiti og Sektarkennd. Burt frá bræðrunum „MÁ“ og „MÁ ekki“ Burt frá öllum skoðunum sem gefa mat vald yfir þér.Þá er innra samtalið einhvern veginn svona.

„Ég kýs hollari kosti því það styður við gildi mín og markmið.“

„Ég vel yfirleitt hollt því þannig hugsa ég best um sjálfan mig.“

„Ég vel stundum næringarsnauðari kosti bara til að gleðja mig.“

Ragga segir að þetta geri allar matartengdar ákvarðanir mjög auðveldari.

„Því þú veist alltaf hvað þú vilt gera og hvað þú þarft að gera. Eyddu púðrinu í að breyta hugsun frekar en hegðun.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.