Í eigin heimi Þórlindur Kjartansson skrifar 6. október 2017 07:00 Fyrir um það bil fimmtán árum hringdi móðir vinar míns í son sinn með óvenjulegar áhyggjur. Hún hafði verið á rölti í miðbænum og orðið vitni að stórundarlegu háttalagi þjóðþekkts athafna- og listamanns, og varð svo um að hún varð að fá nánari skýringar. – Veistu hvort það geti verið að hann Eyþór Arnalds sé orðinn eitthvað skrýtinn? spurði hún son sinn. Vinur minn treysti sér auðvitað ekki til þess að fullyrða um það við móður sína. – Af hverju heldurðu að það geti verið? spurði hann. – Ég átti leið yfir Ingólfstorg í dag í sólinni og sá Eyþór Arnalds. Hann þrammaði yfir torgið eins og hann væri að flýta sér eitthvað ægilega mikið. – Já, getur ekki bara verið að hann hafi verið að fara á fund? – Það var ekki það sem var skrýtið, heldur talaði hann stanslaust út í loftið með alls konar handabendingum, eins og hann væri í svakalegum samræðum. – Já? – En hann var ekki að tala við neinn. Það var enginn með honum og enginn í kringum hann. Hann var bara að tala við sjálfan sig.Blaðrandi út í loftið Vinur minn var fljótur að átta sig á málinu og byrjaði að reyna að útskýra fyrir mömmu sinni hina svokölluðu „bluetooth“ tækni. Að Eyþór hafi sennilega verið búinn að tengja símann sinn við örlítið heyrnartæki sem hékk á eyranu. Það væri því engin sérstök áhersla að álykta út frá þessu að athafnamaðurinn væri að verða eitthvað skrýtinn, þótt hann væri örugglega að þessu leyti, eins og mörgu öðru, töluvert á undan sinni samtíð. Nú til dags kippir sér enginn upp við það að sjá fólk blaðra eitthvað út í loftið. Þessi þróun er mjög jákvæð fyrir fólk sem sannarlega er skrýtið, því nú tekur enginn lengur eftir því þegar það á í hrókasamræðum við sjálft sig. En stærsta breytingin er vitaskuld snjallsímarnir sem við störum stanslaust ofan í. Það er eitthvað á reiki; en vísbendingar eru um að fólk notist að meðaltali við snjallsímana sína í þrjár til fjórar klukkustundir á dag, og handfjatli þá mörg hundruð sinnum.Afþreyingartæki eða snjalltæki Hún er því ekki skrýtin umræðan sem upp hefur sprottið í vikunni um hvort grípa þurfi í taumana og vernda blessuð börnin okkar fyrir snjalltækjavánni með því að setja bann við notkun tækjanna í skólum. Grein Hönnu Borgar Jónsdóttur í Vísi í vikunni hefur farið víða, en þar færir hún sannfærandi rök fyrir því að banna eigi snjallsíma í skólum og skólastofum. Hún hefur rétt fyrir sér—snjallsímar eiga ekkert erindi í skólastofuna—ekki frekar en önnur leikföng og afþreyingartæki. Engum dytti í hug að leyfa börnum að skoppa körfubolta, spila á ukulele eða leggja kapal á meðan á kennslustund stendur. Snjallsímar eru öflug tæki og flest smáforritin, sem fólk hleður í þá, eru sérstaklega hönnuð til þess að ræna tíma og einbeitingu frá notendum. Þótt ýmislegt snjallt sé hægt að gera—eins og að hringja í fólk, senda skilaboð, lesa tölvupóst og stunda tungumálanám—þá er það líklega algjör sjálfsblekking að halda því fram að „snjalli“ hlutinn af snjallsímanum sé það sem heilli mest. Snjallsíminn er nefnilega fyrst og fremst afþreyingartæki sem fólk grípur til þegar það finnur til óþreyju. Óþreyja er mjög leiðinleg tilfinning. Hún er meira að segja svo hvimleið að í „gamla daga“ greip ríkissjónvarpið til sérstakra úrræða til þess að draga úr óþreyju barna á stórhátíðum með því að sýna barnaefni að morgni dags á aðfangadag og gamlársdag. En þótt óþreyja sé leiðinleg þá er ekki þar með sagt að manninum sé alltaf hollast að „afþreyja sig“ þegar hann finnur til hennar.Vandinn er heima Þess vegna er býsna ólíklegt að snjallsímanotkun í grunnskólum sé stærsta vandamálið. Í grunnskólum eru börn í skipulögðu umhverfi, í góðum félagsskap og undir traustri handleiðslu. Raunverulegi vandinn er inni á heimilunum. Óþreyja gerir nefnilega helst vart við sig þegar maður telur sig ekki hafa neitt að gera, þegar maður þarf að bíða eftir einhverju eða þegar maður veit að maður ætti að vera að gera eitthvað leiðinlegt og enginn er til þess að halda manni almennilega við efnið. Við þessar aðstæður hafa allir—bæði börn og fullorðnir—ríka tilhneigingu til þess að grípa til einhvers konar afþreyingar. Og það er einmitt við þessar sömu aðstæður sem mikilvægt er að koma sér upp venjum til þess að forðast afþreyingar—eins og til dæmis þegar fólk þarf að vinna erfið eða leiðinleg verkefni, læra nýja hluti eða einbeita sér að flóknum viðfangsefnum.Boð og bönn Það eru ekki nema rétt rúmlega þrjátíu ár síðan bannað var að selja börnum undir sextán ára aldri sígarettur. Fullorðna fólkið hafði réttilega á tilfinningunni að líklegast væri rétt að reyna að forða börnum frá tóbakinu. Eitthvað svipað er kannski í gangi núna með snjalltækin. Fullorðið fólk finnur best á sjálfu sér hversu ávanabindandi þau geta verið. En rétt eins og með sígaretturnar þá er það sjálfsblekking að fullorðna fólkið ráði eitthvað betur en börnin við snjallsímafíknina. Þess vegna hlýtur að vera eðlilegt að velta fyrir sér hvort það sé yfirhöfuð vit í því að fullorðið fólk mæti til vinnu með afþreyingartæki meðferðis. Það yrði án vafa meira sannfærandi fyrir börnin að sjá foreldra sína skilja símana við sig heldur en að banna þeim hegðun sem það sjálft er niðursokkið í. Heimurinn hefur breyst hratt frá því móðir vinar míns hafði áhyggjur af því að Eyþór Arnalds væri orðinn eitthvað skrýtinn þar sem hann gekk í sínum frumstæða sýndarveruleika í eigin heimi yfir Ingólfstorg. Annaðhvort er Eyþór Arnalds orðinn venjulegur—eða við erum flest öll orðin stórfurðuleg. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Þórlindur Kjartansson Mest lesið Framtíð menntunar er í einkarekstri Unnar Þór Sæmundsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Kennarar: hvernig höldum við þeim við efnið? Davíð Már Sigurðsson Skoðun Af hverju er ekki búið að tryggja raforkuöryggi almennings? Hjálmar Helgi Rögnvaldsson Skoðun Þorpið Alina Vilhjálmsdóttir Skoðun Þegar Trölli stal atkvæðum Eyjólfur Ingvi Bjarnason Skoðun Tjáningarfrelsið, ábyrgð og Snorri Másson Bjarndís Helga Tómasdóttir ,Kári Garðarsson Skoðun Er lítil samkeppni á fjármálamarkaði? Gústaf Steingrímsson Skoðun Hvað er friður? Sigurvin Lárus Jónsson Skoðun Evrópa án utanríkisstefnu í aukahlutverki á ófriðartímum á eigin grund? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Fyrir um það bil fimmtán árum hringdi móðir vinar míns í son sinn með óvenjulegar áhyggjur. Hún hafði verið á rölti í miðbænum og orðið vitni að stórundarlegu háttalagi þjóðþekkts athafna- og listamanns, og varð svo um að hún varð að fá nánari skýringar. – Veistu hvort það geti verið að hann Eyþór Arnalds sé orðinn eitthvað skrýtinn? spurði hún son sinn. Vinur minn treysti sér auðvitað ekki til þess að fullyrða um það við móður sína. – Af hverju heldurðu að það geti verið? spurði hann. – Ég átti leið yfir Ingólfstorg í dag í sólinni og sá Eyþór Arnalds. Hann þrammaði yfir torgið eins og hann væri að flýta sér eitthvað ægilega mikið. – Já, getur ekki bara verið að hann hafi verið að fara á fund? – Það var ekki það sem var skrýtið, heldur talaði hann stanslaust út í loftið með alls konar handabendingum, eins og hann væri í svakalegum samræðum. – Já? – En hann var ekki að tala við neinn. Það var enginn með honum og enginn í kringum hann. Hann var bara að tala við sjálfan sig.Blaðrandi út í loftið Vinur minn var fljótur að átta sig á málinu og byrjaði að reyna að útskýra fyrir mömmu sinni hina svokölluðu „bluetooth“ tækni. Að Eyþór hafi sennilega verið búinn að tengja símann sinn við örlítið heyrnartæki sem hékk á eyranu. Það væri því engin sérstök áhersla að álykta út frá þessu að athafnamaðurinn væri að verða eitthvað skrýtinn, þótt hann væri örugglega að þessu leyti, eins og mörgu öðru, töluvert á undan sinni samtíð. Nú til dags kippir sér enginn upp við það að sjá fólk blaðra eitthvað út í loftið. Þessi þróun er mjög jákvæð fyrir fólk sem sannarlega er skrýtið, því nú tekur enginn lengur eftir því þegar það á í hrókasamræðum við sjálft sig. En stærsta breytingin er vitaskuld snjallsímarnir sem við störum stanslaust ofan í. Það er eitthvað á reiki; en vísbendingar eru um að fólk notist að meðaltali við snjallsímana sína í þrjár til fjórar klukkustundir á dag, og handfjatli þá mörg hundruð sinnum.Afþreyingartæki eða snjalltæki Hún er því ekki skrýtin umræðan sem upp hefur sprottið í vikunni um hvort grípa þurfi í taumana og vernda blessuð börnin okkar fyrir snjalltækjavánni með því að setja bann við notkun tækjanna í skólum. Grein Hönnu Borgar Jónsdóttur í Vísi í vikunni hefur farið víða, en þar færir hún sannfærandi rök fyrir því að banna eigi snjallsíma í skólum og skólastofum. Hún hefur rétt fyrir sér—snjallsímar eiga ekkert erindi í skólastofuna—ekki frekar en önnur leikföng og afþreyingartæki. Engum dytti í hug að leyfa börnum að skoppa körfubolta, spila á ukulele eða leggja kapal á meðan á kennslustund stendur. Snjallsímar eru öflug tæki og flest smáforritin, sem fólk hleður í þá, eru sérstaklega hönnuð til þess að ræna tíma og einbeitingu frá notendum. Þótt ýmislegt snjallt sé hægt að gera—eins og að hringja í fólk, senda skilaboð, lesa tölvupóst og stunda tungumálanám—þá er það líklega algjör sjálfsblekking að halda því fram að „snjalli“ hlutinn af snjallsímanum sé það sem heilli mest. Snjallsíminn er nefnilega fyrst og fremst afþreyingartæki sem fólk grípur til þegar það finnur til óþreyju. Óþreyja er mjög leiðinleg tilfinning. Hún er meira að segja svo hvimleið að í „gamla daga“ greip ríkissjónvarpið til sérstakra úrræða til þess að draga úr óþreyju barna á stórhátíðum með því að sýna barnaefni að morgni dags á aðfangadag og gamlársdag. En þótt óþreyja sé leiðinleg þá er ekki þar með sagt að manninum sé alltaf hollast að „afþreyja sig“ þegar hann finnur til hennar.Vandinn er heima Þess vegna er býsna ólíklegt að snjallsímanotkun í grunnskólum sé stærsta vandamálið. Í grunnskólum eru börn í skipulögðu umhverfi, í góðum félagsskap og undir traustri handleiðslu. Raunverulegi vandinn er inni á heimilunum. Óþreyja gerir nefnilega helst vart við sig þegar maður telur sig ekki hafa neitt að gera, þegar maður þarf að bíða eftir einhverju eða þegar maður veit að maður ætti að vera að gera eitthvað leiðinlegt og enginn er til þess að halda manni almennilega við efnið. Við þessar aðstæður hafa allir—bæði börn og fullorðnir—ríka tilhneigingu til þess að grípa til einhvers konar afþreyingar. Og það er einmitt við þessar sömu aðstæður sem mikilvægt er að koma sér upp venjum til þess að forðast afþreyingar—eins og til dæmis þegar fólk þarf að vinna erfið eða leiðinleg verkefni, læra nýja hluti eða einbeita sér að flóknum viðfangsefnum.Boð og bönn Það eru ekki nema rétt rúmlega þrjátíu ár síðan bannað var að selja börnum undir sextán ára aldri sígarettur. Fullorðna fólkið hafði réttilega á tilfinningunni að líklegast væri rétt að reyna að forða börnum frá tóbakinu. Eitthvað svipað er kannski í gangi núna með snjalltækin. Fullorðið fólk finnur best á sjálfu sér hversu ávanabindandi þau geta verið. En rétt eins og með sígaretturnar þá er það sjálfsblekking að fullorðna fólkið ráði eitthvað betur en börnin við snjallsímafíknina. Þess vegna hlýtur að vera eðlilegt að velta fyrir sér hvort það sé yfirhöfuð vit í því að fullorðið fólk mæti til vinnu með afþreyingartæki meðferðis. Það yrði án vafa meira sannfærandi fyrir börnin að sjá foreldra sína skilja símana við sig heldur en að banna þeim hegðun sem það sjálft er niðursokkið í. Heimurinn hefur breyst hratt frá því móðir vinar míns hafði áhyggjur af því að Eyþór Arnalds væri orðinn eitthvað skrýtinn þar sem hann gekk í sínum frumstæða sýndarveruleika í eigin heimi yfir Ingólfstorg. Annaðhvort er Eyþór Arnalds orðinn venjulegur—eða við erum flest öll orðin stórfurðuleg. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins.
Evrópa án utanríkisstefnu í aukahlutverki á ófriðartímum á eigin grund? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Evrópa án utanríkisstefnu í aukahlutverki á ófriðartímum á eigin grund? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun